Ályktun Félagsins Ísland-Palestína

Stjórn Félagins Ísland-Palestína samþykkti, þann 19. september 2011, eftirfarandi ályktun umsóknar Palestínu um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum sem sjálfstætt ríki.

„Félagið Ísland-Palestína minnir á samhljóða ályktun Alþingis frá 18. maí 1989 sem meðal annars lagði áherslu á að virða bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna.

Lítill vafi leikur á því að íslenska þjóðin styður þessa stefnu Alþingis og baráttu Palestínumanna gegn hernámi og fyrir sjálfstæði og fullveldi.

Það er eindregin áskorun Félagsins Ísland-Palestína að utanríkisráðherra lýsi þegar í stað yfir viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Engin ástæða er til að bíða eftir fundi í Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með þá yfirlýsingu, enda alls óvíst hvort eða hvernig málið verður flutt þar.

Enn hefur ekkert vestrænt ríki viðurkennt Palestínu, enda þótt mikill meirihluti ríkja heims hafi viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Frumkvæði Íslands í þessu stórmáli væri í samræmi við stefnu Alþingis og vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Íslandi væri sómi að því að verða fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna Palestínu. Sú viðurkenning gæti orðið til þess að fleiri ríki fylgdu á eftir.“

Birtist í Frjáls Palestína.

Höfundur

Þjóð gegn þjóðarmorði - Reykjavík - Austurvöllur.
Fjöldafundur laugardaginn 6. september 2025 á Austurvelli, nánar.

Scroll to Top