
BDS er alþjóðleg hreyfing sem hófst árið 2005 með ákalli palestínsku þjóðarinnar sem skoraði á þjóðir, fyrirtæki og einstaklinga um allan heim að sniðganga Ísrael þar til réttindi Palestínumanna yrðu virt að fullu í samræmi við alþjóðalög. Fyrirmynd ákallsins voru árangursríkar aðgerðir í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. BDS stendur á enskri tungu fyrir boycott, divestment and sanctions en á íslensku er það sniðganga, afturköllun fjárfestinga í Ísrael og efnahagsþvinganir.

Hvatt er til að beita þessum friðsamlegu aðferðum þar til Ísrael verður við kröfum BDS og þ.a.l. palestínsku þjóðarinnar.
Kröfurnar eru þrjár:
- að ísraelsk stjórnvöld bindi endi á hernám á Vesturbakkanum, Gaza og Gólanhæðum sem og að aðskilnaðarmúrinn (sem dæmdur hefur verið ólöglegur af Alþjóðadómstólnum í Haag) verði fjarlægður,
- að grundvallarréttindi palestínskra borgara í Ísrael verði viðurkennd og að þeim séu veitt sömu réttindi og aðrir borgarar njóta,
- að virða, vernda og stuðla að réttindum palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til sinna heimkynna eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna nr. 194 segir til um.

BDS hreyfingin er friðsamleg hreyfing sem leggur ekki til neinar pólitískar lausnir, líkt og eins eða tveggja ríkja lausn, heldur krefst þess einungis að Ísrael virði alþjóðalög. Frá því að hreyfingin hóf göngu sína hefur hún öðlast sterkan meðbyr um allan heim og fer stuðningurinn vaxandi þrátt fyrir aðgerðir ísraelskra stjórnvalda og bandamanna þeirra til að kveða niður hreyfinguna.
Sniðgönguhreyfingin BDS Ísland fór af stað árið 2014 og er enn starfandi. BDS Ísland hefur m.a. tekið þátt í alþjóðlegum herferðum þar sem ákveðin fyrirtæki sem hagnast af hernámi í Palestínu eru beitt pólitískum og efnahagslegum þrýstingi á heimsvísu til að stuðla að sem mestum ávinningi í sniðgöngu og athygli almennings á málefninu.
Dæmi um slíkar herferðir sem eiga sér stað um þessar mundir eru sniðganga á fyrirtækjunum Puma og HP.
Ef þú villt taka þátt í BDS hreyfingunni hvetjum við áhugasama til að senda okkur skilaboð á síðum hreyfingarinnar á Facebook og Instagram (bdsiceland) eða senda okkur tölvupóst á bdsiceland@gmail.com.
Birtist í Frjáls Palestína.