Þessa dagana er þess minnst að 60 ár eru liðin frá því að Ísraelsríki var stofnað. Tilurð hins nýja gyðingaríkis á sínum tíma naut almenns stuðnings í Evrópu, en Palestínumenn upplifðu atburðina sem stórfelldar hörmungar, „Nakba“ á þeirra máli. Um 750 þúsund manns hröktust á flótta frá heimilum sínum og í dag telja Sameinuðu þjóðirnar að nærri fimm milljónir Palestínumanna séu landflótta og Ísraelsríki leyfir ekki að þeir snúi heim aftur. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur ályktað á hverju ári allt frá árinu 1949, um rétt flóttafólksins til að snúa heim aftur og til skaðabóta fyrir missi sinn. Þær ályktanir hafa engu um það breytt, heldur ekki alþjóðalög eða mannúðar- og mannréttindasáttmálar sem kveða skýrt á um rétt flóttafólks til að snúa heim aftur.
Þessi sextíu ár hafa verið ár mikilla hörmunga fyrir palestínsku þjóðina, bæði á herteknu svæðunum og hjá þeim hafa hírst í flóttamannabúðum kynslóð fram af kynslóð og gera enn.

Á þessum árum hefur reynt á þolrifin hjá Palestínumönnum, en þjóðin hefur sýnt af sér ótrúlega þrautseigju og þolgæði. Andspyrnan gegn hernáminu hefur tekið á sig ólík form. Framanaf virtust menn trúa á að vopnuð barátta gæti skilað árangri, en síðustu þrjá áratugina hefur friðarstefna verið meginatriði hjá forystu palestínsku þjóðarinnar og fulltrúum hennar, PLO – Frelsissamtökum Palestínu. Palestínumenn hafa lengi gert sér ljóst að réttlát lausn, sem tryggir báðum þjóðum og svæðinu öllu frið, næst einungis með friðarviðræðum.
Íslensk stjórnvöld áttu sinn þátt í skiptingu Palestínu en tillagan sem samþykkt var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 29. nóvember 1947 var lögð fram af sendifulltrúa Íslands. Hún gekk í stórum dráttum út á helmingaskipti, en áður en langt um leið var hlutur gyðinga orðinn fjórðungur landsins til viðbótar. Í stríðsátökum hafði stór hluti Palestínumanna flúið frá heimilum sínum, og þegar vopnahlé komst á í júní 1949 var skiptingin orðin þannig að 78% voru á valdi hins nýja Ísraelsríkis en 22% eftir handa Palestínumönnum.
Það tók áratugi fyrir Palestínumenn að sætta sig við þessa skiptingu og það gerðist ekki fyrr en Ísraelsher hafði tekið landið allt í leifturstríði sem stóð í sex daga í júníbyrjun 1967. Og þá áttu eftir að líða 20 ár til viðbótar þangað til Palestínumenn viðurkenndu Ísraelsríki innan landamæranna frá 1949. Það gerðist með sjálfstæðisyfirlýsingu sem Yasser Arafat forseti las upp á Þjóðþinginu þann 15. nóvember 1988. Þar með höfðu Palestínumenn fallist á tveggja ríkja lausnina.
Hamas-samtökin, sem voru þá nýstofnuð, hafa ekki verið aðili að PLO og ekki verið tilbúin að viðurkenna tilvistarrétt Gyðingaríkissins Ísrael, eins og það heitir formlega. Samtökin hafa engu að síður verið reiðubúin síðustu árin til friðarsamninga við Ísrael á grundvelli landamæranna eins og þau voru 1967, sem er sá grundvöllur sem alþjóðasamfélagið byggir á. Forystumenn Ísraelsríkis hafa hinsvegar aldrei verið reiðubúnir til að gefa upp eða semja um nein ákveðin landamæri. Í þeirri stöðu getur að sjálfsögðu verið erfitt að viðurkenna ríkið, ef menn vita ekki hvað er verið að viðurkenna.
Deilurnar milli stærstu stjórnmálafylkinganna í Palestínu, Fatah og Hamas, spilla að sjálfsögðu mjög fyrir baráttu þjóðarinnar. Stjórnir Bandaríkjanna og Ísraels gera allt sem þau geta til að ala á þessum klofningi og þegar samningar hafa náðst milli palestínsku fylkinganna eins og gerðist nýverið á fundi í Jemen, þá hótaði Ísraelsstjórn að slíta öllum friðarviðræðum.
Staðan er erfið en í grundvallaratriðum er palestínska þjóðin sameinuð í baráttu sinni fyrir friði, sjálfsákvörðunarrétti, frelsi, fullveldi og mannréttindum. Í þeirri baráttu er palestínskt flóttafólk ekki gleymt.
Birtist í Frjáls Palestína.