Skynsömustu – ég var næstum búinn að skrifa einu skynsömu – orðin sem sögð voru í þessari viku hrutu af vörum fimm ára drengs.
Eftir fangaskiptin spurði einn af þessum sjálfvitum meðal sjónvarpsfréttamanna drenginn: „Hvers vegna slepptum við 1027 aröbum í skiptum fyrir einn ísraelskan hermann?“.
Hann bjóst auðvitað við vanalega svarinu: „Af því að einn Ísraeli er þúsund araba virði“.
Litli drengurinn svaraði: „Af því að við náðum mörgum þeirra og þeir náðu bara einum“.
Í meira en viku var allt Ísrael frá sér numið. Gilad Shalit réði svo gott sem landinu (Shalit þýðir „sá sem ræður“). Myndir af honum blöstu við hvarvetna, rétt eins og myndirnar af félaga Kim í Norður-Kóreu.

Þetta var eitt af fáum skiptum þar sem Ísraelar gátu verið stoltir af sjálfum sér. Fá ríki, ef nokkur, hefðu verið reiðubúin að skipta á 1027 föngum fyrir einn. Í flestum tilvikum, þar á meðal í Bandaríkjunum, hefði stjórnmálalega séð verið ómögulegt fyrir leiðtoga að taka slíka ákvörðun.
Á vissan hátt er þetta hluti af gettóhefð gyðinga. Það er talin heilög trúarskylda að „endurleysa fanga“ og á þetta rætur í samfélagi fólks sem var dreift og ofsótt. Ef sjóræningjar múslima handsömuðu gyðing frá Marseilles til að geta selt hann á þrælamarkaði í Alexandríu, þá var það skylda gyðinga í Kaíró að borga lausnargjald: að „endurleysa“ hann.
Eins og fornt máltæki segir „Allir Ísraelar ábyrgjast hver annan“. Ísraelar gátu horft í spegilinn (og það gerðu þeir) og sagt „Erum við ekki frábærir?“.
Strax eftir Oslóarsamkomulagið lagði Gush Shalom, friðarhreyfingin sem ég tilheyri, til að allir palestínskir fangar yrðu samstundis látnir lausir. Við sögðum að þeir væru stríðsfangar, og þegar bardögum lýkur eru stríðsfangar sendir heim. Með þessu hefði öllum þorpum og bæjum í Palestínu verið send öflug skilaboð um mannúð og friðarvilja. Í samvinnu við Faisal Husseini heitinn, sem fór fyrir aröbum í Jerúsalem, skipulögðum við sameiginleg mótmæli fyrir framan Jeneid-fangelsið sem er í grennd við Nablus. Meira en 10.000 Palestínumenn og Ísraelar tóku þátt.
En Ísrael hefur aldrei viðurkennt þessa Palestínumenn sem stríðsfanga. Þeir eru álitnir ótíndir glæpamenn, ef ekki þaðan af verri.
Í vikunni sem leið voru fangarnir sem látnir voru lausir aldrei kallaðir „palestínskir baráttumenn“, „vígamenn“, eða bara hreinlega „Palestínumenn“. Hvert einasti fjölmiðill, allt frá hinu virðulega blaði Ha’aretz niður í aumasta slúðursnepil, vísaði alltaf til þeirra sem „morðingja“, eða gekk skrefinu lengra og kallaði þá „hrottafengna morðingja“.
Kúgunaraflið sem orð geta borið með sér er eitt það versta sem til er. Þegar orð hefur einu sinni náð fótfestu getur það stýrt hugsun og gjörðum. „Dauði og líf eru á tungunnar valdi“, segir í Biblíunni (Orðskviðirnir 18:21). Það er eitt að láta þúsund bardagamenn úr liði óvinarins lausa, en að láta þúsund hrottafengna morðingja lausa er allt annað mál.
Sumir þessara fanga hafa aðstoðað sjálfsmorðssprengjumenn við að drepa fjölda fólks. Sumir hafa gert hroðalega hluti – eins og fallega unga palestínska konan sem notaði internetið til að lokka ástsjúkan ísraelskan strák, sem var 15 ára gamall, í gildru þar sem hann var sallaður niður. En aðrir fengu lífstíðardóma fyrir að tilheyra „ólöglegum samtökum“ eða eiga vopn, eða fyrir að kasta gagnslausri heimagerðri sprengju að rútu, sem olli engum skaða.
Nánast allir þeirra voru dæmdir af herdómsstól. Eins og sagt hefur verið, þá eiga herdómsstólar jafn mikið skylt við alvöru dómstóla eins og hernaðartónlist við alvöru tónlist.
Ísraelum er tamt að segja að hendur allra fangana séu „flekkaðar blóði“. En hver okkar Ísraela er ekki með hendurnar blóði flekkaðar? Auðvitað loðir ekkert blóð við hendur ungrar konu í hernum sem fjarstýrir ómannaðri flaug sem verður grunuðum Palestínumanni og allri fjölskyldu hans að bana. Né við flugmann sem varpar sprengju á íbúðarhverfi og finnur aðeins fyrir „smá hnykki á vængnum“ eins og fyrrum yfirmaður Ísraelshers orðaði það. (Eitt sinn sagði Palestínumaður við mig „Láttu mig fá skriðdreka eða orustuflugvél og þá skal ég strax láta af hryðjuverkum“.
Helstu rökin gegn fangaskiptunum voru, samkvæmt tölfræði leyniþjónustunnar, að 15 prósent fanganna sem væru þannig látnir lausir yrðu virkir „hryðjuverkamenn“ aftur. Kannski það. En flesta þeirra verða virkir stuðningsmenn friðar. Nánast allir palestínskir vinir mínir eru fyrrum fangar, og sumir þeirra voru bak við rimla í 12 ár eða lengur. Þeir lærðu hebresku í fangelsinu, kynntust lífi Ísraela með því að horfa á sjónvarp og fóru meira að segja að dást að sumum þáttum í ísraelsku samfélagi, eins og þingræðinu. Flestir vilja fangarnir bara fara heim, staðfesta ráð sitt og stofna fjölskyldu.
En á meðan endalaust var beðið eftir Gilad sýndu allar sjónvarpsstöðvarnar okkar frá drápum sem fangarnir sem átti að sleppa höfðu tengst, eins og ungu kon unni sem ók sprengjumanni á áfanga stað. Þetta var endalaus hatursvaðall. Aðdáun okkar á eigin dyggðum, sem yljaði okkur, blandaðist hrollinum um að við værum enn og aftur fórnarlömb, þvinguð til að láta hrottafengna morðingja lausa sem myndu aftur að reyna að drepa okkur.
Samt trúðu allir fangarnir því af einlægni að þeir hefðu þjónað þjóð sinni í frelsisbaráttu. Eins og segir í frægu lagi „Skjótið mig sem írskan hermann / hengið mig ekki eins og hund / því ég barðist fyrir frelsi Írlands“. Hafa ber í huga að Nelson Mandela var virkur hryðuverkamaður sem dúsaði í fangelsi í 28 ár því að hann neitaði að skrifa undir yfirlýsingu um að hann fordæmdi hryðjuverk.
Ísraelum er fyrirmunað að setja sig í spor andstæðinga sinna (en það er líklega raunin hjá flestum þjóðum). Þetta gerir þeim nánast ókleyft að halda fram skynsamri stefnu, séstaklega í þessu máli.
Hvað varð til þess að Benjamin Netanyahu lét undan?

Til hægri: Palestínskir fangar fagna frelsi.
Faðir Gilads, Noam Shalit, er hetjan í þeirri baráttu. Hann er hlédrægur maður og forðast sviðsljósið, en hann steig fram og barðist dag hvern fyrir syni sínum í fimm ár fjóra mánuði. Það gerði móðir Gilads líka. Þau björguðu bókstaflega lífi hans. Þeim tókst að koma af stað fjöldahreyfingu sem á sér ekki sinn líka í sögu Ísraels.
Þar hjálpaði að Gilad lítur út eins og hann sé sonur allra. Hann er feiminn ungur maður með grípandi bros sem blasti við á öllum myndum og myndböndum frá því áður en hann var handsamaður. Hann var unglegur, grannur og hæverskur. Fimm árum seinna leit hann ennþá eins út, nema að hann var mjög fölur.
Ef leyniþjónusta okkar hefði getað haft upp á honum hefðu liðsmenn hennar áreiðanlega reynt að frelsa hann með valdi. Það hefði vel getað orðið honum dauðadómur, eins og hefur gerst svo oft áður. Það að ekki hafi tekist að finna hann, þrátt fyrir hundruðir útsendara á Gazaströndinni, er ótrúlegur ávinningur fyrir Hamas. Það skýrir hvers vegna Gilad var haldið í strangri einangrun og fékk ekki að hitta neinn.
Þegar hann var látinn laus, létti Ísraelum við að sjá að hann virtist vel á sig kominn, við góða heilsu og skýr. Hann tjáði sig lítið, en á heimleið um Egyptaland nefndi hann þó að hann hafi fengið að vera með útvarp og sjónvarp og hefði vitað af baráttu foreldra sinna.
Frá því að hann steig á ísraelska helsta markmiðið með samþykkinu, ef ekki hreinlega það helsta.
Þessu klækjabragði var beint gegn Abbasi.
Aðgerðir Abbasar hjá Sameinuðu þjóðunum hreifðu heldur betur við hægristjórninni okkar. Jafnvel ef það eina sem kemur út úr þessu í reynd er að alþjóðaþingið viðurkenni Palestínu sem áheyrnarfulltrúa á þinginu, mun það samt vera stórt skref í átt að raunverulegu Palestínuríki.
Rétt eins og allar aðrir ríkisstjórnir okkar frá því að Ísrael var stofnað er þessi ríkisstjórn alfarið á móti sjálfstæðu ríki Palestínumanna, jafnvel enn meira þær fyrri. Það myndi binda enda á drauminn um StórÍsrael sem næði að bökkum Jórdanár, við myndum neyðast til að skila stórri sneið af Fyrirheitna landinu og yfirgefa tugi landtökubyggða.
Það er þetta sem Netanyahu og félagar óttast mest. Þeir óttast Hamas ekki vitund. Hvað geta þeir gert? Varpað nokkrum eldflaugum, drepið nokkra – og hvað með það? Tvöfalt fleiri deyja í umferðarslysum í Ísrael en nokkurn tíman af völdum hryðjuverka. Ísrael ræður við það. Hamasstjórnin færi líklega ekki einu sinni með völd á Gaza ef Ísrael hefði ekki skilið Gazaströndina frá Vesturbakkanum, þvert á að hafa heitið í Osló að opna fjórar greiðfærar leiðir þar á milli. Það var aldrei gert.
Þetta skýrir líka tímasetninguna. Hvers vegna fellst Netanyahu núna á eitthvað sem hann hefur barist gegn af heift allt sitt líf? Það er vegna þess að fjaðralausi kjúklingurinn Abbas breyttist skyndilega í örn.
Daginn sem skipst var á föngum hélt Abbas ræðu. Það var ansi holur hljómur í henni. Fyrir hinn almenna Palestínumann lá málið ljóst fyrir: Abbasi tókst ekki, þrátt fyrir alla vini sína meðal Ísraela og Bandaríkjamanna, að fá neinn látinn lausan árum saman. Hamas, sem beitti valdi, fékk meira en þúsund fanga látna lausa, þar á meðal meðlimi í Fatah. Ergo: „Valdbeiting er eina tungumálið sem Ísrael skilur“.
Langflestir Ísraelar studdu samkomulagið, þó að þeir væru vissir um að hrottafengnu morðingjarnir myndu reyna aftur að drepa okkur.
Skilin hafa aldrei verið jafn skýr og núna: 25 prósent voru andvíg. Þar með talinn er allur öfgahægrivængurinn, allir landdtökumennirnir og næstum allur þjóðernis-trúarvængurinn. Allir hinir – sá gríðarstóri hópur sem samanstendur af miðjumönnum, vinstrimönnum, trúlausum og frjálslyndum, auk hófsamra trúmanna – studdu samkomulagið.
Það er þessi almenningur í Ísrael sem framtíðarvonir hvíla á. Ef Netanyahu hefði boðið Palestínumönnum friðarsamkomulag í þessari viku, og ef hann hefði notið stuðnings yfirmanna hersins, Mossad og innanríkisleyniþjónustunnar (eins og í þessari viku) hefði sami meirihluti stutt hann.
Hvað fangana varðar, þá er 4000 enn haldið í ísraelskum fangelsum og líklegt er að þeim muni fjölga aftur. Það er alveg rétt hjá andstæðingum samkomulagsins að þetta sé palestínskum hreyfingum mikill hvati til þess að reyna áfram að handsama ísraelska hermenn í því skyni að fá fleiri fanga látna lausa.
Ef allir Ísraelar eru frá sér numdir af því að einum strák var skilað til fjölskyldu sinnar, hvað þá með 4000 fjölskyldur hinu megin? Því miður setja Ísraelar almennt ekki spurninguna fram þannig. Þeir eru orðnir vanir því að líta aðeins á palestínska fanga sem skiptimynt.
Hvernig á að hindra að reynt verði að handsama fleiri hermenn? Það er bara ein leið fær: Að komast að trúverðugu samkomulagi, sem geti orðið til þess að þeim verði sleppt.
Eins og með friði, ef þið afsakið orðbragðið.
Uri Avnery er ísraelskur friðaraktívisti, fyrrum hermaður, blaðamaður og stjórnmálamaður. Hann fer fyrir friðarsamtökunum Gush Shalom.
Þýðing: Einar Steinn Valgarðsson.
Birtist í Frjáls Palestína.