Það er oft talað um að heimurinn sé orðinn lítill og víst er það að fólk ferðast heimshorna á milli rétt eins og menn skruppu bæjarleið áður fyrr. En það hefur lengi verið til siðs að rétta nágranna hjálparhönd ef hann býr við neyð. Palestínumenn eru orðnir nágrannar okkar. Þar er mikil neyð og margir tína lífi og limum dag hvern vegna vegna ofsókna ofstækisfulls herveldis sem byggðist upp á landi þeirra fyrir tilstuðlan Vesturveldanna.
Hernumið land
Árið 1947 úthlutuðu Sameinuðu þjóðirnar aðeins litlum hluta þess lands sem nú er undir yfirráðum Ísraels. Meirihluta landsins hefur Ísrael hernumið. Jerúsalem er t.d. hernumin borg. Með Óslóarsamkomulaginu létu Palestínumenn af kröfum um að fá til baka land sem tekið var af þeim með hervaldi 1948, en standa fast á því að fá sem mest af landsvæðunum sem hernumin voru í sex daga stríðinu 1967 og að flóttamenn fái að snúa heim. Það var þeirra ógæfa að Bandaríkjastjórn skyldi sveipa sig skikkju hins hlutlausa sáttasemjara, því þeir hafa alla tíða haldið Ísrael uppi, pólitískt, efnahagslega og hernaðarlega.
Ofsótt þjóð án mannréttinda
Aðeins um þriðjungur Palestínumanna býr á sjálfstjórnarsvæðunum á Vesturbakkanum og Gasa. Svæði þessi eru öll sundurskorin af yfirráðasvæðum Ísraels (landnemabyggðum og vegum sem Ísrael ræður) og ferðafrelsi fóks er svo skert að mánuðum saman kemst það ekki til vinnu og útflutningur á vörum nánast ómögulegur. Af þessum sökum er efnahagur sjálfstjórnarsvæðanna í rúst, sultur sverfur að og erfitt að halda skólum og heilsugæslu gangandi. Vel á þriðju milljón manna býr í flóttamannabúðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa tilsjón með.
Ofan á þetta ófrelsi bætist stöðug hernaðarógn, morð (ekki síst á börnum), eyðilegging íbúðarhúsa og akra með jarðýtum og upptaka eigna. Hefnigirni síonosta í Ísrael er óhugnanleg. Þeir virðast enn ekki hafa lært sitt eigið lögmál um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, því þeir þurfa helst að limlesta og drepa fjölda manns ef einhver skerðir hár á höfði eins þeirra. Hóprefsingar sem þessar stríða gegn alþjóðalögum, svo og ótal margt annað í þeirra daglegu hegðun.
Hjálpum þeim!
Síðustu mánuði hafa Palestínumenn beðið um alþjóðlega vernd gegn árásum Ísraelshers. Stórveldin hafa skellt skollaeyrum við þeirri bón. Hvers vegna? Hvers vegna stöðva landvinninga Serba og Íraka en láta morð og landvinninga Ísraela afskiptalaust?
Í Palestínu herjar eitt af öflugustu herveldum heims á óbreytta borgara sem langflestir eru vopnlausir. Þó að nokkrir palestínskir skæruliðar hafi komist yfir vopn hafa flestir ekkert til að verja sig og réttindi sín með nema orð, berar hendur og grjót. Tölur um fallna eru til vitnis um mismun í hernaðarstyrk og grimmd. Þetta er því ekki stríð heldur morðárásir á óbreytta borgara. Það er íslenskum stjórnvöldum til skammar að láta afskiptalaus slík níðingsverk rétt utan við túngarðinn.
Stóru féttamiðlarnir eru hallir undir þann sem meira má sín og gefa oftast hlutdræga mynd af átökunum í Palestínu. Það er auðvelt að kynna sér hvernig málið lítur út frá sjónarhóli hinna undirokuðu Palestínumanna, með því að fara inn á internetið, t.d. inn á nýja vefsíðu Félagsins Ísland-Palestína, www.palestina.is, þar sem m.a. er að finna slóðir mannréttindasamtaka í Palestínu og Ísrael.
(Greinin birtist í DV í apríl sl.)
Birtist einnig í Frjáls Palestína.