Skrifið, fingur mínir, skrifið

Kæra dagbók:

Fariði burt! Hættið! Látið okkur í friði! Hættið að sprengja … það er nóg komið. Hve lengi í viðbót þurfum við að þola riffla ykkar, þyrlur, skriðdreka, táragas og byssukúlur??? Hve marga í viðbót þurfiði að drepa undir því yfirskini að „vernda öryggishagsmuni ykkar“? Hvað um öryggishagsmuni okkar? Hver verndar okkur gegn slátrun ykkar … Hver? Enginn að því er virðist. Alls enginn. Ekki alþjóðasamfélagið, svo sannarlega ekki Bandaríkin, og alveg örugglega ekki leiðtogar Arabaríkjanna.

Skynjið þið örvæntingu í skrifum mínum? Við hverju búist þið? Ég er þreytt á ógleðinni, þreytt á höfuðverknum, þreytt á að gráta þegar vinir mínir og nágrannar tala um kvöl sína, þreytt á að vera svona fjandi þreytt öllum stundum…þreytt á að finnast ég svona hjálparvana. Það voru þessar fjárans þyrlur. Þær voru að varpa sprengjum á Beit jala, Beit Sahour og Alda flóttamannabúðirnar og þær flugu svo lágt … svo byrjuðu sprengingarnar. Var klukkan 21:00 um kvöldið þegar ég vaknaði við þær? Ég man ekkert stundinni lengur.

Mér fannst eins og þyrlan væri í herberginu með mér … mér leið eins og í rússneskri rúllettu … Hvert verður næsta skotmark? Er Dheisheh á listanum í kvöld? Verður húsið okkar fyrir barðinu á sprengjunum? Ætti ég að fara úr rúminu og reyna að fela mig einhverstaðar? Hvar? Mér dettur enginn öruggur staður í húsinu í hug. Ætti ég að fela mig undir rúminu??? Bjánalegt. Það eru bara börn sem fela sig undir rúmum, sem barn í stríðinu 1967, faldi ég mig undir rúminu. Ég er orðin of gömul fyrir það núna … og við höfum gengið í gegnum of mörg stríð nú þegar.

Það er komið nóg … og ég komin með nóg heimsbyggðinni. Af hverju stígur þú ekki inn í hringinn og bindur enda á hersetuna … bara binda enda á hersetuna, það er það eina sem þarf að gera … enda fjandans hersetuna sem lætur okkur ekki í friði … sem drepur okkur.


„Lítil stúlka var á leið heim úr skólanum með skólatösku á bakinu. Hún var skotin til bana af Ísraelum. Þetta gerist daglega. Harmleikur minn var tekin upp á myndavél en þeirra er það ekki”
Jamal Al-Dura er faðir hins 12 ára gamla Mohammed Al-Dura, sem skotin var til bana af ísraelskum hermönnum í fangi hans fyrir framan sjónvarpsmyndavélar franskra fréttamanna. Sjúkraliði sem reyndi að koma þeim feðgum til bjargar var einnig drepin af hernámsliðinu.

Klukkan er 22:00 um kvöld … nóttin er ung. Ef þú ert undir hersetu í Palestínu þýðir það að allt getur gerst. Dagurinn í dag gæti vel verið okkar síðasti. Þessi hugsun ásækir okkur öll. Við hugsum um dauðann, um að deyja, um að vera drepin, um að hætta að vera til … um þetta hugsum við linnulaust. Allt sem við gerum gæti verið í síðasta skiptið. Þetta er ekkert nema rússnensk rúlletta! Vitiði hvernig maður spilar hana? Eða viljiði að ég sýni ykkur hvernig?

Fjölmiðlarnir hópuðust til Beit Jala eins og krakkar á leið í Disneyland. Þeir tróðu myndavélunum, hljóðnemunum og skrifblokkunum í andlitin á öllum og spurðu: Ísraelsmenn kveðast hafa gert sprengjuárásir á Beit Jala vegna þess að vopnaðir Palestínumenn skjóti á Gilo landnemabyggðina í skjóli frá húsunum í Beit Jala. Hver eru viðbrögð ykkar? Fyrirgefðu! Hvað sögðuð þið?! Hver var spurningin? Hve margir óbreyttir ísraelskir borgarar hafa dáið frá upphafi al-Aqsa uppþotanna? Hve margir óbreyttir ísraelskir borgarar hafa særst? Hve mörg Ísraelsk heimili hafa verið sprengd? Hve margir óbreyttir ísraelskir borgarar hafa lent fyrir barðinu á palestínskum eldflaugum, flugskeytum, sprengjum eða kúlum? Hve margir?! Svarið því, þið hlutlausa fólk … þið sem leggið svo mikið upp úr því að fjalla um átökin með fréttum frá „báðum hliðum“ . Fyrir ykkur erum við bara enn önnur fréttin…á skjánum í dag, horfin á morgun. Við erum hinir andlitslausu, nafnslausu, aldurslausu Arabar sem erum auðveld bráð … eins og dádýr á veiðitíma.

En veröldin skelfur ekki undan dauða okkar. Engir jarðskjálftar … engar hótanir um viðskiptabann á Ísrael … hver myndi svo sem þora því? Við eigum þetta allt skilið, er það ekki? Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta það sem kemur fyrir þá sem sækjast eftir frelsi og sjálfstæði … einhver þarf að slást í leikinn og reka trýnin á þeim aftur í svaðið, sýna þeim hver ræður … vandamálið er bara að við neitum að deyja. Jafnvel í dauða okkar erum við lifandi. Mohammed og Rufaida og Mustafa og Mahmoud, og hinar þúsundirnar sem hafa látið lífið fyrir Palestínu þessi síðustu 52 ár, lifa öll … þau lifa í hjörtum og hugum barna þeirra og barnabarna … þau lifa í loftinu, í jörðinni, í trjánum, í himninum, í skýjunum … og ávallt í hjörtum og hugum okkar allra.

Skrifið fingur mínir, skrifið. Hugsaðu heili, hugsaðu. Kvelstu hjarta, kvelstu. Kastaðu upp magi, kastaðu upp. Verkjaðu höfuð, verkjaðu. Og venjist þessu. Þetta er aðeins byrjunin, fleiri dagar, fleiri vikur sigla í kjölfarið. Þeir hafa ekki lokið sér af með okkur enn.

Nú svindla ég aðeins. Ég get ekki lengur haft eyrun óvarin, þyrluhljóð dynja á þeim, ég þreytist líka á því að hlaupa að glugganum við minnsta hljóð. Ég set á mig eyrnatólin og spila gleðitónlist mjög hátt … halló gleðitónlist! Langt er nú um liðið. Ég hef saknað þín. Þú táknar hversdag sem ég þekki ekki lengur. Þú líkist lífinu eins og það á að vera en er ekki lengur. Nokkrum lögum seinna klappar maðurinn minn á öxl mér. Ég tek eyrnatólið af öðru eyra og hlusta á hvað hann hefur að segja. Núna eru þeir að sprengja al-Bireh, rétt hjá Ramallah. Ég sem hélt að hann ætlaði að spyrja mig hvort mig langaði út að borða, eða í göngutúr að finna rósailminn, eða fara í bíó … eða jafnvel fara og hlusta á jazz!

Æ, afsakið minnistapið. Örskotsstund gleymdi ég að ég væri í Palestínu. Við gerum ekki svona bjánalega hluti hér. Við bíðum frekar eftir því hvort við deyjum eða ekki. Alvarleikinn er okkar ær og kýr. Sprengjuárásir, flugskeytaárásir, líkin hrannast upp … teldu Muna … teldu alltaf. Teldu svo þú gleymir því ekki. Bráðum veistu kannski ekki hvað einn plús einn eru … teldu og kastaðu upp … kastaðu upp og teldu. Tapaðu þyngd, það er í lagi. Tapaðu vitinu líka ef þú þorir … þetta er aðeins byrjunin. Þeir hafa enn ekki drepið nógu mörg okkar. Blóð hinna dauðu og særðu fyllir ekki einu sinni sundlaug enn. Ekki enn!

Á morgun kemur nýr dagur. Munum við vakna eður ei? Munum við lifa eður ei? Munum við missa handlegg, auga, nýra? Munum við vera í hópi eftirlifenda? Munum við lifa til að geta sagt frá? Og er við lifum … mun einhver hlusta? Halló … eruð þið þarna? Palestína kallar. P A L E S T Í N A !

Muna Hamzeh-Muhaisen,
Dheisheh flóttamannabúðirnar Palestínu

(þýðing: Bergsteinn Jónsson)

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

  • Muna Hamzeh-Muhaisen

    Höfundur er blaðamaður og búsett í flóttamannabúðunum Deheisheh hjá Bethlehem í Palestínu.

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top