25 ára friðarbarátta

Félagið Ísland-Palestína fagnar tuttugu og fimm ára afmæli sínu um þessar mundir en það var stofnað 29. nóv. 1987. Mikið hefur áunnist í baráttunni en margt er þó eftir ógert að sögn Sveins Rúnar Haukssonar sem lengst af hefur verið formaður félagsins. Hann segir hér frá tildrögum að stofnun félagsins, hvað hefur borið hæst í starfsemi þess og því hvað er að gerast í Palestínu.

Sveinn Rúnar Hauksson hefur verið andlit baráttunnar fyrir frelsi Palestínu á Íslandi frá árinu 1991 þegar hann tók við formennsku í félaginu. Sveinn Rúnar er starfandi heimilislæknir og annað sem hann er þekktur fyrir en að vera „Palestínu-Sveinn“ er að vera helsti sérfræðingur landsins um allt er lýtur að berjasprettu og nýtingu berja. Hann býður enda upp á aðalbláberjaafurðir þegar sest er niður á heimili hans að Depluhólum í Reykjavík til að spjalla um Félagið Ísland-Palestína en í Depluhólum hefur margt verið lagt á ráðin varðandi baráttuna og tilverurétt Ísraelsríkis og rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna. Þar hafa margir erlendir gestir gist sem komið hafa til að fræða Íslendinga um ástandið í Ísrael og Palestínu.

Þjóð og þing fylgjandi málstað Palestínu

„Það hittist þannig á,“ segir Sveinn Rún­ar „að félagið var stofnað tíu dögum áður en fyrri Intifadan braust út eins og uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu er kölluð. Félagið var stofnað á samstöðudegi Palestínu en þeim degi hafa Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir árlega síðan 1977. Það var einmitt á þessum degi árið 1947 sem Sameinuðu þjóðirnar samþykktu að skipta Palestínu nokkurn veginn í tvennt á milli Gyðinga og Araba. Eins og kunnugt er var það sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors, sem lagði fram tillögu þess efnis en hann hafði starfað í undirbúningshópi um málið. Fleiri stórir atburðir hafa gerst á þessum degi og þar ber hæst í okkar augum að Alþingi, fyrst vestrænna þjóðþinga, samþykkti Palestínu sem sjálf­stætt og fullvalda ríki árið 2011.“

Stofnun félagsins var afar vel tekið en undirtektir hafa samt farið stöðugt batnandi. „Í mörg ár var félagafjöldi um hundrað manns en er nú um sjö hundr­uð. Þessir félagar hafa smám saman bæst í hópinn en líka í stökkum því vaxtartímabil eru þegar hernámsliðið gengur fram með mestri grimmd gegn Palestínumönnum. Á slíkum tímum taka fleiri afstöðu,“ segir Sveinn Rúnar og bætir við að sennilega njóti málstaður Palestínu hvergi meiri samúðar en hér á landi. „Í Noregi er samstöðustarfið kannski mun öflugra en hér en fjöldafylgið er örugglega meira hér auk almenns stuðnings stjórn­ málamanna. Það hefur ekki gerst í öðrum löndum að ályktun þjóðþings um sjálstæði Palestínu sé samþykkt mótatkvæðalaust. Þetta var heldur ekki í fyrsta skipti sem Alþingi tók afstöðu í fullkomnu samræmi við stefnu FÍP því það gerðist líka 18. maí 1989 þegar samþykkt var samhljóða þingsályktun um sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar, tilverurétt Ísraelsríkis og rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna.“

Langvinnu hernámi verður að linna

Fyrsti formaður félagsins var séra Rögnvaldur heitinn Finnbogason. Sveinn Rúnar segir um forvera sinn í for mannsstól: „Hann var í hópi þeirra sem sérstakan áhuga höfðu á Mið-Aust­urlöndum og var vel að sér um menn­ingu, sögu og trúarbrögð þessa heimshluta. Eftir Rögnvald liggur meðal annarra ritverka bók um ferð okkar til Palestínu árið 1990, Jerúsalem – borg hinna talandi steina. Ég vil líka minnast á annan stjórnarmann á fyrstu árunum sem var afar ötull, Elías Davíðsson ritara félagsins. Hann var gyðingur sem fæddist í Palestínu áður en Ísraelsríki var stofnað en flutti hingað til lands um tvítugt. Elías snerist smám saman gegn síonisma til stuðnings réttindabaráttu Palestínumanna. Sjálfur var ég varaformaður á þessum tíma en hef nú verið formaður í tæp tuttugu og tvö ár. Við höfum lengstaf haft stórar stjórnir svo að það er margt fólk sem hefur tengst félaginu sterkum böndum á þessum árum.“

„Félagið starfar á grundvelli samþykkta SÞ um Palestínu og er hluti af tengslaneti frjálsa félagasamtaka þó að við höfum ekki verið dugleg að senda fulltrúa á alþjóðlegar ráðstefnur. Upphaflega var félaginu ætlað að stuðla að réttlátum friði og efla menningartengsl við báðar þjóðirnar. Ástandið í landinu hefur þó þróast á þann veg að félagið er fyrst og fremst samstöðufélag með Palestínumönnum. Það er forgangsatriði fyrir því að hægt sé að hafa jákvæð samskipti við báðar þjóð­irnar að því langvinna hernámi sem palestínska þjóðin býr við linni.“

„Nú á dögum er mikill áhugi fyrir því að beita Ísrael efnahagsþvingunum með því að sniðganga vörur, fjárfestingar og menningarleg samskipti og beita Ísraelsmenn refsiaðgerðum til að knýja stjórn þeirra til að láta af ofbeldi gagnvart nágrönnum sínum.“

Neyðarsöfnun og hjálparstarf

Aðspurður um hverju félagið hafi helst áorkað svarar Sveinn Rúnar að um það hafi verið skrifuð lærð ritgerð í Háskóla Íslands. „Þar var skoðað sambandið á milli starfsemi félagsins og þróunar í almenningsáliti og félaginu þakkað gjörbreytt almenningsálit í þessu máli hér á landi. Fyrir fimmtíu ár­ um var hér einhliða stuðningur við Ísrael. Mikil samúð ríkti með gyðingum en fáir veltu fyrir sér upprunalegum íbúum landsins. Þetta hefur gjörbreyst á sama tíma og félagið hefur starfað. Ég held þó að ekki sé hægt að þakka félaginu þessa breytingu þó að einhvern þátt eigum við kannski í henni. Ég held að fréttaflutningur af framferði Ísraelsstjórnar hafi þarna mest að segja. Samúðin með Palestínumönnum hefur vaknað við að sjá hernum beitt gegn óvopnuðum íbúum herteknu svæðanna. En stór hluti af starfi okkar í áranna rás hefur hins vegar snúist um að auka skilning Íslendinga á ástandinu. Við skrifum í fjölmiðla og heimsækjum klúbba og skóla til að fræða og þegar tækifæri gefast höldum við mótmælafundi. Við höldum einnig úti blaðaútgáfu, kvikmyndasýningum, seljum vörur frá Palest­ínu og höldum vinsælar samkomur þar sem er í boði er arabískur matur og menning.

Síðast en ekki síst erum við með svokallaða neyðarsöfnun þar sem safnast fé til hjálparstarfs í Palestínu. Allt fé sem kemur í þann sjóð rennur óskipt til hjálparstarfsins en í öll þessi ár hefur ekki króna af söfnunartekjum farið í rekstur félagsins. Með söfnunarfénu höfum við stutt við bakið á fjölmörgum aðilum í Palestínu eins og rakið er á síðum þessa blaðs. Neyðarsöfnunin rennur líka til smá ferðastyrkja til sjálfboðaliða sem fara frá tveimur vikum upp í nokkra mánuði til starfa á herteknu svæðunum. Íslenskir sjálfboðaliðar hafa unnið fyrir læknishjálparnefndirnar (PMRS) undir forystu dr. Mustafa Barghouthi og heilsustarfsnefndirnar (The Union of Health Work Commitees) sem starfa bæði á Vesturbakkanum og Gaza. Við höfum stutt barna- og unglingastarf á þeirra vegum í Rafah og einnig sjúkrahús í flóttamannabúðunum í Jabaliya en það er svæði þar sem sprengjur falla iðulega yfir Palestínumenn.

Eitt aðalverkefnið okkar er samt að styðja við konur sem orðið hafa fyrir hvers kyns ofbeldi. Þar höfum við verið í samstarfi við samtök í líkingu við Stígamót og Kvennaráðgjöfina og stutt samtökin AISHA en sú skammstöfun þýðir „sú sem lifir af“. Í tengslum við það verkefni var Maríusjóðurinn stofnaður í Gazaborg þann 10. október 2010 í nafni Maríu Magnúsdóttur, langöflugasta stuðningsmanns neyðarsöfnunarinnar. María var þá 94 ára gömul en hún starfaði sem hjúkrunarkona í London í hálfa öld. Einnig hafa íslenskir sjálfboðaliðar verið við kennslustörf hjá Project Hope í borginni Nablus og nokkur hópur hefur starfað með ISM, alþjóða samstöðuhreyf­ingunni.

Það er óskaplega mikilvægt að Íslend­ingar fari til Palestínu, sjái ástandið með eigin augum og miðli af reynslu sinni þegar heim er komið. Ég minnist sérstaklega eins manns sem fór í kynnisferð á vegum NATÓ, Árna Ragnars Árnasonar heitins en hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hafði tiltölulegar ómótaðar skoðanir þegar hann fór en varð gagntekinn af því sem hann upplifði og skrifaði heil ósköp um þetta mál, mest í Morgunblaðið en margar greinar birtust einnig í Frjálsri Palestínu. Borgþór Kjærnested hefur skipulagt ferðir Íslendinga til Palestínu og hafa þær oftar en einu sinni leitt til beins stuðnings við hjálparstarf.

65 ár eru liðin frá skiptingu Palestínu og 45 ár sem allt landið hefur verið her­numið. Grimmdin sem einkennir hernámið fer stöðugt vaxandi og upp á þetta horfir heimurinn að mestu aðgerðarlaus. Það er eins og Ísraelsríki sé hafið yfir lög og rétt og þurfi ekki að hlíta alþjóðalögum og samþykktum Öryggisráðsins. Ísraelsmenn hafa lengi litið á SÞ sem óvin sinn þrátt fyrir að eiga þar mjög öflugan talsmann sem eru Bandaríkin. Ísraelsmenn hafa jafnvel látið að því liggja að þeir hafi neitunarvald hjá SÞ vegna þess hve sterk tök þeir hafa á Bandaríkjamönnum. Á meðan þessu er svona háttað er erfitt að ná fram breytingum fyrir tilstuðlan SÞ jafnvel þótt yfirgnæfandi meirihluti sé meðal þjóða heims um ólögmæti hernámsins og landránsins sem fer jafnt og þétt vaxandi á Vesturbakkanum.

Hér á landi hefur margt hjálpast að við til að halda Palestínumálinu vakandi. Oft er þögnin þó þrúgandi og það á við núna, meðan atburðirnir í Sýrlandi, Lýbíu og Egyptalandi eru í brennidepli. En félagið – og þjóðin öll – má vera stolt af ályktun Alþingis í fyrra. Þá heyrði ég ótal manns segjast vera stolt af Alþingi og utanríkisráðherra. Það er ekki ónýtt að upplifa það að okkar fólk er það eina sem þorir að taka afstöðu með réttlætinu. Aðrar Evrópuþjóðir vita að það er réttur Palestínu að fá viðurkenningu á sjálfstæði sínu en þær láta undan þrýstingi Ísraels- og Bandaríkjamanna og Evrópusambandið tekur þátt í því. Jafnvel hin Norðurlöndin bregðast í þessu máli. Þetta er þeim til skammar og vonandi rífa þær sig upp úr þessu.“

Friðarumræður og vaxandi ofbeldi

Margt hefur gerst í Palestínu á þeim tuttugu og fimm árum sem félagið hefur starfað. Þar ber náttúrlega hæst að fyrri Intifadan braust út aðeins tíu dögum eftir stofnun þess. „Þetta voru gjörsamlega friðsamleg mótmæli,“ segir Sveinn Rúnar. „Þetta voru krakkar að kasta grjóti á átt að hernum og var svarað með skriðdrekum og hermönnum sem skutu á þá. Ungt fólk fékk skot í bakið þegar það hljóp burt og fleiri hundruð eru mænusköðuð og lömuð eftir það. Sum vopnanna sem notuð hafa verið á Palestínumenn eru ólögleg, meðal annars fosfórsprengur sem minna helst á napalm-sprengjurnar í Víetnam.

Fyrri Intifada stóð frá 1987 til 1991 en í október það ár hófust friðarviðræður sem kenndar eru við Madríd. Þá má segja að uppreisnin hafi lognast út af en þó ekki alveg. Ég fór í fyrstu ferð mína af mörgum til Palestínu í maí 1990 með sr. Rögnvaldi Finnbogasyni, í sama mánuði og Steingrímur Hermanns­ son forsætisráðherra fór fyrstur vest­ rænna þjóðarleiðtoga á fund Arafats forseta sem þá var útlagi í Túnis. Madrídarviðræðunum lauk hins vegar aldrei en á bak við tjöldin var gerð hin svokallaða Oslóar-yfirlýsing sem undirrituð var í Washington 13. september 1993.

Formanni samn­inganefndar Palestínumanna í Madrídarviðræðunum, dr. Haidar Abdul Shafi, sem ég naut forréttinda að kynnast, leist strax illa á Oslóar-samkomulagið og varaði Arafat við. Þetta vissi ég ekki fyrr en tíu árum síðar. Í félaginu gátum við ekkert annað gert en að styðja það sem forysta Palestínumanna stóð fyrir. Fyrst þeir virtust sjá í þessu friðarvon bar okkur að fagna því og styðja.

Eftir á að hyggja virðist Oslóar-samkomulagið ekki hafa leitt til góðs því ástandið hefur haldið áfram að versna. Landránið eykst og landtökufólki fjölgar. Landránið sem er algjörlega ólöglegt gerist á mestum hraða á tímum þegar samningaviðræður standa yfir. Þá er eins og verið sé að flýta sér að taka sem mest af landi Palestínumanna. Dr. Abdul Shafi var á því að hætta viðræðunum fyrst Ísraelsmenn fengjust ekki til að hætta landtökunni sem var jú þvert á markmið samninganna. Viðræðum var samt haldið áfram og Oslóar-samkomulagið varð til á laun.

Ástandið á Vesturbakkanum og Gaza nú

Ég fór aldrei til Palestínu á árunum sem kölluð voru Oslóarárin, 1993-2000, heldur fór ég næst í október 2000 þegar síðari Intifadan hófst. Hún var ekki eins friðsamleg og sú fyrri þó að hún hafi byrjað sem friðsamleg mótmæli. Í þetta sinn voru Palestínumenn, sér­ stak­lega hópar þeirra, tengdir stjórnmálafylkingum, farnir að láta til skarar skríða með aðferðum skæruliða sem varð afar umdeilt meðal Palestínumanna sjálfra. Arafat var til dæmis mjög á móti síðari Intifada og ég held að hann hafi haft mikið til síns mál þegar hann sagði að hún væri tæki sem Ísraelsmenn notuðu til að réttlæta sífellt grimmilegri árásir á íbúa herteknu svæðanna. Á ferðum um Palestínu finnur maður fyrir ófrelsi hernámsins, farartálmum og innilokun, þetta versnar stöðugt. Fyrir tuttugu árum var ekkert mál fyrir mig að fara frá Jerúsalem til Gazaborgar. Reyndar urðu herflokkar á vegi mínum og ég var kannski stoppaður til eftirlits en það var langt frá því eins lokað og það er í dag. Nú þarf helst að fara til Egyptalands til að komast til Gaza og jafnvel það er erfitt.

Á Vesturbakkanum hafa líka orðið breytingar síðustu árin. „Checkpoints“, sem eru orðnir stærri og tæknivæddari, eru ekki lengur kallaðir „checkpoints“ heldur „terminals“ eins og á flugvöllum. Herinn er allt umlykjandi og yfir honum er leyniþjónustan. Þar hefur líka orðið sú breyting, sem er mjög umdeild með­al Palestínumanna, að ný gerð af palestínskri lögreglu hefur orðið til í öllum borgum, lögreglusveitir sem þjálf­aðar eru i Jórdaníu í tengslum við bandarísku leyniþjónustuna og í samvinnu við þá ísraelsku. Þetta er orðinn helsti ásteytingarsteinn Fatah og Hamas. Þegar ég var í Nablus fyrir þremur árum heyrði ég fólk segja: „Nú erum við komin með palestínskt hernám á daginn og ísraelskt á nóttunni.“ Þessir nýju, svartklæddu og vopnuðu lögreglumenn handtaka Palestínumenn líka af pólitískum ástæðum, ekki síst liðsmenn Hamas og þá sem grunaðir eru um að fylgja þeim. Svo standa Ísra­elsmenn vaktina á nóttunni og ráðast þá gjarnan inn í borgir og ræna fólki. Fyrir um ári eftirlét Ísraelsher palestínsku lögreglunni borgina Nablus allan sól­ar­hringinn og ræðst nú þar inn í sam­ráði við palestínu lögregluna. Þessi ör­yggissamvinna, sem kölluð er, er hluti af hernáminu. Þetta er kall­ að að byggja upp „infrastrúktur“ eða innri gerð samfélagsins og er litið mjög jákvæðum augum af Evrópusambandinu og Bandaríkjastjórn. En þetta hefur ekki fært Palestínu nær friði við Ísrael. Þar er mjög langt í land.

Atvinnuleysi er mikið, bæði á Vesturbakkanum en ekki síst á Gaza því að Ísraelsmenn leyfa ekki útflutning á framleiðsluvörum Palestínumanna og sjá til þess að viðhalda orku- og hráefnisskorti sem kippt hefur fótunum undan landbúnaði, fiskveiðum og iðnaði. Bæði þessi landsvæði eru í raun mjög gróðursæl þó að margir sjái þau fyrir sér sem hálfgerðar eyðimerkur. Ísraelski herinn sendir jarðýtur útbúnar klippum yfir ávaxtagarða Palestínumanna og ekkert er skilið eftir nema trjástubbar. Fiskveiðar hafa verið eyðilagðar með því að ógna fiskimönnum látlaust og takmarka þau svæði sem þeir geta sótt til fiskjar. Þannig er allt atvinnulíf í hers höndum í orðsins fyllstu merkingu. Á Vesturbakkanum þrengja landtökusvæðin sífellt meira að palestínskum borgum, þorpum og landbúnaðarsvæðum. Árásargirni landt­ökuliðsins fer vaxandi og daglega heyrast fréttir af árásum á börn jafnt sem fullorðna. Múrinn eyðileggur líka landið og athafnafrelsið. Hann liggur í hlykkjum langt inn á svæði Palestínumanna, gjarnan á landbúnaðarsvæðin þar sem verkamönnum er hleypt inn á ákveðnum tímum og mega dvelja þar ákveðna stund. Ég hef séð fólk raða sér í langar biðraðir eldsnemma á morgnana í von um að verða hleypt i gegnum múrinn þann daginn. Sums staðar eru rafmagnsgirðingar með njósnabúnaði. Þetta er algjörlega ólíðandi ástand og í raun lítið betra en á Gaza þó að á Gaza líði fólk almennan skort og þrengingar vegna innilokunarinnar og stöðugra árása. Alltaf er verið að senda á loft mannlausar morðvélar (drones) sem bera njósnatæki, sprengjur og stýriflaugar í senn. Þær eru notaðar til að sprengja upp og drepa fólk á aftökulistum en auðvitað slasast fleiri og deyja. Þannig er staðan og hún fer bara versnandi.“

Íslendingar hafa áhrif

Sveinn Rúnar er að lokum spurður hvort Félagið Ísland-Palestína hafi haft einhver áhrif á gang stjórnmála í Palestínu og hann kveðst hafa gaman af að fá að svara þeirri spurningu. „Á ferðum mínum hef ég ekki viljað skipta mér af pólitík svo að ég veit ekki hvað kom yfir mig í síðustu heimsókn minni þegar ég fór að tala um það við konur sem ég hitti, og þær voru ófáar, hvers vegna þær drifu ekki í að stofna kvennalista. Fyrir nokkru frétti ég svo að það væri einmitt að fara i gang slíkt framboð i Hebron. Þar á ég mjög góða vinkonu, Sahar Qawasmi, kvensjúkdómalækni sem gift er bæklunarskurðlækni og saman reka þau þar sérgreinasjúkrahús. Árið 2006 fór þessi kona, sem er mikill femínisti, í framboð og varð þingmaður Fatah. Nú er ég spenntur að heyra um afdrif kvennaframboðsins í Hebron.

Þó að ég reyni að skipta mér ekki af stjórnmálum í Palestínu er ég samt ekkert að liggja á skoðunum mínum við ráðamenn þegar ég fæ tækifæri til að ræða við þá. Árið 2010 var ég einu sinni sem oftar staddur á Gaza og átti fund með Ismail Haniyeha á Gaza. Þetta er réttkjörinn ráðherra með öflugan þingmeirihluta á bak við sig en stjórn hans er hvorki viðurkennd af Evrópusambandinu né Bandaríkjamönnum og íslensk stjórnvöld hafa ekki heldur samþykkt þessi löglega kjörnu stjórnvöld. Þegar ég hitti Haniyeha á Gaza útskýrði ég rækilega fyrir honum að það væri forgangsatriði hjá okkur sem styðjum Palestínu að þjóðarsátt náist í landinu. Á meðan stríðandi fylkingar fara þar fram er okkur erfitt um vik.

Sveinn Rúnar segir að lokum að Pal­estínumenn upplifi oft að öllum sé sama um þá. „Fólk metur mjög mikils að útlendingar sæki land þeirra heim, sjái ástandið og vitni um það. Þess vegna skiptir félagið okkar og landið okkar, þó að hvorugt sé stórt, afar miklu máli. Við getum sent sjálfboðaliða, farið á vettvang og barið ástandið augum, sinnt pólitíkinni og lagt okkar á vogarskálar á alþjóðavettvangi. Markiðið er að Palestínumenn njóti sama réttar til frelsis og mannréttinda og allar aðrar þjóðir og að palestínskt flóttafólk fái að snúa heim ef það kjósi.“

Viðtal: Magnea Örvarsdóttir og Björg Árnadóttir

Birtist í Frjáls Palestína.

Höfundar

Þjóð gegn þjóðarmorði - Reykjavík - Austurvöllur.
Fjöldafundur laugardaginn 6. september 2025 á Austurvelli, nánar.

Scroll to Top