Stöndum vörð um mannúðina

Í apríl 2011 voru friðaraktívistarnir Juliano Mer-Khamis og Vittorio Arrigoni myrtir með 11 daga millibili, á Vesturbakkanum og á Gaza.

Félagið Ísland-Palestína harmar og fordæmir þessi morð.

Vittorio Arrigoni fannst myrtur 15. apríl í yfirgefnu húsi á Gazaströnd. Hann var 36 ára gamall. Skömmu áður hafði verið birt myndband þar sem hann sást í haldi hóps sem krafðist þess að meintur leiðtogi þeirra yrði látinn laus og gaf 30 tíma frest fram að því að Vittorio yrði drepinn.

Leiðtogi þessi fer fyrir áður óþekktum klofningshóp tiltölulega óþekktra samtaka á Gaza, þ.e. Salafista. Ráðið hefur verið að Vittorio hafi verið myrtur löngu áður en fresturinn rann út. Salafistar neituðu aðkomu en gáfu þó út loðnar yfirlýsingar varðandi morðið. Í kjölfarið hertu Hamas sókn gagnvart Salafistum.

Juliano Mer­Khamis var myrtur í flóttamannabúðum Jenín á Vesturbakkanum 4. apríl af óþekktum grímumönnum. Hann var 52 ára gamall. Hann lætur eftir sig tvö börn og barnshafandi eiginkonu. Þegar þetta er ritað hefur einn maður verið ákærður en enginn hefur enn lýst morðinu á hendur sér.

Margt má teljast gruggugt í þessum málum. Hvorki er t.d. hægt að fullyrða né útiloka aðkomu Ísraels að morðunum.

Engu að síður virðast þessi hrottalegu morð til þess gerð að ala á sundrungu meðal Palestínumanna og fæla hjálparstarfsfólk og friðar- og mannréttindabaráttufólk frá starfi í Palestínu. Félagið vill ítreka kröfuna um vernd fyrir fólk sem að slíkum málum starfar og þá jafnframt kröfuna um vernd handa almennum borgurum.

Minning fólks eins og Julianos og Vittorios er best heiðruð með því að halda á lofti þeim gildum sem það hafði að leiðarljósi; baráttunni fyrir friði og grundvallarréttindum. Það mun Félagið Ísland-Palestína gera nú sem endranær.

Einkunnarorð Vittorio: „Stay Human“ eru svo orð sem allir ættu að geta tekið til sín. Þá minnist undirritaður orða Vittorios í svari til hans á bloggi Vittorios, Guerilla Radio: „Frá Íslandi til Ítalíu slær sama hjartað af ástríðu fyrir frelsun Palestínu“.

Vittorio starfaði meðal annars með Alþjóða samstöðuhreyfingunni, ISM, líkt og friðaraktívistinn Rachel Corrie, sem drepin var af Ísraelsher í borginni Rafah, syðst á Gaza, árið 2003 þar sem hún vildi aftra að ísraelsk jarðýta jafnaði palestínskt hús við jörðu. Þriðji meðlimur hreyfingarinnar sem drepinn hefur verið í Palestínu var Tom Hurndall, sem ísraelskur hermaður skaut í höfuðið á Gaza sama ár og Rachel Corrie. Hurndall hafði þá verið að reyna að koma palestínskum börnum í skjól undan vélbyssuskotum frá ísraelskum skriðdreka.

Í Palestínu vann Vittorio göfugt hjálparstarf, var öflugur í friðarbaráttu, í átakinu um að koma hjálpargögnum og nauðþurftum til Gaza og í baráttunni fyrir því að herkvínni á Gaza verði aflétt.

Vittorio bjó meðal fólksins á Gaza, hafði palestínskt vegabréf og fólkið á Gaza áleit hann einn þeirra, sem sést vel á viðbrögðunum við morði hans. Hann hafði sterka réttlætiskennd, fylgdist náið með og flutti fréttir af ástandinu á Gaza í blaðinu Il Manifesto og á bloggi sínu, Guerilla Radio. Hann kom fram í heimildamyndinni To Shoot an Elephant, sem sýnd var hér á landi á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF árið 2010 og fjallar um ástandið á Gaza á meðan árásum Ísraela á svæðið stóð í desember 2008 og janúar 2009. Um ástandið ritaði hann bókina Gaza: Stay Human sem vert er að benda sérstaklega á.

Leikarinn, leikstjórinn og friðaraktívístinn Juliano Mer-Khamis var einnig maður með sterka réttlætiskennd. Hann var gyðingur að móðerni og Palestínumaður að faðerni og lýsti sjálfum sér sem 100% araba og 100% gyðingi. Móðir hans, Arna Mer-Khamis helgaði líf sitt baráttu í þágu palestínskra barna. Árið 1987 stofnaði hún samtökin Umhyggja og nám (Care and Learning) til verndar börnum undir hernámi og til að hjálpa þeim við heimanám. Samtökin útbjuggu námsefni fyrir börnin og hjálpuðu foreldrum við að skipuleggja heimanámið. Komið var á fót barnaheimilum í Jenín sem voru í senn miðstöðvar lista og menntunar. Þar á meðal stofnaði Arna leikhóp fyrir börnin.

Arna kom til Íslands árið 1991 í boði Kennarasambands Íslands, Fósturfélags Íslands og samtakanna Barnaheilla. Félagið Ísland-Palestína átti fund með henni þá og ákvað á aðalfundi sama ár að standa fyrir söfnun til stuðnings hjálparstarfinu sem hún fór fyrir. Árið 1992 heimsótti þá nýlega kjörinn formaður F.Í.P., Sveinn Rúnar Hauksson, Örnu og barnaheimilin í Jenín. Hann og aðrir sem hittu Örnu á Íslandi minnast hugrakkrar og dugmikillar konu með sterka réttlætiskennd. Hafði Juliano því ekki langt að sækja þessa sömu eiginleika.

Í anda móður sinnar stofnsetti Juliano ásamt þremur öðrum Frelsisleikhúsið í Jenín árið 2006, en því var ætlað að efla hæfileika, sjálfsvitund og sjálfsöryggi og að nýta sköpunarferlið til félagslegra umbóta. Ísraelsher sprengdi húsnæðið þremur árum síðar. Juliano var myrtur við rústir þess.

Félagið Ísland-Palestína vill heiðra minningu og starf þessa fólks. Stefnt er að sýningu myndarinnar Arna’s Children á nýju ári, 2012, nánari dagsetning verður auglýst síðar.

Arna’s Children segir frá áðurnefndum leikhóp sem Arna stofnaði í flóttamannabúðunum fyrir börnin þar. Ætlunin var að gefa börnum sem lifðu við hernám farveg til að gefa tilfinningum sínum útrás. Juliano var einn leikstjóranna í hópnum og kvikmyndaði börnin á æfingum á tímabilinu 1989 til 1996. Árið 2002 sneri Juliano aftur til Jenín til að kynna sér afdrif barnanna. Lífið fólksins er fast í sömu viðjum og hefur síst breyst til batnaðar. Hernámið er þrúgandi. Yussef framdi sjálfsmorðsárás í Hadera sama ár, Ashraf var drepin í árás Ísraela á Jenín og Ala fer fyrir andspyrnuhreyfingu. Juliano horfir til baka og veltir fyrir sér hvað varð til þess að börnin sem hann unni og starfaði með héldu á þessar brautir.

Þessi áhrifaríka mynd sýnir okkur börn, með sjarma sinn, húmor og drauma kljást við þann hráslagalega veruleika sem felst í því að lifa við hernám og hversu erfitt verður að halda í bernskuna, vonir og mannúð við slíkar aðstæður.

Stöndum vörð um draumana og mannúðina. Styðjum friðarbaráttu, baráttuna fyrir grundvallarréttindum og hjálparstarf. Niður með herkvína. Niður með hernámið. Lifi frjáls Palestína.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Scroll to Top