Meðsekir í morðum

Caterpillar brýtur eigin siðareglur

Bandaríska stórfyrirtækið Caterpillar, sem er einn stærsti framleiðandi vinnuvéla í heiminum og er frægt fyrir gulu stóru vinnuvélarnar sínar, hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár vegna sölu á stórvirkum jarð­ýt­um til Ísraels. Caterpillar selur þessar jarðýtur til Ísraels með Bandaríkjastjórn sem millilið. Þegar jarðýturnar koma svo til Ísrael er þeim breytt allsvakalega af ísraelska hernum. Í raun er jarðýtunum, sem framleiddar eru fyrir landbúnað og byggingarframkvæmdir, breytt í hálfgerð hernaðartæki eins og má sjá á meðfylgjandi myndum.

Sameinuðu þjóðirnar, Amnesty, Human Rights Watch og önnur samtök hafa ítrekað lýst því yfir að Caterpillar jarðýturnar séu notaðar af ísraelska hernum til þess að fremja hræðileg mannréttindabrot gegn Palestínumönnum og hafa kallað eftir því að fyrirtækið hætti sölu sinni til Ísrael strax. Eins og kunnugt er lést Rachel Corrie árið 2003 eftir að Caterpillar jarðýta keyrði yfir hana þegar hún reyndi að koma í veg fyrir að jarðýtan jafnaði hús palestínskrar fjölskyldu við jörðu. Margir Palestínumenn hafa einnig verið fórnarlömb þessarar tækja. Þá er talið er að meira en 20.000 palestínsk heimili hafi verið eyðilögð af Ísraelsmönnum síðan 1967. Í um 60% tilvika hef­ur slík eyðilegging verið skilgreind sem hernaðarleg aðgerð, í 35% tilvika vegna þess að húseigendur voru ekki með tilskilin leyfi og 5% í refsingarskyni. Það er vert að taka það fram að 95% af leyfisumsóknum Palestínumanna um byggingarleyfi á árunum 2000-2007 var hafnað.

Fjórði Genfarsáttmálinn leggur blátt bann við að hernámsríki eyðileggi lausafé eða fasteignir sem eru í einkaeign nema því aðeins að slík eyðilegging sé talin algerlega nauðsynleg vegna hernaðaraðgerða. Ísrael, sem hefur skrifað undir og fulltgilt sáttmálann, hefur afsakað gjörðir sínar með því að segja að sáttmálinn gildi ekki í Palestínu þar sem að Palestína sé ekki ríki! Sameinuðu þjóðirnar, Rauði Krossinn, Alþjóðadómstóllinn og í raun allt alþjóðasamfélagið hefur ítrekað lýst því yfir að sáttmálinn gildi í Palestínu eins og allstaðar annarsstaðar í heiminum. Samkvæmt ofangreindu er ljóst að í 40% tilvika er um að ræða eyðileggingu sem hefur ekkert með hernaðaraðgerðir að gera. Þá hefur ísraelski herinn einnig verið gagnrýndur fyrir að nota ekki aðrar aðferðir en algjöra eyðileggingu bygginga í hernaðarbrölti sínu. Í flestum þeim tilvikum sem Ísraelsmenn segja eyðilegginguna nauðsynlega vegna hernaðaraðgerða þá hafa aðrar mun vægari aðferðir verið mögulegar. Þá hafa margar milljónir ólífutrjáa verið eyðilögð með jarðýtunum og í þokkabót hafa þær verið notaðar við byggingu á apartheid veggnum sem Alþjóðadómstóllinn hefur lýst yfir að sé ólöglegur skv. þjóðarétti.

Þrátt fyrir mikla gagnrýni undanfarin ár þá hefur Caterpillar meira og minna stungið hausnum í sandinn og firrað sig allri ábyrgð. Framkvæmdarstjóri Caterpillar, James Owens, hefur lýst því yfir að fyrirtækið geti á engan hátt stjórnað því hvernig vörur þeirra eru notaðar eftir að þær eru seldar. Þessi hegðun fyrirtækisins er algjörlega í skjön við þeirra eigin siðareglur, sem segja til um að fyrirtækið skuli ávallt taka mið af samfélagslegum, efnahagslegum, pólístískum og umhverfissjónarmiðum í viðskiptum sínum. Þessi ábyrgðarlausa hegðun Caterpillar hefur vægast sagt hræðilegar afleiðingar fyrir saklausa og varnarlausa borgara í Palestínu.

Foreldar Rachel Corrie höfðuðu mál gegn Caterpillar í Bandaríkjunum árið 2005 á þeim forsendum að Caterpillar seldi jarðýturnar til Ísrael þrátt fyrir að vita að þær væru notaðar af Ísraelsmönnum til þess að eyðileggja hús og leggja líf Palestínumanna í hættu, allt í trássi við alþjóðalög. Það er skemmst frá því að segja að dómstólar bæði á neðra og hærra dómsstigi vísuðu málinu frá. Helsta ástæðan fyrir frávísun á báðum stigum var sú að dómararnir töldu að málið snérist um pólítík og ætti ekki heima fyrir dómstólum. Foreldrar Corrie héldu þó ótrauð áfram og höfðuðu næst mál gegn ísraelska hernum. Dómstóll í Tel Aviv komst svo að þeirri niðurstöðu í ágúst sl. að dauði Rachel Corrie hafi ekki verið neitt annað en hræðilegt slys. Foreldrar Corrie íhuga nú hvort þau áfrýji málinu.

Það er nokkuð merkilegt að Caterpillar sé ekki löngu hætt sölu á jarðýtunum til Ísrael. Fyrir utan siðferðis og mannúðarleg sjónarmið þá hefur Caterpillar mátt sæta mikilli gagnrýni fyrir viðskipti sín við Ísrael. Hluthafar í fyrirtækinu hafa selt hlutabréfin sín í mótmælaskyni, mannréttindasamtök hafa gagnrýnt fyrirtækið harðlega og Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað kallað eftir því að fyrirtækið hætti sölu á jarðýtunum til Ísrael. Þá var hrundið á stað alþjóðlegu átaki til að sniðganga vörur frá Caterpillar í mótmælaskyni. Einnig er athyglisvert að salan til Ísrael er aðeins brotabrot af heildarsölu fyrirtækisins eða um 0.06%. Það er í raun með ólíkindum hvers vegna fyrirtækið skuli ekki vera löngu hætt þessum viðskiptum. Einhverjar sögusagnir voru á reiki árið 2010 um að fyrirtækið hefði tekið ákvörðun um að fresta allri frekari sölu til Ísrael á meðan á réttarhöldunum í Tel Aviv stæði. Þetta var þó aldrei staðfest af Caterpillar né yfirvöldum í Ísrael.

Núna, næstum 10 árum seinna, hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir morðið á Rachel Corrie. Ekki stjórnandi jarðýtunnar, ekki neinn í ísraelska hernum og síðast ekki síst ekki Caterpillar fyrir að útvega Ísraelsmönnum þessi drápstæki.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top