Á hálum ís

Þetta er auðvitað allt dómaranum Richard Goldstone að kenna. Hann á sök á þessu, eins og öllu öðru slæmu sem við erum að lenda í núna. Hann á sök á vandræðunum sem við erum í hjá Sameinuðu þjóðunum, bæði í New York og í Genf. Á samsærinu um að færa bæði stjórnmála- og hernaðarleiðtoga okkar fyrir dóm í Haag. Á áframhaldandi erfiðleikum á milli okkar og Tyrklands. Á öllum þeim tilraunum sem fram fara víðsvegar um heim til að sniðganga Ísrael.

Nú á hann einnig sök á tilvistarkreppunni sem blasir við Mahmoud Abbas (Abu Mazen).

Þegar Goldstone-skýrslan var lögð fyrir framan mannréttindaráð , ákvað ríkisstjórn okkar að gera allt sem í hennar valdi stóð að koma í veg að skýrslan yrði einu sinni rædd.

Það voru auðvitað Palestínumenn sem heimtuðu umræðuna. Þegar skýrslan var birt gerði talsmaður Palestínumanna í Genf hið augljósa: Hann heimtaði umræður um skýrsluna með það fyrir augum að leggja hana fyrir Öryggisráðið, sem myndi þá vísa henni til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag.

Það sem á fylgdi næst hefði verið hægt að sjá fyrir. Ísraelska ríkisstjórnin þrýsti hart að Bandaríkjunum og Bandaríkin þrýstu þá um leið á Mahmoud Abbas. Abbas gaf eftir og skipaði talsmanninum í Genf að draga aftur beiðni hans um umræður.

Hefði málefnið verið annað, hefði þetta farið hljótt fram. En þar sem málefnið var stríðið á Gaza, urðu viðbrögð hjá palestínskri alþýðu mjög hávær. Allt stríðið sá hver einasti Palestínumaður á Vesturbakkanum stríðshörmungarnar á hverjum einasta degi, já hverri klukkustund, á Al-jazeera og öðrum arabískum fréttastöðvum. Þar sáust sundirslitnir líkamar kvenna og barna, skólar og moskur í rústum og sprengjur með hvítum fosfór.

Fyrir Hamas-leiðtogana var skipun Abbasar um að draga beiðnina til baka eins gjöf frá Allah. Þeir réðust á Abbas af fullum krafti. „Svikari“, „samverkamaður“, „undirverktaki zíonistamorðingjanna“ voru hófasamari nöfnin sem þeir kölluðu hann. Margir Palestínumenn bergmáluðu þessi viðhorf, þó þeir væru ekki endilega stuðningsmenn Hamas. Lagaleg staða Abbasar er óljós. Samkvæmt einni útgáfu er kjörtímabili hans löngu lokið. En samkvæmt annari lýkur því eftir nokkra mánuði. Hver sem niðurstaðan er þá mun hann neyðast til að halda kosningar bráðum. Undir þeim kringustæðum getur hann ekki hunsað almenningsálit sem hefur orðið æ andsnúnara honum. Þar af leiðandi dró hann rökrétta ályktun og skipaði talsmanni sínum í Genf að endurnýja beiðni sína um að Goldstone-skýrslan yrði rædd. Því máli lauk í gær með ályktun um að vísa skýrslunni til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Ríkisstjórn okkar hafði fengið nóg af þessu og brást reiðilega við. Fjölmiðlasveitin sagði Abbas vera „vanþakklátan“, jafnvel hræsnara. Hafði hann ekki, þrátt fyrir allt, hvatt Ísraela á meðan á Gaza-stríðinu stóð að efla árásirnar á íbúa Gaza, til að steypa Hamas? Þessi ásökun var sem olía á eldinn. Fyrir Palestínumenn merkti það að Abbas léti sér ekki nægja hörmungarnar sem Ísrael hafði látið dynja á íbúum Gaza, heldur heimtaði hann meiri. Það er erfitt að ímynda sér skaðlegri ásökun.

Eins og þetta hafi ekki verið nóg, þá tilkynntu fjölmiðlar Ísraels að Jerúsalem hefði sett palestínsku heimastjórninni „úrslitakosti“: Ef beiðnin um umræður væri ekki dregin til baka, þá myndi Ísrael ekki veita öðru palestínsku farsímafyrirtæki, „al-Wataniya“ leyfi fyrir tíðni og því var bætt við hlakkandi að hluthafar fyritækisins væru m.a. synir Abbasar. Slíkt leyfi er virði hundraða milljóna dollara. Jafnvel í þess konar máli eru Palestínumenn algjörlega háðir ísraelskum hernámsyfirvöldum.

Allt málið varpar skýru ljósi á þær ómögulegu aðstæður sem sem palestínsk yfirvöld standa frammi fyrir. Þau eru á milli steins og sleggju – í raun á milli nokkurra sleggja og steins.

Ein sleggjan er Ísraelar. Palestínsk yfirvöld eru algjörlega háð hernámsherrunum. Eins og símamálið sýnir getur ekkert hreyfst á Vesturbakkanum án leyfis Ísraela.

Binyamin Netanyahu talar um „efnahagslegan frið“ í staðinn fyrir pólítískan frið. Efnahagskosti í stað þjóðfrelsis. Þetta sýnir annars hversu fjarlægur hann er kenningum átrúnaðargoðs síns, Ze‘ev (Vladimir) Jabotinsky sem fyrir 85 árum síðan gerði grín að zíonistaleiðtogum fyrir þá tálsýn að hægt væri að múta Palestínumönnum til friðs. Hann sagði að engin þjóð seldi sig fyrir efnahagsumbætur.

Forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, Salam Fayad, er þegar búinn að falla í þessa gildru. Hann bendir á framfarirnar sem hann segir hafa orðið á efnahagnum á Vesturbakkanum. Nokkrir vegatálmar voru fjarlægðir. Tilkomumikil verslunarmiðstöð var opnuð í Nablus. Fayad sagði að á innan við tveimur árum myndu Palestínumenn geta lýst yfir sjálfstæði. Hann hefur að engu þá staðreynd að ísraelski herinn, sem ræður í reynd ríkjum á hernámssvæðunum, getur stoppað allt þetta á augabragði. Vegatálmana er hægt að setja upp aftur og tvöfalda fjölda þeirra, það er hægt að setja útgöngubann í bæjunum og rústa verslunarmiðstöðinni. Í raun gerir hver ný verslunarmiðstöð á Vesturbakkanum íbúana háðari velvild hernámsyfirvaldanna.

Önnur sleggjan er bandarísk. Palestínska heimastjórnin hefur ofan af fyrir sér með peningagjöfum frá Bandaríkjunum og félögum þess í Evrópu. Öryggisverðir Palestínsku yfirvaldanna eru núna þjálfaðir af bandarískum hershöfðingja, Keith Dayton. Washington kemur fram við Mahmoud Abbas rétt eins og við forseta Afghanistan, Hamid Karzai og forsætisráðherra Íraks, Nuri Kamal al-Maliki. Hann er „okkar tíkarsonur“. Hann er þarna eins lengi og það hentar okkur, hann hverfur þegar við sleppum honum.

Í deilum á milli Washington og Jerúsalem myndi Ramallah græða. En eins og Goldstone-ferlið sýnir, þá vinna Bandaríkin og Ísrael, samhliða, allavega sem stendur. Abbas hefur ekki aðra úrkosti en að dansa eftir tónlist hinnar ísraelsku flautu.

Steininn er Palestína. Eins og er, þá er palestínsk alþýða aðgerðalaus.

Hún er þreytt, slitin, taugatrekkt og örvæntingarfull. En eins og Goldstone málið sýnir þá kraumar eldfjall undir yfirborðinu.

Talsmenn Hamas bera Abbas saman við Marskálkinn Petain, sem var frönska stríðshetja í fyrri heimsstyrjöldinni og átrúnaðargoð fólksins og hersins. Í seinni heimsstyrjöldinni, þegar þýski herinn rústaði þeim franska í leiftursókn sem sló heimsbyggðina, leystist stjórnin í París upp. Á neyðarstund sinni kallaði fólkið eftir aldraða marskálknum, sem gafst upp fyrir Þjóðverjum til þess að bjarga því sem bjargað yrði. Hann var án nokkurs vafa franskur föðurlandsvinur.

Hitler virti marskálkinn og kom upphaflega vel fram við hann. Í u.þ.b ár, velti hann meira að segja fyrir sér að gera Petain að bandamanni sínum, fremur en Mussolini. Stór hluti Frakklands hélt áfram að vera „óhernuminn“, einskonar þýskt verndarríki, og þar var Vichistjórnin skipuð (nefnd eftir höfuðborg hennar). Bráðlega fóru málin hins vegar að versna og Petain varð algjör samverkamaður nasista og tók jafnvel þátt í útrýmingu gyðinga. „Vichy“ varð einskonar samnefni yfir landráð og eftir stríðið var Petain dæmdur til dauða. Þó var tekið tillit til glæstrar fortíðar hans og var dómurinn þannig minnkaður niður í lífstíðarfangelsi.

Ég held ekki að þetta sé sanngjarn samanburður. Ramallah er ekki Vichy. Khaled Mashaal í Damaskus er ekki de Gaulle í London. En Vichy er einskonar aðvörun og palestínsk yfirvöld eru á hálum ís. Stjórn sem býr við hernám á alltaf á hættu að verða að samverkastjórn. Munnlegar árásir Hamas eru aðeins til að auka eymd Abbasar og bandamanna hans.

Upphafleg skipun Abbasar að hætta við beiðnina um að Goldstone-skýrslan yrði rædd hindraði líka tilraunir til að brúa gjána á milli palestínsku hreyfinganna.

Egyptar breiða nú út fréttir um innbyrðis sáttmála milli Palestínumanna og leka innihaldi hans. Það er erfitt að trúa því að eitthvað verði úr slíkum sáttmála. Hamas á að láta af einveldi sínu á Gaza og það er mjög erfitt að trúa að þeiri geri það. Abbas á að fara á móti Hamas í frjálsum kosningum – þetta er líka mjög erfitt að ímynda sér. Það er enn erfiðara að trúa því að Bandaríkjamenn myndu taka áhættuna á því að leyfa slíkar kosningar. Þeir hafa þegar tilkynnt að þeir séu að reyna sitt besta til að koma í veg fyrir sættir.

Ísraelskir fjölmiðlar tilkynna hlakkandi að hatrið á milli Fatah og Hamas sé sterkara en hatur þeirra í garð Ísraels. Það er ekkert einsdæmi. Þegar við börðumst á móti bresku stjórninni í Palestínu fyrirskipaði David Ben-Gurion að bardagamenn Irgun yrðu framseldir í varðhald til bresku lögreglunnar og það var aðeins nánast ofurmannleg sjálfsstjórn Menachem Begin sem kom í veg fyrir borgarastyrjöld. Írsku frelsisbaráttumennirnir drápu hvorn annan af miklum móð þegar Bretar buðu upp á málamiðlun. Slíkt hefur gerst víða.

Ef Palestínumenn þurfa að velja á milli Hamas og Fatah þá eru þeir ekki öfundsverðir. Hamas er álitin óspillt hreyfing, trú baráttunni gegn hernámi Ísraela. En höftin sem þeir eru nú að setja á Gazabúa, þá sérstaklega á konurnar, og byggjast á bókstafstrú, eru hræðileg í augum margra Palestínumanna. Palestínsk yfirvöld eru álitin spillt og samverkamenn, en þau eru jafnframt álitin eina hreyfingin sem geti fengið Bandaríkin til að styðja málstað Palestínumanna.

Í dag bjóða Hamas-liðar í reynd ekki upp á neinn annan kost, þar sem þeir viðhalda líka vopnahléi við Ísrael. Þó er vonin um að Abbas gæti fært frið að dofna.

Hvernig bregst ríkisstjórn okkar við þessu ástandi?

Sakleysingjar gætu sagt að Ísrael vilji eyða öfgahreyfingunni Hamas og styrkja hinn hófsamari Abbas, sem sé að vinna að friði við Ísrael. Það segi sig sjálft.

Ef svo er, hvers vegna er Ísraelstjórn þá að koma í veg fyrir að Abbas geti náð nokkrum pólitískum ávinningi, jafnvel táknrænum? Af hverju kallaði Ariel Sharon hann „reitta hænu“? Afhverju endurtaka ísraelskir fjölmiðlar á hverjum degi að Abbas sé „of veiklyndur til að semja frið“?

Hvað hindrar Netanyahu í að frelsa þúsundir palestínskra fanga sem látbragð fyrir Abbas, á meðan hann er að semja við Hamas um að fá látna lausa þúsundir fanga í staðinn fyrir hermanninn Gilad Shalit, sem tekinn var gísl? Af hverju setur hann Abbasi skilyrði sem yrðu Abbasi ekkert annað en pólitískt sjálfsmorð hans ef hann féllist á þau (til dæmis að viðurkenna Ísrael sem „ríki gyðingaþjóðarinnar“)? Af hverju er stækka landtökubyggða í Austur-Jerúsalem og á Vesturbakkanum á ógnarhraða fyrir framan nefið á Abbasi?

Stjórnmála- og hernaðarforystan í Ísrael eru ekki skipuð heimsku fólki. Því fer fjarri. Þegar hún gerir eitthvað með fyrirsjáanlegum afleiðingum, þá er hægt að búast við því að þetta séu niðurstöðurnar sem hún vill, jafnvel þegar hún heldur fram hinu gagnstæða. Þegar svona mikið af aðgerðum ríkisstjórnarinnar styrkir Hamas og veikir stöðu Abbasar, er það þá ekki þess vegna sem hún gerir þetta?

Abbas er sannarlega hættulegur núverandi stjórnarstefnu Ísraels. Hann nýtur stuðnings Obama forseta, sem þrýstir á Ísrael að hefja samningaviðræður um „tvö ríki fyrir tvær þjóðir“, sem hefur í för með sér að Ísraelar myndu draga sig frá Vesturbakkanum og fjarlægja flestar landtökubyggðirnar. Það myndi þýða endalok 120 ára útþenslu zíonista og gjörbreyta eðli Ísraels.

Ef Hamas réði yfir öllum Palestínumönnum myndi það skjóta þessum „hættum“ í burtu. Þá væri enginn bandarískur þrýstingur um málamiðlun. Engin þörf á samningaviðræðum. Engin þörf á „að halda aftur af“ landtökubyggðum eða á málamiðlun varðandi Jerúsalem. Hernámið gæti haldið áfram algjörlega ótruflað.

Þetta gæti leitt til stórslyss í framtíðinni. En hverjum er svo sem ekki sama um framtíðina?

Þýðing: Einar Steinn Valgarðsson

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Uri Avnery

    Höfundur er ísraelskur rithöfundur, fyrrum hermaður, stjórnmálamaður ,blaðamaður og aktívisti sem hefur helgað langt líf sitt friðarbaráttunni og er meðal stofnenda friðarsamtakanna Gush Shalom.

    Skoða allar greinar
Scroll to Top