Tveggja ríkja lausnin og Stór Ísrael

Þorgerður Katrín utanríkisráðherra sat nýlega ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sk. tveggja ríkja lausn þar sem fulltrúar ýmissa ríkja ræddu framtíð Palestínu og Ísraels.

Nokkur ríkjanna sem boða þessa lausn viðurkenna ekki annað ríkið sem á að vera hluti af lausninni. Það segir okkur hvert innihald umræðunnar um þessa lausn er; þetta er skálkskjól ríkjanna sem styðja Ísrael. Þessi umræða hefur verið viðhöfð í áratugi og hefur hvorki stuðlað að friði eða þokað málum áleiðis til betri vegar.

Meginorsökin er afstaða stjórnvalda í Ísrael. Þarlendir ráðamenn hafa í ræðu og riti sagt að slík niðurstaða sé þeim ekki þóknanleg. Landið er þeirra „from the river to the sea“, gjöf frá guði. Þessi afstaða er ekki bara sjónarmið flokks Netanyahus og öfgaflokkanna sem skipa ríkisstjórn hans. Forystumenn annarra síoniskra flokka á Knesset, þingi Ísraels, deila þessari afstöðu.

Það er ekkert sterkt stjórnmálaafl í Ísrael tilbúið til að viðurkenna ríki Palestínu á Vesturbakkanum og Gaza eða önnur mannréttindi fyrir Palestínumenn.

Enda er unnið að því festa yfirráð Ísraels yfir öllu svæðinu í sessi með hernámi, sístækkandi landránsbyggðum og þjóðarmorði.

Eftir að Ísraelsher gerði árás á Gaza 2023 og jók ofbeldi gegn íbúum Vesturbakkans kom æ betur í ljós að það var engin möguleg tveggja ríkja lausn sem vakti fyrir stjórn Netanyahus.

Hann mætti í viðtal á ísraelsku sjónvarpsstöðinni i24NEWS og uppljóstraði að hann aðhyllist framtíðasýn sem hann nefnir Stór Ísrael.

Hugmyndin um Stór-Ísrael hefur verið á kreiki áratugum saman á öfgahægri væng í stjórnmálum Ísraels. Ímynduð landamæri Stór Ísraels eru umdeild meðal þessara hópa, en allar útgáfur fela í sér innlimun allra palestínskra svæða og landráni sem beinist að nágrannaríkjunum: Egyptalandi, Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi. Öfgafyllri túlkanir ganga enn lengra og ná yfir hluta af Írak, Kúveit, Sádi-Arabíu og Tyrklandi.

Og nú hefur Netanyahu lýst þessar hugmyndir vera sína framtíðarsýn.

Hugmyndir Netanyahu og megin þorra ísraelskra stjórnmálamanna um Stór Ísrael virðast ekki trufla stjórnmálaforkólfa Evrópu og Bandaríkjanna, þeir eru uppteknir við að ræða tveggja ríkja lausnina í yfirstandandi þjóðarmorði.

En Stór Ísrael er á dagskrá hjá síonistunum. Knesset samþykkti nýlega með 71 atkvæði gegn 13, óbindandi tillögu um að Vesturbakkinn er „óaðskiljanlegur hluti af Ísraelslandi, sögulegu, menningarlegu og andlegu heimalandi Gyðinga“ og að „Ísrael hefði náttúrulegan, sögulegan og lagalegan rétt til allra landsvæðis Ísraelslands.“ – sem er annað orð yfir Stór Ísrael. Ísrael er búið að innlima Gólanhæðirnar sem eru hluti Sýrlands og herinn sækir æ lengra inn í Sýrland. Hermenn sem ráðast gegn Gaza og Sýrlandi bera axlamerki sem sýna að þeir aðhyllast stefnuna um Stór Ísrael. Og Gaza verður ekki sleppt úr hendi fái Netanyahu að njóta friðhelgi við þjóðarmorðið eins og verið hefur.

Myndatexti: Kortið sýnir hugmyndir síonista um Stór Ísrael. Ísraelskir hermenn á Gaza bera nú merki sem sýnir sama landssvæði. Áletrunin á Hebresku: Landið sem Ísrael var lofað.

Birtist fyrst á Facebook.

Höfundur

Þjóð gegn þjóðarmorði - Reykjavík - Austurvöllur.
Fjöldafundur laugardaginn 6. september 2025 á Austurvelli, nánar.

Scroll to Top