Ég hef staðið mig að því undanfarið ár að fylgjast á hverjum degi með tölunum yfir sýkta og dána af völdum Covid-19. Undanfarna viku hef ég hins vegar verið að fylgjast með mannfalli í útrýmingarherferð Ísraelsstjórnar gegn Palestínu og sérstaklega innilokuðum íbúum á Gaza-strönd.
Hryllingurinn frá sumrinu 2014 rifjast upp, en þá stóðu loftárásir Ísraelshers yfir í fimmtíu daga áður en um vopnahlé var samið. Þegar upp var staðið hafði um 2.300 palestínskum mannslífum verið fórnað og þar af voru 551 barn.
Þegar þetta er ritað, á sjöunda degi herferðarinnar, eru stríðsherrarnir í Ísrael ekki að unna sér hvíldar. Síðustu nótt voru árásirnar þær hörðustu sem verið hafa. Netanyahu hreykir sér og segir árásirnar munu halda áfram af fullum krafti og þær muni taka tíma.
Börnum ekki hlíft
Í morgunsárið komu björgunarmenn víða að og drógu lík úr rústum, einstaka voru lifandi, margir stórslasaðir og enn heyrast neyðaróp í rústunum. Tveir sluppu lifandi úr 14 manna fjölskyldu, heimilisfaðir og einn sonur, en móðirin var dáin með fjögur börn hjá sér og hélt utan um þau, öll dáin.
Í fyrrinótt var talan yfir fallna 10 manns, átta börn og tvær mæður.
Skotmörk að mestu leyti óbreyttir borgarar
Sourani, forstöðumaður Mannréttindastofnunar á Gaza sem hlotið hefur hlotið hefur alþjóðleg friðar- og mannréttindaverðlaun, greindi frá því að í þessum markvissu og oftast nákvæmu árásum Ísraelshers væru skotmörkin að langmestu leyti óbreyttir borgarar eða um 80%.
Meðan þetta er ritað hafa tölur hækkað, 230 palestínskir íbúar Gaza hafa fallið fyrir hendi Ísraelshers, þar af 65 börn. Ísraelsmegin liggja 12 manns í valnum, þar af þrír erlendir ríkisborgarar og eitt barn sem dáið hafa af völdum eldflauga sem andspyrnuhópar á Gaza skjóta á Ísrael.
Netanyahu ber ábyrgðina
Ábyrgð á þessum hryðjuverkum er alfarið á hendi eins manns sem enn hangir í embætti forsætisráðherra Ísraels. Palestínumenn eru alltaf reiðubúnir til vopnahlés, enda leikurinn ójafn. Þetta er ekkert venjulegt stríð tveggja ríkja eða tveggja herja. Það er aðeins einn her sem um er að ræða, langöflugasti og fullkomnasti her á svæðinu, búinn kjarnorkuvopnum ef því er að skipta. En einnig fullkomnasta eftirlits- og njósnabúnaði sem til er og er hann óspart nýttur til að velja skotmörk af nákvæmni.
Stöðvið stríðsglæpina
En þrátt fyrir þennan liðsmun mun Ísrael bíða ósigur, siðferðilega og stjórnmálalega. Heimurinn getur ekki horft upp á barnamorð í stórum stíl og látið sem ekkert sé. Einhver breyting á sér stað hjá Bandaríkjastjórn, hún hefur að minnsta kosti leyft að málin séu rædd í Öryggisráði Sameinu þjóðanna, en hingað til hafa Bandaríkin beitt neitunarvaldi. Kröfur fólks um heim allan hljóma af krafti og samstöðu: Stöðvið blóðbaðið!
Frjáls Palestína!
Birtist fyrst í Morgunblaðinu.