Rætt við Maríu Erlu Marelsdóttur, sendiherra Íslands gagnvart Palestínu og sviðsstjóra Þróunarsamvinnusviðs Utanríkisráðuneytisins, um ferð hennar til Palestínu og í flóttamannabúðir í Jórdaníu í október 2014
„Palestína er eitt af þeim fimm löndum sem við erum í þróunarsamvinnu við. Samstarfið við þrjú þeirra er tvíhliða, þar sem við gerum tvíhliða samning við viðkomandi ríki; Malaví, Úganda og Mósambík. Þróunarsamvinnan við Afganistan og Palestínu er á hinn bóginn í gegnum alþjóðastofnanir, en verkefnin sem unnið er að eru öll eyrnamerkt. Í því felst að nokkur framlagsríki koma að verkefnunum, en við eigum þó heilmikið í þeim. Við erum til dæmis að vinna með Palestínu í gegnum UNICEF inni á Gaza, auk þess sem við vinnum með UN Women, UNDP, UNRWA og fleiri stofnunum Sameinuðu þjóðanna. UNRWA leikur þar auðvitað stórt hlutverk sem sú stofnun SÞ sem sinnir palestínskum flóttamönnum sérstaklega.
Ég er með á minni könnu mörg þróunarverkefni sem leiðir af stöðu minni sem bæði sendiherra og skrifstofustjóri þró unar sam vinnu skrifstofu ráðuneytisins. Ég hef reynt að fara a.m.k. einu sinn á ári til Palestínu; við erum í reglulegum samskiptum við landið, bæði á pólitískum vettvangi en mest á sviði þróunarsamvinnu.“
María Erla er á því að almenningur hér á landi sé ekki mjög meðvitaður um þetta mikla samstarf milli Palestínu og Íslands. „Við hefðum sjálfsagt mátt vera duglegri að segja frá þeim verkefnum sem við erum að fást við,“ segir hún.
Í ferðina sem hér er fjallað um fór María Erla ásamt Einari Gunnarssyni, þáverandi ráðuneytisstjóra, nú fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Þessi ferð var bæði tengd pólitísku samráði og þróunarsamvinnu.
Mæðra- og ungbarnaeftirlit

Ljósm. María Erla
„Það er ekkert auðvelt að komast inn á Gaza, eins og flestir vita. Við erum ekki með sendiráð á staðnum og óhjákvæmilegt annað en sækja um leyfi til Ísrael til að komast inn á svæðið. Þá þurfum við helst að fara á vegum einhverra stofnana Sþ. Við komum út á mánudegi og fórum eldsnemma morguninn eftir inn á Gaza.
„Mér brá náttúrlega við að sjá ástandið. Á leiðinni keyrðum við í gegnum öll hverfin sem lögð höfðu verið í rúst, þannig að þetta var ótrúlega áhrifamikið. Þótt maður sjái áhrifaríkar fréttamyndir í sjónvarpinu þá er það allt annað en að fara á staðinn og upplifa aðstæðurnar.
Við vorum að fara að kynna okkur verkefni sem við vinnum að með UNICEF, verkefni sem snýr að mæðra- og ungbarnavernd, en á því er mikil þörf inni á Gaza. Verkefnið felst í fræðslu um umönnun ungbarna, mikilvægi brjósta gjafar o.þ.h., meðal annars því að ljósmæður og heilbrigðisstarfsfólk heimsækir nýbakaðar mæður og börn þeirra. Við vorum svo heppin að fá að fara í eina slíka heimsókn. Þetta er fyrirkomulag sem þekkst hefur á Íslandi um langa hríð, en ekki á Gaza og samkvæmt þeim skýrslum sem komið hafa út um verkefnið hefur það borið mikinn árangur. Með þessu starfi eru mæður að fá mikla fræðslu um ungbörn og brjóstagjöf, allt sem skiptir máli. Verkefnið er líka unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti Palestínu.“
Maríu Erlu finnst mikilvægt að sjá með eigin augum hvernig verkefnin ganga fyrir sig og ekki síst að í gegnum þessi verkefni gefst henni kostur á að hitta Palestínumenn ræða við þá um verkefnin og hvernig þeim líst á framgang þeirra.

Ljósmynd úr safni.
„Áður fyrr var mikið um að börnum væri gefin blönduð fæða og þurrmjólk mikið notuð. Þekkingu skorti á brjóstamjólk og mikilvægi hennar fyrir ungbörnin. Þetta hefur breyst vegna þessa verkefnis. Ljósmæðurnar eru að leggja geysilega mikið á sig og jafn vel þegar ástandið var sem verst í stríðinu á síðasta ári fóru þær samt í svona heimsóknir.
Við erum auðvitað stolt af þessu verkefni og að íslenskur sérfræðingur sem starfaði á Gaza á vegum UNICEF hafi komið að því. Staða sérfræðingsins var styrkt af utanríkisráðuneytinu í gegn um UNICEF.
Tölur sýna að mæðra- og ung barnadauði hefur minnkað og skrifstofustjóri heilbrigðiráðuneytisins sagði að þá þróun mætti ekki síst rekja til þessa starfs. UNICEF er sammála því.“
Ísland styður UNICEF í Palestínu með fjárframlögum og með því að kosta stöður sérfræðinga á vettvangi.
Ramallah
„Daginn eftir fórum við til Ramallah og gistum þar. Það er alltaf gaman að koma til Ramallah. Við Einar áttum fund, pólitískt samráð við varautanríkisráðherra Palestínu o.fl. starfs fólki utanríksráðuneytisins. Þar var farið yfir ástandið í Palestínu. Við vor um upplýst um stöðu mála, hvernig hlutirnir gengju fyrir sig. Þá var nýlokið ráðstefnu í Kairó þar sem fjölmargar þjóðir hétu miklum fjárhæðum til uppbyggingar á Gaza og það skipti íbúana miklu máli.
Það er mikil uppbygging í Ramallah, mikið af nýbyggingum og nokkur gróska. En þrátt fyrir það er mikil þörf fyrir þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð í borginni og ná grenni hennar.“
Betlehem
Næsti áfangastaður Maríu Erlu og Einars og starfsmanna utanríkisráðu neytis Palestínu var Betlehem. „Það sem þar er áhrifaríkast að sjá eru landtökubyggðirnar,“ segir hún. „Þær færast nær og nær Betlehem og þrengja sífellt meira að íbúum borgarinnar.
Við hittum borgarstjóra Betlehem, Veru Baboun. Hún er mjög áhrifamikil kona og hefur góða útgeislun. Segir vel frá. Hún er kristin og palestínsk.
Betlehem er lítil borg og Vera sagði okkur að ekki væri hægt að byggja meira innan borgarmarkanna vegna þrengsla, ekki einu sinni leikvöll. Og plássið verður sífellt minna með fjölgun landtökubyggða.
Þótt við sæjum kannski ekki mikið í Betlehem þá urðum við vitni að nokkrum átökum milli Palestínumanna og Ísraela. Þarna voru ekki notaðar byssur heldur köstuðu menn grjóti; þetta hefðbundna sem maður sér í fjölmiðlum.
Síðan fórum við og heimsóttum flóttamannabúðir hjá UNRWA. Við styðjum UNRWA með fjárframlögum og með því að kosta stöður íslenskra sérfræðinga, en það höfum við gert í mörg ár. Tveir íslenskir sérfræðingar starfa hjá UNRWA, annar í Jerúsalem og hinn í Jórdaníu.
Verkefni á sviði viðlagastjórnunar
Daginn eftir fórum við aftur til Ramallah og heimsóttum annað verkefni sem við erum að styðja í gegnum UNDP, en um er að ræða verkefni á sviði viðlagastjórnunar. Innan al þjóðastofnana hefur orðið vakning varðandi mikilvægi viðlagastjórnunar til að takmarka það tjón sem hlýst af náttúruhamförum. Við Íslendingar búum yfir talsverðri þekkingu á þessu sviði. Við funduðum með almannavörnum þeirra og einnig með skrifstofu forseta Palestínu sem einnig kemur að þessu verkefni.
Hluti af Palestínu er á jarðskjálftasvæði og búist er við stórum skjálftum á svæðinu í fram tíðinni. Stjórnvöld í Palestínu taka þetta mjög alvarlega og vilja vera viðbúin ef það gerist. Húsakosturinn þarna er eins og hann er og mannfall gæti orðið mikið. Þess vegna er reynt að koma góðu skipulagi á viðbrögðin. Það er svo mikið af hindrunum, ekki síst á Vesturbakkanum. Þar eru svæði sem ekki má fara inn á og mikið af varðstöðvum. Eins og Palestínumenn sögðu við okkur er óljóst hvort þeir mundu fá að fara frjálst um landið til þess að sinna hjálparstarfi ef það yrði jarðskjálfti. Það veit enginn. Þess vegna verði að miða viðbúnaðinn við landið eins og það er í dag; svæðið er hernumið með þeirri skiptingu sem þar er. Við hér heima erum með okkar Landsbjörgu og fullt af sjálfboðaliðum út um land allt með skipulögð teymi. Þarna er fólk á afmörkuðu, lokuðu svæði. Þetta er algert frumkvöðlastarf; það kom beiðni árið 2012 frá UNDP og palestínskum yfirvöldum, um aðstoð við uppbyggingu svona kerfis. Íslenskur sérfræðingur sem við kostuðum, Sólveig Þorvaldsdóttir, fór út til að meta þörfina.

Ljósm. María Erla
Sólveig gerði greiningu á ástandinu og í framhaldinu var ákveðið að gerð yrði heildstæð áætlun um innleiðingu viðlagastjórnunar. UNDP heldur utan um málið ásamt palestínskum yfirvöld um. Málið felst í að auka þekkingu stjórnvalda og byggja upp innviði, þannig að hægt sé að setja upp viðbragðskerfi. Það er alltaf gaman að geta komið að svona málum með íslenska sérþekkingu.
Einnig starfaði annar íslenskur sérfræðingu á okkar vegum hjá UNDP í Ramallah að þessu verkefni ásamt heimamönnum. Þetta er auðvitað nýlegt verkefni og við eigum eftir að sjá hver árangurinn verður.
Umræður um ofbeldi í grunnskóla
Síðar sama dag fórum við frá Ramallah og inn til Hebron. Byrjuðum á að heimsækja grunnskóla. Þennan dag var alþjóðadagur ungmenna (International Youth Day) og verið að tala við börnin um ofbeldi. Áhersla var lögð á rétt hvers og eins að verða ekki fyrir ofbeldi, en það er meðal áhersluatriða UNICEF. Fræðslan fór fram á skemmtilegan hátt; en leikarar komu til að segja frá. Þetta var á frekar af skiptu svæði í Hebron, þannig að UNICEF hefur lagt þó nokkra áherslu á að vinna með þessum skóla.

Ljósm. María Erla
Þótt umræðuefnið hafi verið alvarlegt var umfjöllunin sett í skemmtilegan búning og það ríkti mikil gleði. Þetta var fjölskylduskemmtun þótt verið væri að ræða mjög viðkvæmt efni. Það var svo sniðugt hvernig þetta var hugsað. Einhver áhrif hlýtur þetta líka að hafa, fær alla vega fólk til þess að hugsa. Krakkarnir töluðu mjög frjálslega og einlægt. Þarna voru þau í rauninni að eiga samtal við foreldra sína, en heimilisofbeldi er nokkuð útbreitt í Palestínu.
Við fórum um svæði sem heitir Check point 56. Hebron er skipt í svæði H1 og H2. H1 er Palestínumegin og H2 Ísraelsmegin, landtökubyggð. Barna skólinn er hinum megin við varð stöðina, í H2, Ísraelsmegin. Þannig að börnin þurfa alltaf að fara um varðstöðina á leið í skólann. Þau eru áreitt og verða fyrir árásum frá landtökufólkinu. Þannig að UNICEF hefur átt samstarf við félagasamtök um að fylgja börnunum í gegnum varðstöðina í skólann. Á svæði H1 er búið að loka öllum verslunum, það er ekkert þar, samt býr fólk þar.
Maður getur rétt ímyndað sér hvað það er erfitt að ganga í gegnum svona þegar maður er barn, það hlýtur að hafa talsverð sálræn áhrif.
Kvennaathvarf
Að þessu loknu heimsóttum við kvennaathvarf sem við styðjum í gegnum UN Women, í Beit Hanina. Það heitir Mehwar Center. Þetta athvarf er bæði fyrir konur og börn. Konur geta komið þangað og fengið húsaskjól og félagsráðgjöf, lögfræðilega aðstoð og aðra hjálp. Einnig aðstoð við að komast aftur út í samfélagið eftir dvöl í athvarfinu. Við ræddum við konurnar og heyrðum lífsreynslu þeirra. Þær þökkuðu athvarfinu mikinn stuðning, sem gerði mörgum þeirra kleift að fara aftur og takast á við vandann innan fjölskyldunnar. Gjarnan fjölskyldu eigin mannsins, því það er mikið mál í þessu samfélagi að yfirgefa heimilið og taka börnin með sér. Þetta er annars eðlis í palestínsku samfélagi en hér hjá okkur og getur verið átak í því karlaveldi sem þarna ríkir. Í sumum tilfellum virtist hafa náðst einhvers konar sátt við fjölskylduna, en stundum hafa konurnar orðið einstæðar og þá þurfa þær auðvitað að vinna fyrir sér og börnunum. Það er reynt að undirbúa þær fyrir það í athvarfinu.
Þannig að þarna er mjög mikilvægt starf unnið. Meginhluti kvennanna sem þarna eru koma frá Vesturbakkanum. Sumar ungar, jafnvel undir 25 ára.
Ísland styður UN Women í Palestínu með fjárframlögum og með því að kosta stöður sérfræðinga á vettvangi.
Félagasamtök og Jafnréttisskóli Háskóla Sþ
Við störfum einnig með félagsamtökum í Palestínu m.a. Palestinian Medical Relief Society (PMRS). Við Einar funduðum með fulltrúum þeirra og fórum yfir samstarfið. Verkefnið sem við styðjum er í Qualqilya sem er mjög afskekkt íbúðasvæði. Þarna liggur hraðbraut með varðstöðvum sem eru mjög sjaldan opnar, þannig að fólk kemst sjaldan í gegn. Einnig er bannað að byggja á svæðinu. Framlög Íslands hafa farið m.a. í færanlega sjúkrastöð og rekstur á barna skóla. Það var enginn skóli þarna og börnin þurftu alltaf að fara í gegnum varðstöð til að sækja skóla og það bara gekk ekki; þau urðu fyrir eilífu áreiti og voru hætt að vilja fara í skólann. Starfmenn færanlegu sjúkrastöðvarinnar fá aðstöðu heima hjá fólki, sem lánar þeim húsnæði sitt þegar þeir koma. Þarna hafa m.a. íslenskir hjúkrunarfræðingar starfað sem sjálfboðaliðar.
Við störfum einnig með samtökum sem heita Women´s Centre for Legal Aid and Councelling. Þar er lögð áhersla á lagalegan stuðning og ráðgjöf fyrir konur.
Ísland hefur einnig stutt verkefni íslenskra félagasamtaka á sviði mannúðaraðstoðar í Palestínu m.a. sam starfsverkefni félagsins Ísland – Palestína og PMRS, verkefni Rauða kross Íslands o.fl.
Við leggjum mikla áherslu á jafn réttismál í samstarfinu eins og við gerum reyndar í öllu okkar þróunarsamstarfi. Hingað koma nemendur frá Palestínu á ári hverju í Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi, bæði karlar og konur. Nemendur skólans eru hér við nám í sex mánuði og fara svo heim og nýta sér það sem þau hafa lært til að vinna að jafnréttismálum í Palestínu. Hingað hafa jafnvel komið nemendur frá Gaza og farið aftur heim til sín til starfa.“
Flóttamannabúðir í Jórdaníu
María Erla fór einnig til Jórdaníu og heimsótti þar flóttamannabúðir í Zaatari, þar sem búa um 150.000 manns. Meirihluti flóttamanna í búðunum er frá Da’ara svæðinu í Sýrlandi. „Ég hef aldrei áður komið í svona stórar í flóttamannabúðir, þannig að þetta var talsverð lífsreynsla. Við höfum stutt við búðirnar í gegnum UNICEF. Þarna eru skólar og félagsmiðstöðvar fyrir börn og þörfin er náttúrlega gífurleg. UNICEF sér um alla vatnsöflun fyrir búðirnar. Það hefur reyndar verið borað eftir vatni þarna, ansi djúpt og það hefur borið nokkurn árangur. Ég varð reyndar hissa á hvað þarna tókst að gera mikið fyrir lítið. Fólk býr í tjöldum og aðstæðurnar eru hræðilegar, ekki síst þegar kólnar í veðri.
Reynt er að vera með atvinnusköpun í búðunum. Fólk er að reyna að búa sér til eitthvað að gera og þarna fer fram mikið frumkvöðlastarf. Foreldrar eru mjög öflugir og þegar ég kom þarna var nýbúið að koma upp bókasafni. Menn höfðu látið boð út ganga í Jórdaníu um að þeir sem ættu gamlar bækur mættu gjarnan gefa þær í búðirnar í stað þess að henda þeim. Það var ein móðirin sem fékk þessa hugmynd. Okkur finnst svona bókakassar ekki ýkja merkilegir, en fyrir fólk sem býr í svona búðum eru þeir stórmerkilegir.
Fólk var tregt til að opna sig í samræðum, en þarna voru fjölskyldur sem höfðu þurft að reyna sitt af hverju og börn sem höfðu þurft að þola ýmislegt. Hlutir sem börn eiga ekki að þurfa að ganga í gegnum. Þarna voru t.d. fjölskyldur sem höfðu lent í liðsmönnum Íslamska ríkisins.
Mér fannst þetta mjög áhugaverð heimsókn og það var augljóst að okkar stuðningur nýttist vel. Þótt upphæðin sé ekki há, þá er stuðningurinn að skila sér til barnanna. Við megum vera ánægð með það.“
Heimamenn leggja ekki síður að mörkum
María Erla er ekki í vafa um að þróunaraðstoð Íslands skilar sér vel.
„Það er ánægjulegt að sjá þann árangur sem framlag okkar Íslendinga tekur þátt í að skapa. En hitt verður ekki nógu oft ítrekað, mikilvægi eignarhalds heimamanna í verkefnum og að þeir leggi ekki síður af mörkum til þeirra. Til dæmis í Palestínu. Þar leggja íbúarnir svo sannarlega sitt til málanna; fúsir til samstarfs og vinna vel. Allir gera sér grein fyrir að við erum lítil þjóð sem leggur til eftir megni. Það sem við leggjum m.a. áherslu á er velferð barna og jafnréttismál, mennta- og heilbrigðismál. Viðlagastjórnunin er svo nýtt mál, ekki síður nauðsynlegt. Einnig er mikilvægt að við störfum með félagasamtökum, bæði hér heima og í Palestínu. Styrkur þeirra felst oft í nálægð við grasrótina og þau geta verið mikilvægir málsvarar þjóðfélagshópa sem standa höllum fæti og minna mega sín.
Ég hef verið afskaplega þakklát fyrir að kynnast öllu þessu góða fólki í Palestínu; mér finnst ég ná að skilja þjóðfélagið betur, bæði á sviði stjórnmála en ekki síður daglegt líf, það er það sem heillar mig alltaf mest. Þegar fólk er að gera sitt besta úr því sem það hefur.“
Birtist í Frjáls Palestína.