Þegar ég vaknaði í morgun voru hermenn alls staðar, og ekki okkar hermenn, heldur Ísraelsmenn. Sameinuðu þjóðirnar hafa víst ákveðið að við megum ekki eiga heima hér lengur, Ísraelar bjuggu víst hér fyrir 3000 árum. Mér væri svo sem sama, við fáum jú að búa vestur á fjörðum, það er ekki svo slæmt, bara ef við hefðum ekki þurft að flýta okkur svona mikið í burtu.

Þegar ég vaknaði í morgun voru allir á nálum, stóri bróðir var farinn í herinn og Egyptar og fleiri vinir okkar ætluðu að hjálpa okkur að komast heim aftur. Ég vildi komast aftur heim, þó ekki væri nema bara til að ná í bangsann og vasadiskóið.
Þegar ég vaknaði í morgun var búið að ákveða að nú fengjum við ekki að ráða okkur sjálf lengur, það hlýtur að vera sanngjarnt, við réðumst jú á þá. Mér væri svo sem sama, bara ef ég gæti fengið að fara einu sinni í heimsókn til ömmu minnar í næsta þorpi áður en hún deyr.
Þegar ég vaknaði í morgun voru allir glaðir. Mamma hafði þurft að fara út í morgun, á markaðinn, hún flýtti sér eins og hún gat en hafði rekist á sjónvarp á leiðinni þar sem Arafat sagði að nú væri að birta til, atvinnuleysi komið niður fyrir 60% og hann hefði náð nýju samkomulagi við Ísraelsmenn. Pabbi ákvað að fara strax að sækja um vinnu í fyrramálið og ég fékk að fara í skólann!
Þegar ég vaknaði í morgun fór ég í skólann í fyrsta skipti í þessum mánuði og pabbi fór að sækja um vinnu. En þegar ég kom heim úr skólanum var allt breytt. Nokkrir hermenn höfðu komið inn í húsið okkar í morgun og snúið öllu á hvolf, virtust vera að leita að einhverju. Þegar mamma reyndi að banna þeim að taka kóraninn okkar, slógu þeir hana þar til hún missti meðvitund. Litli bróðir minn hljóp fram með leikfangabyssuna sína og reyndi að skjóta þá en þeir urðu fyrri til. Ég labbaði fram í stofu til pabba, en hann sat bara og starði út um gluggann, ég spurði hann hvar mamma væri en hann leit bara á mig, eins og hann horfði í gegnum mig. Ég grét mig í svefn.

Þegar ég vaknaði í morgun var pabbi horfinn, ég fór niður á sjúkrahús til að hitta mömmu en hún sagði ekki neitt, læknarnir sögðu að hún væri ennþá sofandi. Á biðstofunni var maður með lítið svarthvítt sjónvarp. Hann leyfði mér að horfa á fréttirnar. Þar kom mynd af pabba mínum og fullt af fólki skælandi. Pabbi var samt ekki skælandi á myndinni. Ég spurði manninn hvar pabbi væri, og hann útskýrði fyrir mér að pabbi hefði farið og meitt mennina sem tóku húsið okkar, lömdu mömmu mína og drápu litla bróðir minn. Pabbi kæmi samt ekki aftur. Mikið vildi ég óska þess að ég væri jafn hugrakkur og pabbi minn. Mikið er ég stoltur af pabba.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.