Vegna fréttafluttnings Ríkissjónvarpsins frá Palestínu og Ísrael

Bréf Félagsins Ísland-Palestína til Útvarpsráðs


Félagið Ísland-Palestína lýsir hér með yfir áhyggjum sínum vegna hlutdrægs og yfirborðskennds fréttaflutnings undanfarið af ástandi mála á hernumdu svæðum Palestínumanna í fréttum Ríkisútvarpsins-Sjónvarps. Samkvæmt upplýsingum félagsins var einum af fréttamönnum erlendu deildar fréttastofu Ríkisútvarpsins-Sjónvarps boðið af ríkisstjórn Ísraels í sérstaka heimsókn til landsins, og þykir félaginu miður hvernig fréttir og viðtöl úr ferðinni snerust nær einvörðungu um hlið Ísraels á þessum hörmulegum átökum, þar sem langmestum tíma var varið í viðræður við starfsmenn ríkisstjórnar landsins.

Sú spurning hlýtur að vakna hvaða upplýsingagildi slík viðtöl hafi, þegar vitað er að nóg er af óhlutdrægum aðilum í Ísrael sem veitt gætu raunverulega innsýn í stöðu mála, a.m.k. samanborið við stjórnarerindreka sem hlýtur starfs síns vegna á stríðstímum að verja málstað stjórnar sinnar gagnrýnislaust. Burtséð frá þeim starfsreglum sem Ríkisútvarpið kann að hafa sett sér varðandi heimboð ríkisstjórna undir venjulegum kringumstæðum, þá hefði í þessu tilfelli augljóslega mátt gera kröfu til meiri natni við að gera sjónarmiðum beggja aðila jafn hátt undir höfði, þar sem allir sem hafa kynnt sér málið vita hve mjög Ísraelsstjórn er í mun að fegra málstað sinn, sem erfitt er að verja andspænis alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Hér er einungis átt við þá viðmælendur sem kostur hefði gefist á að ræða við innan ísraelsks þjóðfélags, en auðvitað hlýtur að teljast undarlegt yfir höfuð að blaðamaður þiggi heimboð ríkisstjórnar Ísraels undir kringumstæðum sem þessum. Þegar fréttamaður þiggur slíkt boð er hætt við að hann rýri traust sitt og þeirrar fréttastofu sem hann starfar fyrir, enda ljóst að ferð af þessu tagi er ekki skipulögð af hálfu Ísraelsstjórnar til að draga upp bjarta mynd af baráttu Palestínumanna, hvernig svo sem hún tryggir útkomuna. Þess má geta að virtar fréttastofur á borð við CNN ræða reglulega við óháða Palestínumenn á borð við Hanan Asrawi og Dr. Mustafa Barghouthi, sem ekkert hefði verið til fyrirstöðu að rætt hefði verið við í ferðalaginu, nema gestgjafinn hafi sett skilyrði um annað en þá hefði boðið vitanlega ekki átt að vera þegið.

Félagið lýsir þar að auki yfir almennum áhyggjum sínum yfir slælegum fréttaflutningi af átökum Palestínumanna og Ísraelshers, þar sem hvorki er reynt að varpa ljósi á sögulegan bakgrunn atburðanna, sem væri gustukaverk í málefni sem dynur í eyrum landsmanna dag eftir dag, né styrkshlutföllunum í deilunni sýnd verðskulduð athygli. Það er ekki afsakanlegt að ala á þeirri skoðun, sem oft gætir í fréttum frá stofunni, að hér sé um að ræða deilu tveggja jafningja þar sem „sjaldan veldur einn þá tveir deila“ þegar 90% fallinna eru Palestínumenn, þegar ein milljón Palestínumanna býr á jafn stóru landsvæði og sex þúsund ísraelskir landnemar, og þegar forsætisráðherra Ísraels er dæmdur stríðsglæpamaður í eigin landi sem starfrækir her sinn með 300 milljarða dala styrk frá mesta herveldi heims árlega í baráttu sinni við ráðvilltan æskulýð í undirokuðu þjóðfélagi.

Það er von félagsins að fréttastofa Ríkisútvarpsins-Sjónvarps hafi vilja til að rétta úr kútnum, t.d. með því að sýna heimsókn Dr. Mustafa Barghouti hingað til lands í byrjun júní nk. áhuga þegar þar að kemur.

Virðingarfyllst,
Viðar Þorsteinsson
meðstjórnandi Félagsins Ísland-Palestína

Birtist í Frjáls Palestína.

Höfundur

  • Viðar Þorsteinsson

    Höfundur er heimspekingur og meðstjórnandi Félagsins Ísland-Palestína. .

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top