Gaza: Um stríð og stjórnmál

Snemma árs var utanríkisþjónustu Íslands tilkynnt að ísraelskur ráðherra væri á leiðinni til þess að „útskýra“ málstað Ísraels. Ráðherrann, Össur Skarphéðinsson, gaf skýrt svar: Slíkt væri ekki við hæfi. Það sem Ísraelinn ætlaði að „útskýra“ var kaldrifjað fjöldamorð sem stóð í nokkrar vikur og kostaði um fjórtán hundruð mannslíf og þúsundir særðra. Þegar einhver kemur og ætlar að „útskýra“ hvers vegna það hafi allt verið nauðsynlegt og rétt, þá er það síst of djúpt í árinni tekið að kalla það óviðeigandi.

Innri ástæður

Hvað fær einn öflugasta og tæknivæddasta her heims til að myrða fjórtán hundruð manns á þremur vikum? Í stuttu máli sagt: Ísraelsk innanríkismál. Ríkisstjórn Ehuds Olmerts stóð tæpt og á honum sjálfum stóðu spjót vegna spillingar. Varnarmálaráðherrann Barak og utanríkisráðherrann Tsipi Livni kepptu um að taka við af honum, og stjórnarandstaðan keppti við þau öll, undir forystu Benyamins Netanyahu. Olmert varð að beina átökunum frá sér, út á við. Orð Carls von Clausewitz hafa sjaldan átt eins vel við: Stríð er áframhald stjórnmálanna með öðrum aðferðum.

Livni hafði tapað naumlega fyrir Olmert í prófkjöri. Hún gagnrýndi hann fyrir að vera of linur við Palestínumenn. Netanyahu gagnrýndi hann stöðugt fyrir að gefa þeim of lausan taum. Olmert var í mun að sýna að svo væri ekki. Þar sem þessi ógeðfellda keppni stóð yfir vantaði bara átylluna til að láta til skarar skríða. Nálægt miðju ári 2008 höfðu Hamas lýst yfir vopnahléi og mjög hafði dregið úr árásum. Í nóvember réðst ísraelsk sérsveit inn á Gaza og drap sex menn úr öryggissveit Hamas. Hamas svöruðu með því að skjóta rakettum á bæinn Sderot. Ísraelar lokuðu þá landamærum Gaza svo að segja algjörlega og 19. desember tók vopnahléið enda. Ísraelar hófu árás af fullum þunga 27. desember. Átyllan var að stöðva þyrfti eldflaugaárásir, en ástæðan var að ríkisstjórnin þurfti að sanna miskunnarleysi sitt fyrir kosningar 10. febrúar. Í fyrstu lotu árásarinnar var ráðist á lögregluskóla sem var að útskrifa nemendur, og á sama tíma voru grunnskólabörn á leið heim. Blóðbaðið var hrikalegt, á fyrstu tveim sólarhringunum týndu um 300 lífi og hundruð hlutu örkuml. Þess má geta, að heimatilbúnar rakettur Hamas-manna urðu einum Ísraela að bana – í gagnárás, eftir að stríðið var hafið.

Ytri kringumstæður

Á milli jóla og nýárs er slen yfir alþjóðlegum fjölmiðlum, svo stríðið var vandlega tímasett. Í öðru lagi var George W. Bush að hætta sem Bandaríkjaforseti og Barack Obama átti að taka við 20. janúar. Þar sem Ísraelar vissu að Bush mundi styðja þá í hverju sem er, nema ef til vill friðarviðræðum við Sýrland eða Íran, þá vissu þeir að þeim væri „óhætt“ að ráðast til atlögu á meðan hann sæti. Ekki treystu þeir hins vegar allir Obama eins vel, svo þeir biðu ekki boðanna. Þeirra maður í Hvíta húsinu stóð sig eins og til var ætlast, varði, afsakaði og studdi hvað sem var. Bush og utanríkisráðherrann Rice sneru öllu á hvolf: Kenndu lýðræðislega kjörnum leiðtogum Gaza, Hamas-samtökunum, um allt saman, sökuðu þau um valdarán og gáfu til kynna að það yrði að koma þeim frá völdum. Skilyrði fyrir friði væri að leppur BNA og Ísraels, Mahmoud Abbas, tæki við völdum. BNA komu líka í veg fyrir að Öryggisráð samþykkti áskorun um vopnahlé.

Obama og zíonisminn

Ótti sumra zíonista um tryggð Obama virðist vera ástæðulaus. Nokkrar vísbendingar um stefnu hans gagnvart Ísrael:

  1. Ísrael hefði ekki farið í Gaza-stríð án þess að ráðfæra sig við verðandi forseta BNA. Hann hlýtur að hafa samþykkt það þótt það hafi ekki verið opinbert. Þeir hafa þá ekki valið tímasetninguna vegna tortryggni í hans garð, heldur til að hlífa honum við pólitískri ábyrgð. Hann er líklega þakklátur þeim fyrir að fremja illvirkin ekki á hans vakt.
  2. Obama hefur ítrekað lýst stuðningi við „rétt Ísraels til að verja sig“, meðal annars í Líbanon-stríðinu 2006 og í árásum á Gaza-strönd. Hann hefur líka lýst því yfir að hann mundi aldrei gera málamiðlanir með öryggi þess og mundi halda áfram að styrkja það með milljörðum dollara á ári í hernaðaraðstoð.
  3. Hann hefur raðað zíonistum í kringum sig, t.d. Hillary Clinton og Rahm Emanuel, sem bæði gagnrýndu Bush-stjórnina á sínum tíma fyrir að styðja Ísrael ekki nóg.

Þegar fréttamenn gengu á Obama og vildu fá svör um skoðun hans á árásunum á Gaza, sagði hann að það væri bara einn forseti í einu, og það væri ekki við hæfi að hann væri að skipta sér af með yfirlýsingum. Það er reyndar rétt að halda því til haga, að þótt hann væri ekki orðinn forseti gat hann samt lofað Wall Street mörg hundruð milljörðum dala vegna fjármálakreppunnar.

Með árásinni á Gaza var ísraelski herinn ekki að nota síðasta tækifærið til að níðast á lítilmagnanum meðan herskár forseti væri við völd vestra. Þvert á móti var árásin, með þegjandi samþykki Obama-manna, taktískt tímasettur fyrirboði þess sem koma skal.

Alþjóðasamfélagið

SÞ brugðust yfirlýstu hlutverki sínu gersamlega, og ekki í fyrsta sinn. Kominn er tími til að þær verði settar á forngripasafn, við hlið Þjóðabandalags millistríðsáranna. Nema það sé einfaldlega viðurkennt að hlutverk þeirra sé að réttlæta heimsvaldastefnu. Hræsnin sést vel á tækifærisstefnunni sem ræður því hvað er kallað „stríðsglæpur“ og hvað ekki.

ESB, og leiðtogar evrópskra ríkja, hvöttu „báða aðila“ til að „halda aftur af sér“. Í stríði þar sem Ísraelar drepa um 1400 manns og missa sjálfir 13 – ég endurtek: þrettán – hljóma þessi deigu hvatningarorð eins og grimm blanda af skilningslausri heimsku, sálsýkislegri eigingirni og huglausu úrræðaleysi. Hér á Íslandi hafði Össur drengskap til þess að afþakka „útskýringar“ glæpamanna á glæpaverkum, og sker sig fyrir vikið úr hópi vestrænna starfssystkina sinna.

En hvað með leiðtoga Austurlanda? Sádi-Arabar lýstu yfir stuðningi við að „útsendarar Írans“ væru upprættir á Gaza, og áttu þá við Hamas-samtökin. Tækifærissinnaðir forsetar Írans, Sýrlands og Lýbíu fordæmdu árásirnar af eigingjörnum hvötum og eigin pólitískum hagsmunum, en fylgdu fordæmingunni lítt eftir.

„Niður með Bush, Olmert og Mubarak!“

Það er óhætt að segja að Mubarak, einræðisherra Egyptalands, hafi leikið ógeðfelldasta hlutverkið af leiðtogum arabaríkjanna. Ríkisstjórn hans hefur tekið fullan þátt í herkvínni um Gaza árum saman. Þegar skelft fólk reyndi að flýja yfir landamærin til Egyptalands, var tekið á móti því með vélbyssum og það rekið til baka í blóðbaðið.

Hamas hafa sagt að Cairo-stjórn hafi vísvitandi fullvissað þá um að engar árásir stæðu til, fáum klukkutímum áður en þær hófust. Fyrir vikið hafi byggingar ekki verið rýmdar, óbreyttum borgurum ekki komið undan, og manntjón því orðið mun meira en ella. Blaðið al Quds al Arabi, sem gefið er út í London, hefur líka greint frá að leyniþjónusturáðherra Egyptalands, Omar Suleiman, hafi varað arabíska þjóðhöfðingja við því hvað stæði til. Mubarak hefur lengi hatast við Hamas-samtökin, en systursamtök þeirra eru Bræðralag múslima á Egyptalandi, sem honum sjálfum stafar ógn af.

Í ljósi alls þessa er ekki skrítið að mótmæli þau gegn Gaza-morðunum, sem efnt var til víða um Mið-Austurlönd, beindust ekki síður að spilltum og þýlyndum ríkisstjórnunum heima fyrir, heldur en sjálfu stríðinu. Er nema von að alþýða manna í arabísku löndunum spyrji hvers vegna ríkisstjórnir þeirra aðhafist ekkert í málunum?

Palestínska heimastjórnin

Mahmoud Abbas, forseti Palestínsku heimastjórnarinnar (PA), er æðsti leppur zíonisma og heimsvaldastefnu meðal Palestínumanna. Hlutverk hans er að halda þeim í skefjum svo zíonistar geti níðst á þeim í friði. Til skamms tíma ræddu menn í alvöru hvort málin yrðu leyst með tveggja-ríkja-lausninni eða eins-ríkis-lausninni. Fyrrnefndu lausninni heyrist æ sjaldnar hampað meðal Palestínumanna og stuðningsmanna þeirra. Hafi hún einhvern tímann verið æskileg eða möguleg, þá er hún hvorugt lengur, og hafa Ísraelar séð kirfilega fyrir því. Áætlanir þeirra um „sjálfstæða Palestínu“ eru dystópísk afskræming á hugtakinu: Afgirt eða innmúruð, aðskilin smásvæði, undirokuð af Ísrael og stýrt af palestínskum landstjórum, sundurskorin af landtökubyggðum, vegatálmum og ísraelskum vegum, svipt öllum möguleikum á að reka hagkerfi eða lifa með reisn. Síðan á að þjóðernishreinsa Ísrael sjálft, og smala aröbunum þarna inn. Inn í ísraelskar fangabúðir með palestínskum fangavörðum. Ekki þarf að fjölyrða um þessa framtíðarsýn, hún er bara viðbjóðsleg. Og Abbas er maðurinn sem á að hjálpa Ísraelum að framkvæma hana.

Ísraelar töluðu af sér í Gaza-stríðinu, þegar þeir sögðu í yfirlýsingu að fjöldamorðin væru nauðsynleg til þess að skapa skilyrði fyrir tveggja-ríkja-lausninni. Ef frekari vitna þarf við, þá nefndu einhverjir talsmenn PA það við ísraelska fjölmiðla, að þeir litu á stríðið sem tækifæri til að endurheimta völdin á Gaza, ef zíonistum tækist að steypa Hamas.

Líbanon

Hizbollah-samtökin sigruðu ísraelska herinn eftir að hann hafði ráðist á þau í Líbanon 2006. Ísraelar ætluðu að kenna þeim lexíu, gott ef ekki uppræta þau fyrir fullt og allt, en lærðu í staðinn sjálfir lexíu. Heimurinn fylgdist undrandi með hvernig máttug vígvél Ísraels tapaði fyrir vel skipulagðri skæruliðahreyfingu, og fórnarlömb Ísraels og aðrir andstæðingar þess fylltust nýrri von. Hassan Nasrallah varð um hríð óskoraður leiðtogi andófsins gegn zíonismanum. Hernaðarleg sjálfsmynd Ísraela beið alvarlegan hnekki, og þrýst var á stjórnmálaforystu þeirra að endurheimta hana með sigursælum hernaði. Hamas-samtökin voru nærtækasta skotmarkið. Eftir að Hamas höfðu hrundið valdaránstilraun Fatah á Gaza, vildu óvinir þeirra lækka í þeim rostann. Fyrir stolta Hamas-menn kann að hafa verið freistandi að bera sig saman við Hizbollah, en á þessum tvennum samtökum er mjög mikill munur, allt frá vopnabúnaði og mannafla til vígstöðu og bakhjarla. Þannig að þótt ísraelski herinn hafi tapað í Líbanon, þá átti hann mun betri möguleika á Gaza. Markmiðið var í sjálfu sér ekki að „þurrka út“ Hamas – það er naumast hægt án þess að drepa beinlínis alla Palestínumenn – heldur að drepa nógu marga Hamas-menn til að veikja samtökin, til að Fatah gæti náð aftur fótfestu. Þótt Ísraelar hafi drepið mikinn fjölda Hamas-manna, þá tókst þeim ekki að lama samtökin. En það hefði hvort sem er ekki gagnast þeim mikið, því markmiðið er skammsýnt og heimskulegt: Því fleiri sem þeir drepa, og því fleiri sem þeir svipta lífsviðurværinu, þess meiri verða reiðin og örvæntingin og þess fleiri verða reiðubúnir til að grípa til vopna. Þetta skilja allir sem vilja. Ef Ísraelar vildu frið, þá mundu þeir byrja á honum sjálfir.

Áhrifin

Ef orsakirnar fyrir stríðinu eru í ísraelskum innanríkismálum, þá er rétt að skoða áhrif þess á þau. Tsipi Livni lýsti því yfir að ef hún yrði forsætisráðherra, yrði Hamas steypt með hernaðarlegum, efnahagslegum og diplómatískum aðferðum. Hún lét líka í það skína að við stofnun palestínsks „ríkis“ á hlutum Vesturbakkans, yrðu Palestínumenn búsettir í Ísrael þjóðernishreinsaðir burtu. Palestínskt ríki yrði „þjóðernisleg lausn“ fyrir þá, og um leið gæti Ísrael áfram haldið gyðinglegu og „lýðræðislegu“ yfir bragði sínu. Hún sagðist mundu tilkynna ísraelskum aröbum að þeirra þjóðernislegi metnaður „lægi annars staðar.“ Ástæðan er að þeir hafa mun hærri fæðingartíðni en ísraelskir gyðingar og munu verða fleiri en þeir innan fárra áratuga þótt þeir séu aðeins fimmtungur landsmanna nú.

Þessar berorðu hótanir Livni, sem sýna svo skýrt hvert Ísraelar ætla með „tveggja-ríkja-lausn“, voru viðbrögð við yfirlýsingu frá talsmanni Olmerts, Mark Regev, eftir ríkisstjórnarfund við upphaf árásanna: „Á ríkisstjórnarfundinum í dag var orka, tilfinning um að eftir að hafa haldið aftur af okkur allan þennan tíma, hefðum við loksins tekið við okkur.“ Það er í raun mjög lýsandi fyrir pólitískt ástand í Ísrael, að fjöldamorð á saklausu fólki með loftárásum og efnavopnum sé uppspretta „orku“ fyrir stjórnina.

Gaza-stríðið stóð í þrjár vikur, kostaði um 1400 mannslíf, þar af var meira en helmingur óbreyttir borgarar og um 300 börn. Enn fleiri munu bera örkuml. Eyðileggingin var gífurleg, heimsbyggðin slegin óhug. Morðingjarnir stilla sér upp sem fórnarlömbum, þótt mannfallið væri meira en hundraðfalt meira meðal Palestínumanna heldur en Ísraela, og reyna nú að hvítþvo sjálfa sig. Kalla fórnarlömbin jafnvel hryðjuverkamenn.

Zíonisminn

Hryllingur, samúð og sorg eru eðlileg viðbrögð við fréttunum frá Gaza, en leysa ekki vandann. Það þarf pólitíska lausn við pólitísku vandamáli, heimsvaldastefnu og zíonisma. Þetta stríð er enn eitt merkið um pólitískt gjaldþrot og kreppu zíonismans og Ísraels. Það verður að berjast fyrir réttlátum málalokum. Þjóðríki og þjóðernisstefna eru ekki hluti af lausninni, heldur vandamálinu. Tvö ríki Ísraels og Palestínu verða ekki að veruleika hlið við hlið, Ísraelar hafa séð um það. Þótt Ísraelar og kvislingar þeirra tali stundum um „friðarferli“, þá er ekkert friðarferli. Zíonistar vilja ekki sambúð við Palestínumenn, hvorki friðsamlega né ófriðsamlega. Þeir vilja þá bara burt.

Þjóðernisstefna mun ekki leysa málin en það mun alþjóðleg samstaða gera. Spilltir stjórnmálamenn munu ekki gera það, það mun enginn gera nema almenningur með samtakamætti sínum. Arabískar ríkisstjórnir sem þjóna heimsvaldasinnum verða felldar í uppreisnum. Vesturlandabúar verða að sniðganga Ísrael eins og hægt er, m.a. pólitískt. Skilaboðin eiga að vera: Sá sem fremur eða styður morð á meðbræðrum sínum er ekki gjaldgengur í siðmenntuðum félagsskap. Þeir sem efna til ófriðar gæta annarlegra hagsmuna og eru réttnefndir óvinir fólksins

Ísraelar verða að skilja að þótt þeir geti unnið flestar orrustur geta þeir ekki unnið langa stríðið. Líkt krossfarakastala í eyðimörkinni eru þeir vel búnir vopnum en dæmdir til að tapa. Ef ekki vill betur til gefast flestir upp og flytja burt. En stríð Ísraels gegn aröbum getur tekið endi með því að Ísraelar sættist á réttlæti. Og eins og spámaðurinn mælti: Ávöxtur réttlætisins verður friður.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top