Ofurvald og áhrif Bandaríkjanna

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 24. febrúar síðastliðinn er umfjöllun um yfirburði Bandaríkjanna sem byggð er á grein sagnfræðingsins Paul Kennedy í Financial Times. Þar kemur fram að þau verja meira til hermála samanlagt á ári hverju en nemur fjárlögum þeirra 9 ríkja sem næst koma á eftir. Kennedy telur líklegt að framlag Bandaríkjanna einna séu nú 40% af öllum hernaðarútgjöldum í heiminum eftir síðustu hækkanir Bush-stjórnarinnar. Hann fullyrðir að svo ójöfn valdastaða hafi aldrei áður komið upp í sögunni! Samt telur hann þessi útgjöld aðeins vera rúm 3% af þjóðarframleiðslu þeirra. Yfirburðirnir eru sem sagt ekki bara á sviði hernaðar, heldur ekki síður efnahagslegir, enda hlutur þeirra í heimsframleiðslunni ein 30%. Og við getum haldið áfram: 45% af allri umferð á netinu er í Bandaríkjunum, þrír af hverjum fjórum nóbelsverðlaunahöfum í vísindum, hagfræði og læknisfræði stunda rannsóknir sínar þar, enda 12–15 öflugustu háskólar í heimi þar. Veldi bandarískrar menningar sést í útbreiðslu tungunnar, sjónvarpsþátta, kvikmynda og unglingamenningar.

Það er vandfarið með þau völd sem þvílíkum yfirburðum fylgja. Mér virðist þröngsýni og eiginhagsmunahyggja byrgja valdhöfum sýn meira en oft áður, svo líkist meir duttlungum en athöfnum viti borinna manna. Bush situr á löngum viðtölum við Sharon en harðneitar að ræða við Arafat. Hann belgir sig út með fagurgala um baráttu gegn hryðjuverkum en styður hryðjuverk Ísraelshers gegn óbreyttum borgurum.

Mér hefur lengi fundist utanríkisstefna Bandaríkjanna vera aðalvandamálið í Mið-Austurlöndum. Þar leika þeir tvö ósamræmanleg hlutverk: hlutverk sáttasemjarans og hlutverk óbilandi stuðningsmanns sterkari deiluaðilans. Ísraelar fá gríðarlegan stuðning frá Bandaríkjunum, bæði pólitískan og efnahagslegan. Mér finnst óhugnanlegt að sjá þetta risa-risaveldi valta yfir samþykktir Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og beita neitunarvaldi gegn öllum hinum „stórveldunum“.

Ísraelar virðast vera áskrifendur að gífurlegum fjárstyrk frá Bandaríkjunum sama á hverju gengur. Þeir munu hafa fengið 3 milljarða bandaríkjadala á ári síðan upp úr 1970. Það er erfitt að skynja slíka upphæð. Segir rúmlega ein Vestfjarðagöng á dag eitthvað? Eða ein Smáralind? Þetta er víst bara opinberi hlutinn. Til viðbótar koma vopn og stuðningur einkaaðila.

Ef Bandaríkin vildu stöðva yfirgang Ísraelsríkis gætu þeir það á nokkrum mánuðum með því að skrúfa fyrir kranann. Allt tal um að setja þeim stólinn fyrir dyrnar er marklaust meðan straumur bandarískra peninga og vopna heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top