Þetta var auðvitað það sem þau vildu

Það er kominn tími til þess að almannatenglar ísraelsku ríkisstjórnarinnar nýti hæfileika sína til fulls og leigi út þjónustu sína. Þá gætu þeir verið til staðar hvenær sem brjálæðingur réðist inn í verslunarmiðstöð einhvers staðar eins og í Wisconsin og skyti til bana hóp vegfarenda, og tjáð heimspressunni að „árásarmaðurinn harm[i] dauðsföllin en hann [hafi gert] allt sem hann gat til að koma í veg fyrir ofbeldi“. Þá gætu hinar og þessar ríkisstjórnir gefið út yfirlýsingar á þessa leið: „Við vitum einungis að maður vopnaður AK-47 riffli gekk berserksgang og við hlið hans liggur haugur af líkum, en þar til við vitum allar staðreyndir málsins getum við ekki fellt dóm um hvað átti sér stað“.

Máli sínu til stuðnings hafa Ísraelar sent frá sér mynd af vopnunum sem þeir fundu um borð (sem eru í hæsta lagi nokkrir hnífar, verkfæri og prik) sem grunnhyggnir gætu ætlað að maður gæti búist við að finna á hvaða skipi sem er, en hinir glöggari munu átta sig á að eru akkúrat vopnin sem maður myndi bera á sér ef maður hefði í hyggju að sigrast á Ísraelsher. Vopnabúrið er minna en maður myndi finna í dæmigerðum verkfæraskúr í garði einhvers í Cirencester, sem sýnir að það er eins gott að Ísraelar rústi Cirencester sem fyrst, í nauðsynlegri sjálfsvörn.

Það er synd að þeir hafi ekki verið hugmyndaríkari, þar sem þeir hefðu getað sagt „við fundum líka banvæna loftvog og áttavita sem er ekki einungis hægt að kasta í höfuðið á einhverjum heldur er meira segja með merkingar sem hjálpa árásarmanninum að vita í hvaða átt hann á að kasta honum og kíki sem má auðveldlega breyta í geislabyssu“.

Þetta væri jafn rökrétt og yfirlýsing talsmanns ísraelska forsætisráðherrans – „Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að koma í veg fyrir þetta atvik“. Því þetta smáræði sem ráðamenn reyndu var að senda ekki vopnað landvarnarlið á svæðið í þyrlum um miðja nótt að skjóta fólk. Tæknin hlýtur að vera mér meðfædd því ég kemst oft í gegnum allan daginn án þess að klifra úr þyrlu og skjóta fólk, og ég er ekki einu sinni að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess. Stjórnmálamenn og aðrir álitsgjafar um heim allan endurtaka einhverja útgáfu af þessari línu. Þeir átta sig á því að þjóð nokkur hefur sent landvarnarliðið sitt gegn fólki sem er að flytja vistir til örvæntingarfulls fólks, og að landvarnarliðið skýtur í leiðinni ýmist þeirra til bana, og samt kenna þeir reiðilega hinum dauðu um. Ein dæmigerð fyrirsögn sem birtist í gær var svohljóðandi „Aðgerðarsinnar fengu það sem þeir vildu – átök.“ Þetta viðhorf er svo brenglað að það á skilið að vera skrásett sérstaklega sem nýskilgreind geðtruflun, eitthvað í líkingu við „Öfugt slátursþolenda ringlunarheilkenni“.

Ísrael og stuðningmenn þeirra halda því fram að hópurinn Viva Palestina, sem er skipaður fólki sem safnar matargjöfum, sementi og lágmarks hreinlætistækjum, svo sem salernum og flytur svo varninginn til Gaza, hafi allan tímann viljað ofbeldi. Því hópurinn hefur eflaust hugsað Hezbollah gat ekki sigrað Ísraela en það er vegna þess að ólíkt okkur var Hezbollah ekki með fyllur fyrir salerni og nokkra kassa af plómutómötum“.

Ein blaðagrein tjáði okkur að skipaflotinn væri uppfullur af „föntum sem þyrst[i] í átök“ og ásakaði svo skipverja um að hafa síður hjálparstarf í huga en auglýsingabrellu. Vera sænska rithöfundarins Henning Mankell á skipinu rennir stoðum undir það“.Voru þetta þá fantar eða snerist þetta um auglýsingabrellu? Voru skipverjar með fantadeild og auglýsingabrelludeild eða rann þetta allt saman, svo að rithöfundurinn dreifði athygli hermannanna með persónusköpun sinni á meðan hermennirnir réðust á þá með banvænum hallamæli?

En sumir verjendur Ísraels eru svo blindir fyrir því sem gerist fyrir augum þeirra að það er ekkert sem þeir myndu hika við að verja. Ísrael gæti sprengt kattaheimili og áður en fimm mínútur væru liðnar myndu þeir hrópa: „Hvernig vitum við að kettirnir hafi ekki verið að smygla semtex-sprengiefni í feldinum sínum til Hamas?“

Ef Íranir eða einhverjir aðrir sem við erum að reyna að útmála sem óvini hefðu framið þetta ódæði hefði það valdið þvílíku þrumuskýi að það hefði stöðvað flug.

En þar sem þetta er Ísrael, þá tjá ríkisstjórnir sig í nokkrum diplómatískum frösum þar sem enginn er ásakaður heldur er fallist á að það sé „miður“ að dauðsföll hafi orðið. Þær hefðu allt eins getað valið sér orð af handahófi úr orðabók svo að okkur yrði flutt eftirfarandi frétt: „William Hague lýsir dauðsföllunum sem „sexhyrndum“. Og þá segði í yfirlýsingu frá öldungadeild Bandaríkjaþings: „Þetta er allt mjög ruglingslegt. Við skulum vona að framvegis muni þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að svipað atvik endurtaki sig.“

Einar Steinn Valgarðsson þýddi greinina úr ensku.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Mark Steel

    Höfundur Mark Steel er breskur dálkahöfundur, rithöfundur, sósíalisti, grínisti og aktívisti. Hann hefur einnig verið með þætti í útvarpi og sjónvarpi.

    Skoða allar greinar
Scroll to Top