Ekki hægt að standa til hliðar og þegja

Viðtal við Mazen Maarouf


Nýlega hlaut rithöfundurinn Mazen Maarouf tveggja ára pólitískt hæli á Íslandi. Hann kom hingað á vegum samtakanna ICORN (International Cities of Refugee Network) en Reykjavík varð nýlega ein af um fimmtíu borgum sem veita landflótta rithöfundum tímabundið skjól. Mazen er fyrsti rithöfundurinn sem fær slíkt skjól hér á landi. Hann fæddist í Líbanon en foreldrar hans flúðu þangað frá Palestínu árið 1948.

Mazen Maarouf, rithöfundur. Með tveggja ára pólitískt hæli í Reykjavík á vegum ICORN og Reykjavíkurborgar.

Hópminning sem gengur í erfðir og tilvera sem minnir sífellt á að maður er Palestínumaður.

Mazen segir að sögur afkomenda þeirra Palestínumanna sem flúðu til Líbanon 1948 séu líkar að mörgu leyti. Það sé ekki oft að þess konar hópminning skapist en þannig sé það með flóttafólk. Það sé ekki málstaðurinn heldur minningin sem fólkið eigi sameiginlegt og minningin gangi í erfðir. Sjálfur tilheyrir hann annari kynslóð útlaga.

Fjölskylda Mazens er frá Galíleu í Norður Palestínu. Í þorpinu bjuggu bæði kristnir og múslimar, en fjölskylda Mazens er kristin. Eftir flóttann til Líbanon dvaldi hún í flóttamannabúðum í austurhluta landsins. 1975 fluttist fjölskyldan í Tel al­Zaatar flóttamannabúðirnar en þær voru jafnaðar við jörðu við upphaf borgarstyrjaldarinnar í Líbanon. Þarna hófust fyrstu stórfelldu fjöldamorðin á Palestínumönnum í Líbanon. Á áttunda áratugnum gekk Jórdanía einnig hart fram gegn Palestínumönnum.

Fjölskyldan bjó svo í Beirút í 4 ár og um tíma í Sabra­flóttamannabúðunum en fluttist þaðan um ári fyrir fjöldamorðin þar árið 1982. Mazen fæddist 1978 og ólst upp skammt fyrir utan búðirnar.

Mazen segir að á áttunda og níunda áratugnum hafi hins vegar ekki skipt öllu hvar maður bjó í landinu, maður hafi alltaf haft stimpilinn „Palestínumaður“. Það hafi skapað hættu og maður verið blóraböggull fyrir hefndarþorsta á stríðstímum. Hann segir ekki hægt að standa til hliðar svo hann hafi snemma látið sig málstað Palestínumanna varða.

Hernaðar- og stjórnmála átök Líbanon.

Mazen er þrjátíu og þriggja ára og hefur orðið vitni að átökum og stríði frá unga aldri. Hann segir að á árunum 1978-1996 hafi stjórnarflokkar í Líbanon strítt sín á milli og afskipti Sýrlands af innanríkismálum í Líbanon hafi vegið þungt. Sýrland hafi einnig gengið hart fram gegn frelsissamtökum Palestínu, PLO. Þessir tveir aðilar hafi verið eins og sér ríki inni í Líbanon. Sýrlendingar hafi viljað brjóta PLO á bak aftur og hindr a samstöðu í líbönskum stjórmálum. Mazen minnist á fjöldamorðin í Sabra og Shatila 1982, þegar Ísraelsher gaf herflokkum falangista lausan tauminn til að ráðast inn í flóttamannabúðirnar og stóð vaktina, þar sem falangistarnir slátruðu konum, börnum og öldruðum á 36 tímum, en vopnfærir Palestínumenn höfðu verið reknir burt áður. Vonarstjarna falangista, forsætisráðherrann Bashir Gemayel, hafði verið myrtur skömmu áður og falangistar létu hefnd sína bitna á Palestínumönnum, þó þeir hefðu ekkert haft með morðið að gera.

1986 voru hins vegar fjöldamorð framin sem Sýrlendingar efndu til og nánast aldrei er talað um, það er tabú. Mazen segir að þó gagnrýni á Ísrael sé góðra gjalda verð, sé tilhneiging að kenna Ísrael um allt sem aflaga fer og þegja yfir voðaverkum sem arabar fremja gagnvart aröbum en fjöldamorðin sem hófust 1986 stóðu yfir í 3 ár. Það ár fór Sýrlandsstjórn þess á leit við einn stjórnmálaflokkana í Líbanon að liðsmenn hans umkringdu búðirnar og hæfu skothríð á fólkið þar. Mazen segir þetta verið skilaboð til Arafats og fólkið í búðunum hafi verið beitt hóprefsingu en Palestínumenn séu beittir hóprefsingum enn í dag á margan hátt.

Stríðið, sem stundum er kallað „stríð flóttamannabúðanna“, stóð yfir í 3 ár með blessun stórvelda. Mazen segir stjórn völd í Ísrael og Sýrlandi hafa verið mjög sátt við þetta. Í framhaldinu hafi geisað geisaði mikil hungursneyð og fólk lagt sér nánast allt til munns. Það hafi verið skelfilegt að upplifa þetta sem barn. Alþjóðlegur þrýstingur á Sýrland varð loks til þess að stríðinu lauk. Enn má ekki opna skýrslur um þetta í Líbanon. Mazen bendir á að til að mynda fari yfirmaður herliðsins núna fyrir þinginu í Líbanon. Þannig sé jafnvel mikilvægara rétti flóttamanna til að snúa til baka að létt verði af þessari þöggun og óréttlætið verði viðurkennt. Enn hafi gerendur enga iðrun sýnt.

Mazen segir að frá sumu sé erfitt að segja sem hann upplifði sjálfur. 1989 minnist hann þess að það voru átök milli líbanskra herflokka og Sýrlandshers. Þá hafi loftskeyti lent nálægt glugganum á húsinu þeirra og hálf íbúðin þeirra hafi brunnið. Níu börn vina þeirra dóu og systir Mazens særðist. 1982 lifði fjölskyldan við ótta og var á flótta því Ísraelar leituðu að Palestínumönnum, Mazen var fjögurra ára þegar þetta var.

Hann segir að þannig sé staða Palestínumanna afar ólík stöðu Líbana. Sumir í Líbanon hafi vissulega tekið þeim vel, en almennt séð hafi þeir aldrei þótt velkomnir og komið hafi verið fram við þá sem aðskotadýr. Hann lýsir sífelldum þrýstingi á Palestínumenn gegnum árin og enn í dag sé öll pappírsvinna Palestínumönnum afar andsnúin, t.a.m. hvað varðar vegabréf og ferðaleyfi og kröfur um borgaraleg réttindi séu bældar niður. Palestínumenn séu jafnframt ítrekað gerðir að blórabögglum, miklir fordómar í þeirra garð, sér í lagi á stríðstímum. En ekki sé hægt að kenna Palestínumönnum t.d. um borgarastríð á 6. áratugnum, þegar þeir hírðust innilokaðir í flóttamannabúðum.

Palestínumaður og Líbani.

Mazen er fæddur og uppalinn í Líbanon, þar hlaut hann menntun sína og þar á hann vini. Hann hefur hins vegar aldrei fengið leyfi frá yfirvöldum í Ísrael til að koma til Palestínu. Á sama tíma segist hann alltaf tengdur þeirri staðreynd að hann er í útlegð. Hann hugsi um hvers vegna hann sé ekki í landinu sínu. Þar spili margir þættir inn í. Palestínumenn á Vesturbakkanum, Gaza og í Ísrael upplifi hernámið á hverjum degi. Flóttamenn í Líbanon upplifi hins vegar kerfið þar í landi, sömuleiðis sterk ítök Sýrlands í landinu og víðar. Hann segist líta á sig fyrst sem Líbana og svo sem Palestínumann en þessu sé samt erfitt að svara. Kringumstæður hans séu aftur á móti líbanskar. Hann segir Palestínumenn í Palestínu þjást meira en flóttamennina, þeir séu bæði undirokaðir af öfgahópum samlanda sinna og af hálfu Ísraels. Hann segist jafnframt skynja vissa gjá: Palestínumenn í Palestínu viti t.a.m. ekki mikið um hann sem rithöfund og það sé gagnkvæmt. Hann segist ekki vita hvort það sé landið, uppruninn, vegabréfið eða eitthvað annað sem ákvarði þjóðerni.

Menntun og ljóðagerð.

Mazen lærði efnafræði í háskóla. Hann segir að sé maður Palestínumaður í atvinnuleit í Líbanon sé hins vegar ekki tekið tillit til þeirrar menntunar sem maður hefur. Aftur á móti hafi eðlisfræðin mótað hugsun sína. Hann hafi fengið áhuga á skrifum í grunnskóla og einhvern veginn lent á raungreinadeild. Hann hafi lengi skrifað og lesið og þegar nær dró útskrift hafi hann gefið út fyrstu ljóðabókina sína. Efnafræði hjálpi honum að skilgreina og að sjá hvernig hlutir vinni saman í lífinu og það hafi nýst honum við skriftir.

Eftir níu ár í efnafræði segist hann hafa ákveðið að snúa sér að skrifum alfarið.

Hann segist reyna að forðast beina pólitík þegar hann skrifar bók menntatexta. Bókmenntir lúti sínum eigin lögmálum. Hann vilji ekki bara skrifa eitthvað sem allt eins mætti gúgla, heldur að það hafi eitthvað listrænt gildi umfram það.

DNA

Það er ein leið til að öskra
Mundu það, þú ert Palestínumaður.
Ein leið til að grandskoða andlitið þitt í rútuglugga á meðan döðlutré
og burðarmenn þjóta fram hjá
og brjóta upp spegilmyndina þína.
Ein leið
til að svífa að Ósonlaginu
léttilega, eins og helíumblaðra
eða gráta því að þú ert bastarður.
Ein leið
til að leggja hendurnar á brjóst þeirrar sem þú elskar
Og dreyma
um fjarlægja hluti:
Litla íbúð í úthverfi Parísar, Louvre
Fullt, fullt
af einmanaleik og bókum.
Ein leið til að deyja
egna leyniskytturnar
í dagrenningu
Með því að kalla stúlkuna þína sem heldur framhjá þér
hóru.
Að reykja gras í lyftu,
einn klukkan ellefu um nóttina;
Að semja eymdarlegt ljóð á baðherberginu.
Ein leið til að öskra í ræsinu
þar sem andlitið þitt birtist aftur
í eiturefnapolli og þú manst, á þeirri stundu,
að þú ert áreiðanlega ekkert
nema
Palestínumaður.

Þýðing: Einar Steinn Valgarðsson

Listasenan í arabalöndunum.

Mazen segir Beirút bera þar hæst, hún sé leiðandi í listsköpun, hafi löngum hýst fjölbreytta flóru listamanna og sé afar opin fyrir nýjungum. Um miðja 20. öld hafi bókmenntir og ljóðlist borið hæst en í seinni tíð hafi sjónrænar listir orðið meira ríkjandi.

Í Damaskus hafi leiklist staðið í miklum blóma fyrir byltingu, en stjórnvöld hafi þó sett henni skorður. Við Persaflóann sé miklum fjármunum varið í listir. Í Abu Dabi, Quatar og víðar sé unnið hörðum höndum að því að sýna öðrum að þar sé öflugt listalíf og hann vísar t.d. til alþjóðlegra kvikmyndahátíða.

Áhrifavaldar og innblástur.

Hvað bókmenntaskrif varðar segist Mazen hafa sótt áhrif úr ýmsum áttum, Hann hafi í fyrstu aðallega verið undir áhrifum frá arab ískum ljóðskáldum, en reyni almennt að viða að sér sem fjölbreyttustu lesefni. Í sjö ár eftir fyrstu ljóðabókina vann hann og gaf ekkert ljóð út. Hann segist hafa þurft að finna betur sína eigin rödd og það hafi tekið tíma. Hann var aftur á móti kominn með gott safn þegar að næstu útgáfu kom og þriðja ljóðabókin hans er nýkomin út í Beirút. Hann segir eflaust gæti einhverra áhrifa frá öðrum ómeðvitað, hann reyni engu að síður að halda sinni eigin rödd.

Mazen segir að í ljóðum sínum reyni hann að forðast klisjur, sem séu því miður allt of áberandi í arabískum ljóðum, t.d. í myndmáli og segist vona að honum takist það. Það megi sjá hliðstæðu milli þess að vera fastur í þess konar klisjum og að vera heftur af stjórnmálaástandi og átökum. Hann segist ekki kafa inn á við í neinni andlegri íhugun eftir innblæstri, hvaða sjónræna smáatriði sem er geti orðið uppspretta ljóðs, það sé fremur hvernig hann bregðist við umhverfinu og tjái það í kjölfarið. Hann reyni að kafa í minni og reynslu og endurskapa um hverfið.

Hótanir.

Mazen byrjaði að skrifa um stjórnmál í háskólanum. Hann þótti skrifa öðruvísi en aðrir og hann nefnir helst áhrif efnafræðinnar, hún hafi hjálpað honum við að greina viðfangsefni sitt. Mazen var í palestínskum menningarklúbb sem var í og með hugsaður sem andóf gegn þeirri klisju að Palestínumenn væru vandræðagemsar og meðlimir vildu sýna siðmennt Palestínumanna og að þeir gætu barist friðsamlega fyrir réttindum sínum. Þetta féll ekki í góðan jarðveg hjá öllum og hann og félagar hans sættu hótunum.

Hann segir að þó að maður hætti að tjá sig um stjórnmál, þýði það ekki að stjórnmálin hætti að skipta sér að manni. Ýmsir hópar hafi líka viljað eigna sér málstað Palestínumanna í eigin hagsmunaskyni, og þannig sé það enn. Palestínumenn sjálfir eigi helst ekki að tjá sig. Þetta hafi hann ekki getað sætt sig við, né þöggunina gagnvart því þegar Arabar hafa komið illa fram við Palestínumenn, eins og í tilviki Sýrlands. 2003 til 2008 sætti hann alvarlegum hótunum vegna skoðanna sinna, og það upp í opið geðið á sér. Hann fann til ótta en engu að síður tjáði hann áfram skoðanir sínar og skrifaði t.a.m. greinar í kjölfar uppreisnarinnar í Sýrlandi og tók viðtöl við fólk sem var andsnúið stjórninni þar. Hann segir að stjórnin þar hafi verið við lýði í fjóra áratugi og fólkið biðji bara um grundvallarréttindi.

Skemmtileg sjálfsmynd Mazens, þar sem arabíska letrið mótar myndefnið.

Koman til Íslands.

Mazen lætur vel af móttökum sínum. Borgin hafi ljáð honum góðan stað að búa á og fólk sé hlýlegt og vinalegt. Hann segist nú þegar hafa eignast vini hér, sé byrjaður að semja, enda hjálpi þeir hlýju straumar sem hann skynji frá fólki honum við skrifi. Hann sé einnig að vinna að fyrstu skáldsögunni sinni. Hann hafi hann sérlega hri og hversu gott aðgengið sé að bókum og nefnir í því sambandi góða þjónustu

á bókasöfnum. Hann segist því vera ánægður hér en vissulega sakni hann vina sinna og fjölskyldu. Hann er enn að koma sér fyrir í Reykjavík en hefur áhuga á að ferðast víðar um landið. Eins hefur hann áhuga á að þýða íslenskar bókmenntir yfir á arabísku.

Friðsöm andspyrna.

Mazen segir Ísrael beita ofbeldi og herstyrk sínum gegn Palestínumönnum en þeir nýti sér ekki síður áróður á alþjóðavettvangi. Sharon hafi t.d. nýtt sér árásirnar 11. september, sem allir geti tekið undir að voru hryðjuverk, til að réttlæta undirokun á Palestínumönnum í nafni hins svokallaða stríðs gegn hryðjuverkum.

Hann segist skilja að undirokað og kúgað fólk grípi til ofbeldis til að vekja athygli á málstað sínum þegar það er hundsað og enginn kemur því til hjálpar. Þannig hafi Palestínumenn lengi beitt beinum aðgerðum en hafi ekki hugað að öðrum leiðum. Kannski hefði hann jafnvel brugðist eins við ef hann hann hefði búið við sömu aðstæður.

Sem skáld geti hann þó ekki trúað á ofbeldi eða hvatt til þess. Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að sannfæra umheiminn um réttmæti málstaðar Palestínumanna. Ísrael hafi hins vegar verið meðvitaðri um þessa leið og vægi hennar og hafi ekki vílað fyrir sér að drepa rithöfunda, t.d. Ghassan Kanafani. Innbyrðis erjur milli Palestínumanna og ýmis mistök af þeirra hálfu hafi svo gert illt verra. Mazen leggur áherslu á möguleika netmiðla til að varpa upp skýrari mynd af ástandinu, mikilvægi þess að byggja upp samfélagið og sýna Palestínumenn sem siðmenntað fólk með sína sögu og menningu. Hann styður friðsama andspyrnu og borgaralega óhlýðni. Það sé and svar og andstæða við hernaðarmaskínu Ísraels og sú saga sé ekki síður blóðug og þar hafi hryðjum sannarlega verið beitt. Mazen segir skýrasta vandamál Palestínumanna vera hernám Ísraels gagnvart Palestínumönnum. Andófið beinist þó ekki aðeins gegn Ísrael heldur ekki síður að arabaríkjum sem vilja undiroka Palestínumenn og ráðskast með þá.

Arabíska vorið.

Mazen segir arabíska vorið einnig vera blóðugt vor en þegar þjóð séu undir einræði í áratugi sé varla við að búast að samfélagið verði siðmenntað eða lýðræði ríki í kjöfar byltingar, því ofbeldi sé orðið rótgróið. Hann telur að ef arabíska vorið áorki einhverju verði það fremur til lengri tíma litið, nú sé millistig þar sem ofbeldi geisar. Fólk sé þreytt á stjórnvöldunum og að þau hafi ekki gert neitt fyrir Palestínumenn, þau hafi talað í nafni Palestínu en viljað brjóta PLO á bak aftur, eins og fyrr er getið. Hann segist sjálfur ekki PLO­sinni og hafi alltaf staðið utan allra flokka en þau hafi þó staðið fyrir málstað Palestínumanna og fengið arabaríki á móti sér fyrir vikið. Til lengri tíma litið hljóti að teljast jákvætt fyrir Palestínumenn að slíkar stjórnir fari.

Sjálfstæðisyfirlýsing Palestínu og viðurkenning umheimsins.

Mazen segir sjálfstæðisyfirlýsinguna afar mikilvæga og að þetta séu kaflaskil í sögu Palestínu. Hann styðji ekki allar ákvarðanir heimastjórnarinnar en þetta sé afar jákvætt. Ísraelsk stjórnvöld hafi sannað að þau vilji ekki Palestínuríki í nokkurri mynd. Við Oslóarsamkomulagið hafi margir endar verið opnir eða geymdir til seinni tíma viðræðna og það hafi í raun gert Ísrael kleyft að athafast eins og því sýndist. Allar samningaviðræður hafi mistekist því Ísrael hafi ekki viljað veita Palestínumönnum neitt haldbært. Hroki Ísraels sé þó farinn að fara í taugarnar á mörgum stjórnmálaleiðtogum, Bill Clinton hafi t.d. lýst þreytu sinni og um daginn hafi Frakklandsforseti sagt við Obama Bandaríkjaforseta að Netanyahu væri lygari. Obama hafi sagst ekkert geta gert í því. Þetta þýði að leiðtogar þessara stórvelda séu undir þrýstingi, þeir geti sagt þetta en geti ekkert aðhafst. Það sé því vonandi að arabíska vorið muni til lengri tíma leiða til betri tíðar.

Óljós framtíð.

Mazen segist ekki vita hvað taki við, því nú geti hann ekki snúið aftur, öryggissins vegna. Hann er í sambandi við fjölskyldu sína í gegn um síma og internet. Hann veit ekki hvort hann byrji nýtt líf hér en langar að þýða, eiga samstarf t.d. við Norræna húsið og kynna araba fyrir íslenskum bókmenntum.

Hann langar að bindast landinu og gefa af sér til baka til borgarinnar og landsins.

Hann segist verða að sjá hvað setur með framhaldið og spurningin leiti vissulega á hann.

Viðtal: Einar Steinn Valgarðsson

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundar

Þjóð gegn þjóðarmorði - Reykjavík - Austurvöllur.
Fjöldafundur laugardaginn 6. september 2025 á Austurvelli, nánar.

Scroll to Top