Sex myrtir á Landdegi Palestínumanna

Þann 30. mars síðastliðinn voru 25 ár síðan Ísraelsmenn tóku 5.500 ekrur lands Palestínumanna eignarnámi í Galíleu í norðurhluta Ísraels. Á undan og fyrst eftir landránið voru svæðin lokuð Palesínumönnum og yfirlýst sem „lokuð öryggisvæði hersins“ (e: closed military zones) en síðar hófu Ísraelskir „landnemar“ búskap á svæðunum. Ísraelski herinn myrti 6 Palestínumenn, særði 96 og handtóku rúmlega 300 þegar svæðin voru tekin eignarnámi árið 1976. Atburðurinn hafði mikil áhrif meðal Palestínumanna búsettra innan landamæra Ísraelsríkis, sem oft eru kallaðir ísraelskir arabar í fjölmiðlum, og sýndi að þeim að þeir væru annarsflokks íbúar í ríki ætlað gyðingum.

Palestínumenn hafa minnst landránsins í Galíleu árlega á hinum svokallað Landdegi. Tilgangur hans er meðal annars að mótmæla áframhaldandi landráni Ísraelsmanna sem fer aðallega fram á herteknu svæðunum; Gaza og Vesturbakkanum. Þar eru landsvæði Palestínumanna tekin undir landnemabyggðir gyðinga, sem torveldar möguleika Palestínumanna til að stofna eigið ríki og að friðsamleg lausn náist á átökunum í Palestínu. Landrán Ísraela eru ólögleg samkvæmt Genfarsáttmálanum og samþykktum S.Þ. Heimastjórn Palestínumanna vill einnig meina að nýjar landnemabyggðir stríði gegn Oslóar friðarsamkomulaginu sem undirritað var árið 1993.

Í mótmælum Palestínumanna á Landdeginum voru sex Palestínumenn drepnir og yfir 100 særðir af Ísraelska hernámsliðinu. Þeir látnu voru allir óvopnaðir; Sha’ban Sa’ed Salloum (31 árs frá Balatah flóttamannabúðunum við Nablus) sem skotin var í höfuðið með vélbyssu, Ahmad Mahmoud Marahil (16 ára frá Balatah flóttamannabúðunum) sem lést af skoti í hálsinn, Ayesh Ghazi Mustafa Zamel (19 ára frá Dier al-Hatab við Nablus) sem lést af skoti í höfuðið, Murad Sharay’ah (21 árs frá Balatah flóttamannabúðunum) sem lést af skoti í höfuðið, Khaled Shihadeh Nakhleh (27 ára frá Nablus) sem lést eftir skot í höfuðið) og Mohammad Abd al-Muhsen al-Wawi (21 ára frá Betunia við Ramallah) sem lést af skoti í höfuðið.

Að sögn sjónarvotta voru mótmælin friðsamleg þar til ísraelskir hermenn hófu skothríð á mótmælendur. Þá hófust „átök“ milli mótmælenda, sem beittu steinum, og ísraelskra hermanna sem beittu vélbyssum og rifflum og skutu gúmmíkúlum og hefðbundnum byssukúlum. Síðan ný uppreisn Palestínumanna gegn hernámi Ísraela hófst í september hafa meira en 410 Palestínumenn fallið og tala særðra er komin í 12 þúsund.

(Byggt á tilkynningum mannréttindasamtakanna Al-Haq [alhaq.org] og óháðu samtakana Miftah [www.miftah.org] sem hafa mannréttindi og lýðræði í Palestínu að leiðarljósi.]

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top