Bernskan í Palestínu á sér flóknar rætur sem fólk í öðrum heimshlutum fær aðeins að kynnast í gegnum hrikalegar fréttir og myndir af hertekinni Palestínu. Palestínumenn horfast daglega í augu við alvarlega atburði í tengslum við uppreisnina gegn aðskilnaðarstefnu, hernámi og hústökum Ísraelsmanna. Dauðinn er mörgum palestínskum börnum þráhyggja og á þverstæðukenndan hátt álíta þessi börn líkur sínar til að lifa mun minni en líkurnar á að deyja. Þau finna hvorki öryggi heima hjá sér né í skólanum eða úti á götu. Þau eru ekki einu sinni örugg í örmum mæðra sinna. Enginn verndar þau, skoðar myndirnar sem þau teikna eða hlustar á samræður þeirra. Teikningar þeirra og umræðuefni fjalla aðallega um píslarvotta, jarðarfarir og dauða. Þetta er þeirra daglega upplifun, þar sem þau verða reglulega vitni að dauða barna og ungs fólks heima hjá sér og á stöðum fjarri vígvellinum. Flest eru kyrrsett á heimilum sínum, sum með útgöngubanni, önnur vegna loftárása.

Það er augljóst að sex áratuga ágreiningur milli Palestínumanna og Ísraelsmanna hefur sáð fræjum haturs og hefndar í hjörtu fólksins á svæðinu, sérstaklega meðal yngri kynslóðarinnar. Í starfi mínu á sviði leiklistar með börnum og unglingum í Palestínu hef ég tekið eftir háu hlutfalli palestínskra barna sem glímir við áfallastreituröskun eftir að hafa upplifað hryllilega atburði í nánasta umhverfi sínu. Þessi áföll koma niður á andlegri heilsu og félagslegri hegðun þessara barna og þau eru ráðvillt og vita ekki hvernig þau eiga að kljást við hugsanir sínar og tilfinningar.
Sem leiklistarfræðingur sem starfar í palestínskum skólum hef ég í miklum mæli tekið eftir að nemendur hafa tilhneigingu til að leysa ágreiningsefni og önnur vandamál sín á milli með ofbeldi. Þar sem þekking ungra barna kemur aðallega frá foreldrum og fjölmiðlum, tengja palestínskir kennarar þessa tilhneigingu til ofbeldis við upplifun og reynslu barnanna að heiman þar sem umræðuefni fjölskyldurnar snýst gjarnan um HINA, sem hafa hertekið land þeirra og eignir, og þörfina fyrir að endurheimta landið og eignirnar, hvað sem það kostar.
Leiklistin með börnum í Palestínu byggist á því grundvallaratriði að barnið sjálft sé miðpunkturinn í því að vakna til vitundar. Leiklistin sem samskiptamiðill mun ekki ein og sér leysa vandamál barnsins gagnvart öðrum en getur aftur á móti nýst því sem verkfæri til að takast á við samskiptaörðugleika og menningarlegar hindranir milli sín og annarra. Eðli leiklistar sem samskiptamiðils er lykilatriði í leiklist með börnum. Leiklist má skilgreina sem hegðun eða atferli sem einstaklingur eða hópur miðlar til þess að eiga tjáskipti við aðra. Þátttakendur í leiklist geta valið um að nota líkamstjáningu, samtöl, einræðu eða tjáningu tilfinninga til þess að þróa þekkingu sína á hlutverkinu sem og umhverfinu. Að nota hreyfingar, að tala við aðra og sýna tilfinningar er hegðun sem við notum sjálf til að þroska sjálfsþekkingu okkar og til að eiga samskipti við aðra í kringum okkur. Leiklistin getur hjálpað ungu fólki til að tjá þarfir sínar, koma vandamálum sínum í orð og tjá eigin sýn á málefni svo sem stríð og frið, ást og hatur, vald og yfirráð, o.s.frv. Í æskuleikhúsinu í Palestínu þurfum við að geta tileinkað okkur nýjar samskiptaleiðir og notfært okkur þær þegar við þurfum að takast á við tungumála- og menningarörðugleika okkar á milli.
Mohammed Awwad er palestínskur leiklistarfræðingur, leikari og leikstjóri, fæddur í Betlehem. Hann hefur unnið að því að þjálfa ungmenni, áhugamenn, félagsþjónustufólk, sjálfboðaliða og háskólanema í leiklist. Hann sat einnig í stjórn Inad-leikhússins frá 2001 til 2005 og frá 2006 hefur hann setið í stjórn Alharah-leikhússins. Hann hefur starfað frá 2005 sem leiklistarkennari í St. Jósefsstúlknaskólanum. Hann gekk til liðs við palestínsku deild Alþjóðaverndar barna og bjó til trúðaleik fyrir börn á hernumdu svæðunum, en verkið var flutt hvarvetna í suðurhluta Palestínu, þar sem Awwad starfaði með þúsundum barna í hrjáðum þorpum og flóttamannabúðum. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín.
Þýðing: Ásgerður Jóhannesdóttir
Birtist í Frjáls Palestína.