Atburðarás síðasta mánaðar hefur einkennst af meiri örvæntingu af hálfu Palestínumanna og miskunnarlausari grimmd af hálfu Írsraelshers og landræningja en sést hefur á Vesturbakkanum um árabil.
Algert vonleysi virðist vera að ná tökum á ungu fólki í Palestínu sem þekkir ekkert annað en niðurlægingu og kúgun hernámsins og sér enga framtíð fyrir sér. Atvinnuleysi er útbreitt og hernámið eyðileggur skipulega sérhvern möguleika á að sjá sér farborða, skapa sér heimili og lifa eðlilegu lífi. Enginn friður gefst, ekkert rétt læti og mannréttindi eru fyrir borð borin. Ferðafrelsi er skert, ekkert tillit er tekið til rétts barna til öryggis á heimili sínu, við leik og skólagöngu. Sérhver Palestínumaður, á hvaða aldri sem er, getur átt yfir höfði sér ofbeldisárás, niðurlægingu, handtöku, pyntingar og dauða, án nokkurrar annarrar ástæðu en þeirrar að vera fæddur í Palestínu.

Hernám Palestínu hófst árið 1948 þegar nýstofnað Ísraelsríki lagði undir sig fjórðung Palestínu til viðbótar þeim helmingi sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu ráð fyrir í samþykkt sinni 29. nóvember 1947. Í vopnahléi sem batt enda á stríð nágrannaríkja og Ísraels sem lauk 1949 urðu til landamæri sem tryggði Ísrael 78% Palestínu. Í Sex daga stríðinu fullkomnaði Ísraels hernámið með því að taka það sem eftir var af Palestínu, auk landssvæða frá öðrum nágrannaríkjum.
Ísrael skili herteknu svæðunum, gömul og ný krafa
Samkvæmt alþjóðalögum og samþykkt um Sameinuðu þjóðanna ber Ísrael að skila herteknu svæðunum frá 1967, það er þeim 22% sem þau bættu við sig þá, Gaza-svæðinu og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Frá árinu 1988 hefur það verið stefna Frelsissamtaka Palestínu, PLO, að sætta sig við þessi 22% og krefjast ekki annars en að Ísrael skili þessum herteknu svæðum.
Smám saman hafa öll málsmetandi stjórnmálaöfl Palestínumanna, þar á meðal Hamas, fallist á þessa stefnu.
Oslóarsamkomlagið 1993 gerði í grunninn ráð fyrir að friður grundvallaðist á þessari skiptingu. Ísrael átti að skila herteknu svæðunum fimm árum eftir að samkomulag lægi fyrir. Rabin hershöfðingi, þáverandi forsætisráðherra Ísraels galt fyrir þetta friðarsamkomulag með lífi sínu, var myrtur á útifundi af ísraelskum öfgamanni. En það voru þannig öfgamenn, eins og Netanyahu núverandi forsætisráðherra, sem alla tíð voru á móti Oslóarsamkomulaginu, sem komust til valda. Friðarviðræður sem siglt hafa í kjölfarið og á endan um í strand fyrir hálfu öðru ári, hafa verið meiningarlausar, því að öðru megin við borðið hefur verið aðili, sem er milljón sinnum sterkari að auði og vopnum og hefur engan áhuga á að semja við Palestínumenn um sjálfstætt, fullvalda ríki þeim til handa. Friðarviðræður hafa endalaust verið dregnar á langinn meðan tíminn er notaður til að styrka stöðu landræningjanna sem sífellt bæta við sig landi og hefur nú verið fjölgað upp í 600 þúsund. Þetta er byggðir sem er algerlega á skjön við alþjóðalög sem banna alfarið að íbúar séu fluttir inn á hertekið svæði.
Þriðja Intifadan
Það unga fólk sem fremst er í flokki bæði í almennum, friðsömum mótmælum og þeir einstaklingar sem gripið hafa til frumstæðra vopna, eldhúshnífs eða skrúfjárns og náð að drepa nokkra hermenn og örfáa aðra Ísraelsmenn en sært fleiri, er af nýrri kynslóð þar sem flestir eru fæddir eftir að Oslóarsamkomulagið var gert. Sú framtíð sem blasir við þeim er svört. Ástandið á herteknu svæðunum hefur einungis versnað frá 1993, ófrelsið, mannréttindabrotin og atvinnuleysið. Framtíðarmöguleikar í landinu þeirra eru ótryggir, svo vægt sé til orða tekið.
Uppreisnina sem braust út í síðastliðnum mánuði ber að skoða í þessu ljósi og sér í lagi til framkomu Netanyahu og Ísraelsmanna og átroðnings á musterishæðinni svokölluðu. Þar eiga múslimar, ekki bara palestínskir heldur þeir sem aðhyllast Íslam um allan heim, sinn þriðja helgasta stað, þar sem Klettamoskan og Al Aqsa moskan standa. Þessi staður kemur næst Mekka og Medina. Þá er engin vafi á því að sífelldar og stöðugt harðnandi árásir landtökufólks á íbúa Vesturbakk ans og Austur-Jerúsalem, hafa mikið að segja. Þar fyllti kannski mælinn þegar landræningjar kveiktu í heimili fólks og brenndu fjölskyldu til dauða. Fjögurra ára drengur lifði af.
Það er rétt að líta aðeins inn í ríkisstjórn Netanyahus en vera þá viðbúinn hryllingsmynd. Tökum sem dæmi dómsmálaráðherrann sem er ung landtökukona sem eftir útliti að dæma gæti vel hafa verið sýningarstúlka eða fegurðardrottning. En það er ekki sýningarhæft sem hún lætur út úr sér, óhugnanlegar skoðanir sem hún hefur ekki legið á. Í fyrra kom fram hjá henni sú skoðun að drepa bæri allar palestínskar mæður, þær gerðu ekkert annað en að ala af sér hryðjuverkamenn.
Það er með ólíkindum hvernig stjórnmálin hafa þróast í Ísrael, og hversu hratt þau hafa þróast til rasisma, öfgafulls haturs og mannfyrirlitningar. Þegar ég fór að fygjast með stjórnmálum á þessum slóðum fyrir rúmum aldarfjórðungi hefðu stjórnmálamenn eins og fyrrnefnd kona, ekki átt erindi í kosningabaráttu með sinn boðskap, hvað þá inn á þing. Nú er hún orðin dómsmálaráðherra.
Intifada, uppreisn gegn hernáminu, hófst í desemberbyrjun, 10 dögum eftir að Félagið Ísland-Palestína var stofnað, en það var 29. nóvember 1987. Fyrsta Intifadan lognaðist út af þegar friðarviðræður hófust í október 1991 í Madríd. Sú uppreisn sem var að mestu alveg friðsöm af hálfu Palestínumanna skilaði miklum árangri og margefldi alþjóðlega samstöðu með Palestínu. Ári síðar 15. nóvember 1988 las Yasser Arafat forseti Palestínu upp sjálfstæðisyfirlýsinguna en með sjálfstæðri Palestínu innan landamæranna frá 1967 var um leið verið að viðurkenna tilvist Ísraelsríkis á 78% lands sögulegrar Palestínu. Þegar séð var að enginn árangur næðist af Oslóarsamkomulaginu braust út Önnur Intifada. Eins og nú varð átroðningur Ísraelsmanna á Musterishæðinni til efni þess að mótmæli brutust út. Herinn var viðbúinn og fljótlega höfðu tugir manna fallið í valinn. Nú varð meira áberandi að palestínskir andspyrnumenn tæku sér vopn í hönd, þótt mótmæli fjöldans væru fyrst og fremst friðsöm.
Friðarviðræður, alþjóðleg vernd og ráðstefna
Bandaríkjastjórn hefur gert tilraunir til að koma friðarviðræðum í gang, og síðastur til þess er John Kerry núverandi utanríkisráðherra sem lagt hefur mikla vinnu í þetta. Meðferðin sem hann hefur fengið hjá ísraelskum leiðtogum er með ólíkindum, þar sem hann hefur hvað eftir annað verið niðurlægður, líkt við smábarn og annað eftir því. Kerry hefur þó verið mikill Ísraelsvinur og nefna má að hann valdi gyðing til að leiða viðræður fyrir sína hönd, mann sem hafði starfað á árum áður fyrir AIPAC, þrýstihópinn fyrir Ísrael á Bandaríkjaþingi. Obama forseti hefur litlu getað skilað, þótt hann hafi stundum verið jákvæður í orði varðandi rétt palestínsku þjóðarinnar. Hann virðist raunar hafa fengið sig fullsaddan af hrokafullri framkomu Netanyahu, sem virðist geta leikið sér að Bandaríkjaþingi einsog brúðuleikhúsi. Ísraelski forsætisráðherrann hefur heldur ekki farið leynt með að telja sig hafa neitunarvald í Öryggisráði SÞ, það er að ráða yfir atkvæði Bandaríkjanna í málum sem snerta Ísrael!
Vonir fólks í Palestínu og fólks um allan heim, sem lætur sér ekki standa á sama um örlög þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs, eru ekki háfleygar um þessar mundir, þegar horft er til réttlætis og friðar. Það hefur löngum verið ljóst, að Palestínumálið svokallaða er lykilmál sem leysa verður til að varanlegur friður náist. Á sama hátt er þetta ástand sem nú ríkir, grimmilegt hernám Palestínu, ranglæti sem verður uppspretta ófriðar langt austur fyrir Jórdaná og norður fyrir Galíleu.
Alþjóðleg vernd er gömul krafa sem hefur risið hátt að nýju, bæði fyrir íbúa á Gazaströndinni og nú þegar horft er upp á miskunnarlaus dráp, ekki bara á örfáu hnífastungufólki, heldur fyrst og fremst á friðsömum mótmælendum sem þúsundum saman hafa verið skotnir og særðir og tugir verið drepnir eða yfir 80 manns síðan 1. október. Alls hafa 12 Ísraelsmenn verið drepnir og innan við 100 særðir.
Það þarf að koma til alþjóðleg ráðstefna á vegum Sameinu þjóðanna sem tekur ábyrgð á því að koma á friði á grundvelli alþjóðalaga og ályktana Sameinuðu þjóðanna. Í þetta sinn má Ísraelsstjórn ekki komast upp með að setja skilyrði eins og í Madrid, þegar hún krafðist þess að hvorki SÞ né PLO fengju að koma á ráðstefnu um frið í Palestínu. Að þessu var gengið!
Sniðganga er friðsöm og áhrifarík
Mikið og sameinað átak þarf að eiga sér stað til að koma Ísrael að samningaborði. Þar gegnir Bandaríkjastjórn megin hlutverki og Evrópusambandið getur haft úrslitaþýðingu vegna mikilla viðskipta við Ísrael, sem nýtur bestu vildarkjara hjá ESB. Sniðgönguhreyfingin er að ná það miklum árangri að Netanyahu hefur skilgreint BDS (boycott, divest, sanction) hreyfinguna sem höfuðóvin Ísraels. Viðbrögðin við samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur, um að sniðganga vörur frá Ísrael meðan hernámið varir, sýnir svo ekki verður um villst, hversu viðkvæmir Ísraelsmenn eru fyrir þrýstingi sem þessum. Meira að segja tiltölulega saklaus ákvörðun ESB um að krefjast þess að ísraelskar vörur frá herteknu svæðunum, það er frá ólöglegum landtökubyggðum, hefur orsakað harkalega viðbrögð hjá Ísraelsstjórn. Aðeins er um að ræða að þær verði merktar sem slíkar, þannig að fólk geti valið hvort það kaupi vörur frá herteknu svæðunum, en að þær séu ekki merktar sem MADE IN ISRAEL. Netanyahu hefur í frammi hótanir gagnvart Evrópusambandinu vegna þessara hógværu tilmæla um merkingu, en þetta mál hefur verið til athugunar í mörg ár. Á Alþingi hefur samskonar tillaga legið fyrir og beðið afgreiðslu árum saman.
Samþykkt Evrópusambandsins hefur greinilega sitt að segja. Og enginn vafi er á því að nýleg samþykkt Norðurlandaráðs, sem Höskuldur Þórhallsson forseti Norðurlandaráðs, Steingrímur J. Sigfússon og fleiri unnu ötullega að, mun hafa þýðingu. Ályktunin var stefnumótandi fyrir Norðurlandaráð sem hefur ekki verið að ræða né álykta um utanríksmál, en nú var með yfirgnæfandi meirihluta samþykkt að styðja tveggja ríkja lausnina um Ísrael og Palestínu og hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að fara að fordæmi Íslands og Svíþjóðar og viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá 1967. Betra hefði verið að fylgja fordæmi Alþingis frá 29. nóvember 2011 og viðurkenna ekki bara sjálfstæði Palestínu heldur árétta einnig rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur heim. En engu að síður þá var hér stór áfangi fyrir Norðurlandaráð sem ástæða er til að óska því til hamingju með og þá ekki síst hinum ötulu þingmönnum og starfsmönnum hópanna sem unnu málinu brautargengi.
Oft er spurt hvort nokkur von sé um frið í Palestínu. Þetta sé allt svo flókið. Svarið er já og málið ekki svo flókið. Það þarf aðeins að fá alla aðila málsins til að fara að lögum, hlíta alþjóðlögum og samþykktum Sþ. Sniðgangan er friðsamt og öflugt tæki til að Ísraelsstjórn átti sig. Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið verða að sýna ábyrgð. Einbeita þarf öllum kröftum að þessu marki. Þá horfir í réttlæti og frið.
Birtist í Frjáls Palestína.