Íslenskir fjölmiðlar fleygja reglulega fram fréttum um stunguárásir Palestínumanna á Ísraelum. Lítið rými er gefið til gagnrýni á fréttaflutningi sem gleyptur er úr erlendum fjölmiðlum, né málin sett í samhengi við aðstæður í Palestínu. Ef rennt er yfir nýlegan fréttaflutning inn á síðum eins og Mbl.is sést greinilega að fréttaflutningur er tiltölulega einhliða og þeir Palestínumenn sem myrtir eru í hrönnum yfirleitt „aðeins tölur“. Minna er fjallað um þær ótal tilefnislausu árásir landtökufólks á Palestínumenn sem og ofbeldi af hálfu hersins. Sannanir, sem oft eru í formi vitna eða ljósmynda, eru fyrir því að Palestínumenn séu skotnir á röngum forsendum, fyrir meintar hnífaárásir. Íslenskir fjölmiðlar fullyrða hins vegar í flestum tilfellum um „meintar árásir“ þrátt fyrir að sannanir séu sjaldnast aðrar en hnífur sem stundum liggur aumingjalega nokkrum metrum frá látnum Palestínumanninum. Ljósmyndir sýna þá stundum hinn látna án hnífsins og hnífurinn sem birtist svo úr lausu lofti nokkrum mínútum síðar á næstu mynd. Börnum í Austur-Jerúsalem er ráðlagt af örvæntingarfullum mæðrum að ganga með hendur úr vösum svo þau séu ekki skotin. Þar eru Palestínumenn nefnilega allir sekir frá fæðingu.
Ástandið um þessar mundir er sérstaklega slæmt í borginni Hebron, sunnarlega á Vesturbakkanum, þar sem hver Palestínumaðurinn á eftir öðrum er myrtur. Hver einstaklingur, ungur sem aldinn, á fjölskyldu, vini og minningar. Líf undir hernámi sem hrifsað er burt á einu augnabliki. Tvær skólastúkur voru skotnar í október á leið heim úr skóla og sjást blóði drifin lík þeirra á ljósmyndum liggja með skólabækur sér við hlið. Eitthvað eru svör ísraelsmanna um morð af þessu tagi óljós en að venju er tilefni þessara köldu morða enn ein hnífaárásin. Í Hebron eru þó valdalausir alþjóðaliðar á hverju strái og eftir áralanga kúgun hafa margir palestínumenn lært að ganga um með myndavélar á sér. Þar af leiðandi nást flest morð sem þessi á filmu og sannanir um sakleysi Palestínumannana yfirleitt töluverð. Sem betur fer fyrir ísraelska herinn virðist heiminum vera nokk sama, og ef fréttaflutningur um mál sem þessi rata í fjölmiðla yfirhöfuð, er það yfirleitt frá hlið ísraelska hersins sem „neyddist til þess að skjóta ólögráða unglinginn“. Fjöldinn allur af ungum drengjum falla niður á mótmælum gegn hernáminu þar sem þeir eru skotnir fyrir það eitt að kasta steinum að ísraelska hernum; einum best útbúna her heimsins.
Áður en lengra er haldið er mikilvægt að átta sig á þeirri staðreynd að mótspyrna Palestínumanna, frið samleg eða vopnuð, er lögleg samkvæmt alþjóðalögum og mikilvægt að taka það inn í reikninginn hvers vegna fólk spyrnir fótum við ólöglegu hernámi. Það er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að ísraelsher er gífurlega stórt batterí með sterka fjárhagslega bakhjarla. Líklega er það ein af þeim ástæðum hvers vegna tölur myrtra Palestínumanna birtast sem „aðeins tölur á blaði“ í fréttamiðlum heimsins, þeirra örfáu sem kæra sig um að fjalla um dauða þeirra yfirhöfuð.

Nýverið lést merkur maður og góður vinur í borginni Hebron. Hashem Azzeh var maður sem hafði tileinkað lífi sínu friðsamlegri mótspyrnu gegn hernáminu. Hann var að mörgu leiti versti óvinur hernámsins þar sem hann notaði rödd sína, manngæsku og eldmóð til þess að berjast gegn áralangri kúgun.
Ég kynntist Hashem fyrst árið 2013 þegar hann gekk með mig og hóp fólks um hverfið sitt í borginni Hebron í þeim tilgangi að sýna þá kúgun sem Palestínumenn þar neyðast til að búa við. Þetta var hans leið til þess að láta orð sitt, sem hefur áratugum saman verið reynt að þagga niður, heyrast. Hann hafði margoft orðið fyrir árásum af hálfu nágranna sinna, ísraelsku landtökufólki, hermönnum í hverfinu sem og fjölskylda hans. Hann var staðráðinn í að yfirgefa ekki það land sem honum hafði fengið í arf. Með búsetu sinni á landareigninni og staðföstum vilja hans og fjölskyldu hans, mótmæltu þau hernáminu. Konan hans, hún Nisreen, missti fóstur tvívegis eftir að hafa sætt barsmíðum af landtökufólki, Jonas elsti sonur hann handleggsbrotnaði vegna þess það var keyrt á hann og oftar en ekki er fjölskyldan stöðvuð af hermönnum á leið að húsi sínu. Þú þarft nefninlega sérstakt leyfisbréf til þess að vera Palestínumaður og stundum getur tekið marga klukkutíma fyrir slík leyfisbréf að vera viðurkennd af nálægum hermanni. Þá þarf Palestínumaðurinn einfaldlega að standa og bíða. En fjölskyldan lét þetta ekki stöðva sig í að lifa.


Ég var svo innilega heppin að fá að kynnast Hashem vel á síðasta ári þar sem ég var nágranni hans í hálft ár. Það var þess vegna gífurlegt reiðislag þegar Hashem Azzeh lést í október. Hann fékk hjartaáfall af völdum táragass sem skotið var í hverfinu hans (og fyrrverandi hverfi mínu) eftir að hafa misst andann, en er það einn af afleiðingum táragass sem ísraelsher notast við í miklu mæli. Palestínumenn mega, ólíkt því fáa ísraelska landtökufólki sem býr í hverfinu, ekki lengur keyra bíl. Þar af leiðandi verða þeir Palestínumenn sem þurfa á sjúkrabíl að halda að vera bornir í gegnum sérstakt eftirlitshlið inn í Palestínska hluta borgarinnar. Er þetta oft banvænt þar sem hlutverk sjúkrabílsins er einmitt að koma aðilum skjótt undir læknishendur. Það var eflaust stór ávinningur fyrir ísraelsher að losna við Hashem og mig hryllir við þeirri veislu sem eflaust var haldin í næsta húsi, hjá landtökufólkinu, eftir dauða hans.
Þrátt fyrir dauða Hashems, sem óneitanlega var af hálfu hernámsins, er ekki hægt að minnast hans á þann hátt sem hann fór heldur á þann hátt sem hann lifði. Hann átti alltaf bros handa öllum og skrautlegar sögur, var góður faðir og vinur. Það var alltaf gaman að spjalla við hann yfir tebolla og heyra hann tala um Palestínu, börnin sín eða í rauninni bara hvað sem er. Eitt sinn eyddi ég heilli nótt heima hjá honum að drekka te þar sem fjölskyldan óskaði eftir aumingjalegri vernd alþjóðaliða þar sem búist var við árás af hálfu landtökufólksins þá nóttina. Við enduðum þó nokkur á að eiga notalega nótt, fulla af hlátri og tedrykkju þrátt fyrir kuldalegar aðstæður. Það mun enginn greiða fyrir dauða þessa góða manns. Hann hefði getað átt mörg góð ár í viðbót með konu sinni og börnum, rétt eins og ótal aðrir Palestínumenn sem hafa verið myrtir fyrir það eitt að vera til. Síðustu orð Hashems til mín voru sögð með töfrum netheimanna; Það er frábært vinkona mín, við höldum áfram að berjast saman. Kæri vinur, við kveiktum á kerti þér til heiðurs og við höldum svo sannarlega áfram að berjast fyrir því að saga þín og annarra heyrist. Þar til að óréttlætinu líkur.
Hvíldu í baráttu.
Birtist í Frjáls Palestína.