Taha Muhammad Ali látinn
Í ár lést eitt fremsta ljóðskáld Palestínumanna, Taha Muhammad Ali, áttræður að aldri. Hann fæddist í þorpinu Saffuriyya í Galíleu í Palestínu árið 1931. Í stríðinu 1948, sem Ísraelar kalla „frelsisstríðið“ en Palestínumenn kalla „an- Nakbah“ eða „hörmungarnar“, flúði fjölskylda hans til Líbanon. Ári síðar laumaðist Ali yfir landamærin með fjölskyldu sinni og sneri þar með aftur til landsins sem nú hét Ísrael, settist að í Nasaret og bjó þar til dauðadags. Hann rak um árabil minjagripabúð ásamt því að yrkja og skrifa og grínaðist reyndar með það að hann væri „múslimi sem seldi gyðingum kristilega minjagripi“. Hann var víðlesinn og sjálflærður.
Taha Muhammad Ali skrifaði mikið um æsku sína og það stjórnmálaumrót sem hann upplifði. Það var hins vegar ekki fyrr en 2006 að Vesturlandabúar gátu kynnst ljóðum hans á vestrænu máli, þegar ljóðasafnið So What: New & Selected Poems, 1971–2005 kom út í enskri þýðingu Peters Cole.
Eins og nefnt er í formála Ibis Editions að því ljóðasafni eru ljóð Alis kröftug og skrifuð á beinu, blátt áfram máli en búa jafnframt yfir mikilli dýpt. Línurnar í ljóðunum eru gjarnan stuttar með breytilegri hrynjandi og hann sækir ríkulegt myndmál sitt að miklu leiti í þorpslíf í Palestínu.
John Palattella hjá The Nation lýsir Ali sem heillandi sögumanni, tónn hans sé trúverðugur og skýr án þess að hann dragi úr þeim þáttum sögu sinnar sem sveipaðir eru dulúð eða angri. Palattella segir að með því að forðast hefðbundin viðbrögð við hversdagslegri lífsreynslu hafi Ali ort ljóð sem séu fíngerð, þokkafull og fersk. Við þetta má bæta að Ali bjó einnig yfir góðri kímnigáfu, einlægni og hreinskilni sem skína í gegn í ljóðunum. Margar tilfinningar fléttast saman í ljóðum hans; sársauki, gleði, birturð og von.
Sjálfur kynntist ég ljóðum Alis nokkuð seint en hef heillast af því sem ég hef heyrt og lesið. Ég get mælt heilshugar með áðurnefndu ljóðasafni hans og þá hefur ævisaga hans, My Happiness Bears No Resemblance to Happiness: A Poet’s Life in the Palestinan Century, sem Adina Hoffman skráði, hlotið mikið lof. Þar rekur hún ævi skáldsins og setur í samhengi við samtímamenn hans, sögu Palestínu á 20. öld, stjórnmálahræringar og listalíf. Ljóð Alis má finna á veraldarvefnum, ekki síst mæli ég með ljóðum á borð við Fooling The Killers, Twigs, Revenge og ‘Abd el Hadi Fights a Superpower. Tvö síðastnefndu ljóðin er hægt að horfa á í flutningi skáldsins og fer best á því, þar sem Taha Muhammad Ali var sérlega grípandi og heillandi flytjandi. Hann flytur þar ljóðin á arabísku og þýðandi hans les þau svo á ensku.
Ég læt fylgja þýðingu mína úr ensku á ljóðinu Revenge, til að gefa lesendum einhvern nasaþef af ljóðlist skáldsins. Að öðru leiti kýs ég að enda pistilinn með ljóðlínum sem vísað er í titli og sótt eru í ljóðið Twigs. Ef til vill má líta á þær sem nokkurs konar stefnuyfirlýsingu skáldsins:

Greinar (Twigs)
Og þannig hefur það tekið mig
heil sextíu ár að skilja
það að vatn er vænsti drykk-
urinn og brauð gómsætasti
maturinn og að list er einsk-
is virði ef hún sáir ekki ein-
hverri fegurð í hjörtu fólks.
Hefnd (Revenge)
Stundum vildi ég óska
að ég gæti mætt í einvígi
manninum sem drap föður minn
og jafnaði heimili mitt við jörðu
og rak mig
yfir á landræmu
og ef hann dræpi mig
myndi ég loks hvílast
og væri ég reiðubúinn
myndi ég hefna mín!
En ef í ljós kæmi,
þegar andstæðingur minn birtist
að hann ætti móður
sem biði eftir honum,
eða föður sem legði
hægri hönd sína á
hjartastað
hvenær sem sonur hans væri seinn
jafnvel þó aðeins munaði kortéri
hefðu þeir mælt sér mót –
þá myndi ég ekki drepa hann
jafnvel þótt ég gæti.
Eins…
myndi ég ekki myrða hann
ef kæmi fljótlega í ljós
að hann ætti bræður og systur
sem elskuðu hann og þráðu ævinlega að sjá
hann.
Eða ef hann ætti konu sem heilsaði honum
Og börn sem gætu ekki afborið fjarveru hans
Og gleddust yfir gjöfum hans
Eða ef hann ætti
vini eða félaga
nágranna sem hann þekkti
Eða bandamenn úr fangelsi
eða sjúkrastofu
eða bekkjarfélaga úr skólanum sínum …
sem spyrðu um hann
og sendu honum kveðju
En ef hann reyndist
vera einstæðingur –
slitinn burt eins og trjágrein –
án föður eða móður,
eigandi hvorki bróður né systur
ókvæntur, barnlaus,
og án ættmenna eða nágranna eða vina
starfsbræðra eða félaga,
þá myndi ég ekki bæta nokkru við sársauka
hans
í þeirri einsemd –
né dauðakvölum,
né sorg vegna dauða hans.
Þess í stað léti ég mér nægja
að hunsa hann þegar ég gengi framhjá honum
úti á götu – þar sem ég
sannfærði sjálfan mig
að það að veita honum enga athygli
væri í sjálfu sér eins konar hefnd.