Ísrael getur ekki verið ríki hernaðar að eilífu

Viðtal við Muhammad Jaradat sem berst fyrir rétti palestínskra flóttamanna.


Muhammad Jaradat er 37 ára Palestínumaður, fæddur í þorpinu Sa’ir nærri Hebron á Vesturbakkanum. Þegar hann stundaði nám í háskólanum í Betlehem hóf hann þáttöku í þjóðfrelsisbaráttu Palestínumanna og hefur hann eytt rúmlega fimm árum lífs síns í ísraelskum fangelsum. Muhammad er einn af stofnmeðlimum samtakanna Badil Resource Center for Palestinian Residency and Refugee Rights sem meðal annars miðlar upplýsingum um stöðu og réttindi þeirra 5,2 milljóna palestínskra flóttamanna sem búa innan og utan Palestínu. Badil Resource Center hefur undanfarið haldið úti baráttuherferð fyrir rétti Palestínumanna til að snúa aftur til heimalands síns, Badil’s Right of Return Campaign, og er Muhammad einn af forystumönnum hennar.


Viðtal við Muhammad Jaradat sem berst fyrir rétti palestínskra flóttamanna

Muhammad Jaradat er 37 ára Palestínumaður, fæddur í þorpinu Sa’ir nærri Hebron á Vesturbakkanum. Þegar hann stundaði nám í háskólanum í Betlehem hóf hann þáttöku í þjóðfrelsisbaráttu Palestínumanna og hefur hann eytt rúmlega fimm árum lífs síns í ísraelskum fangelsum.

Muhammad er einn af stofnmeðlimum samtakanna Badil Resource Center for Palestinian Residency and Refugee Rights sem meðal annars miðlar upplýsingum um stöðu og réttindi þeirra 5,2 milljóna palestínskra flóttamanna sem búa innan og utan Palestínu.

Badil Resource Center hefur undanfarið haldið úti baráttuherferð fyrir rétti Palestínumanna til að snúa aftur til heimalands síns, Badil’s Right of Return Campaign, og er Muhammad einn af forystumönnum hennar.

– Hvað eru palestínskir flóttamenn margir og hvar búa þeir aðallega?

Palestínumenn eru í raun þjóð flóttamanna. Rúmlega 800.000 Palestínumenn voru hraktir frá heimilum sínum þegar Ísraelsríki var stofnað í stríðinu 1948. Þá voru um 535 palestínskir bæir og þorp lögð í rúst af herjum zíonista. Palestínskir flóttamenn eru í dag um 5,2 milljónir. Þeir búa aðallega á Vesturbakknum, Gaza ströndinni, Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi, en aðrir búa dreifðir um alla veröld. Einnig búa um 250 þúsund flóttamenn innan vopnahléslínunnar frá 1948, núverandi landamæra Ísraelsríkis. Þeir hafa ísraelskan ríkisborgararétt en fá ekki að snúa til baka til heimaþorpa sinna.

– Hvers vegna er mikilvægt að krafa Palestínumanna um að fá að snúa aftur til heimalands síns verði virt?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að nauðsynlegt er að viðurkenna rétt flóttamanna til að snúa aftur og að séð verði til þess að þeir geti nýtt sér þennan rétt. Grundvallarréttindi fólks, eins og eignaréttur, er eitthvað sem ekki er hægt að semja um og má ekki nota sem skiptimynt í samningaviðræðum. Markmiðið að gera Ísrael að hreinu ríki gyðinga felur í sér augljósa mismunum, allir sem trúa á gildi mannréttinda og eru á móti misrétti ættu að berjast gegn þessari hugmyndafræði kynþáttahaturs. Það er líka mikilvægt að hafa það hugfast að 72% palestínsku þjóðarinnar eru flóttamenn. Friðarsamningar verða að njóta stuðnings meirihluta palestínsku þjóðarinnar og skila meirihluta hennar grundvallar mannréttindum til að þeir geti talist réttlátir og átt möguleika á að ganga upp. Það verður enginn varanlegur friður fyrr en stjórnvöld í Ísrael viðurkenna ábyrgð sína á sköpun flóttamannavandamálsins og samþykki að leysa það í samræmi við alþjóðalög og samþykkt S.þ. númer 194, sem segir að flóttamenn eigi sjálfir að fá að ráða hvort þeir vilji snúa aftur til heimalands síns.

– Telurðu líkur á að Ísraelar muni einhverntíman viðurkenna rétt flóttamanna til að snúa aftur?

Fyrr eða síðar munu Ísraelsmenn verða að viðurkenna rétt flóttamanna til að snúa aftur. Ísrael getur ekki verið ríki hernaðar, sem reiðir sig á stuðning Bandaríkjanna og Evrópu, að eilífu. Eina tækifærið á áframhaldandi tilveru Ísraelsríkis er að réttur flóttamanna til að snúa aftur verði virtur. Annars mun Ísraelsríki þurfa að horfast í augu við stöðuga baráttu sem ungir Palestínumenn og kynslóðir araba, sem eru vel menntaðar og meðvitaðir um einstaklingsrétt sinn og rétt þjóðar sinnar, munu halda uppi. Hin nýja Intifada uppreisn er gott dæmi um hvað Oslóar-friðarsamkomulagið skilaði Palestínumönnum. Fólkið ákvað að stóla á friðarferlið í heil sjö ár. Leiðtogar Ísraels höfðu ekki áhuga á friði. Þeir héldu að hægt yrði að sniðganga rétt Palestínumanna með endalausum „samningaviðræðum“ á meðan þeir byggðu landnemabyggðir á palestínsku landi, héldu pólitískum föngum, hreinsuðu Jerúsalem af arabískum áhrifum, niðurlægðu fólk með takmörkunum á ferðafrelsi þeirra, neitaði að viðurkenna ályktanir S.þ. og svo framvegis. Þess vegna kom hin nýja Intifada … til að hrista upp í Ísraelskum leiðtogum og almenningi og senda skýr skilaboð um að það verður engin friður nema Ísraelsmenn fara frá herteknu svæðunum frá 1967 [Austur-Jerúsalem, Vesturbakkanum og Gaza] og að réttur flóttamanna verði virtur.

– Ert þú sjálfur flóttamaður?

Nei, ég er ekki flóttamaður. En mér finnst ég, og börn mín, ekki geta lifað við frið og öryggi á meðan meirihluti þjóðar minnar er landflótta. Við Palestínumenn sem erum ekki flóttamenn erum aðeins 28% af þjóðinni.

– Hvernig er ástandið þar sem þú býrð í Betlehem á Vesturbakkanum?

Það er ekki gott að lifa undir hernámi. Hernámsliðið hefur gert palestínsk svæði að fangelsum og fangabúðum. Þú getur ekki ferðast frá þorpi til þorps, frá einum borgarhluta til annars. Þær aðgerðir Ísraelsmanna að nota þungavopn til árása á íbúðarhverfi eru ekkert annað en ríkishryðjuverk. Ísraelskir hermenn skjóta á barnaleikvelli, skóla, moskur, kirkjur, verksmiðjur og rafveitur. Þeir eyðileggja ólífutré, grænmetis- og ávaxtabýli og drepa börn og fullorðna á meðan það situr í stofunni heima hjá sér eða sefur í rúmum sínum. Hvað get ég sagt? Ég get ekki heimsótt móður mína sem er í þorpi 20 km frá Betlehem. Palestínumenn í Betlehem geta ekki iðkað sína trú í Jerúsalem sem þó er í aðeins 6 km fjarlægð. Herir hernámsliðsins eru allstaðar og breiða út dauða og eyðileggingu. Betlehem er bær sem er heilagur í augum kristinna manna um allan heim. Áður en átökin hófust var hérna mikið líf, en nú er þetta eins og draugabær. Efnahagur okkar, sem byggðist mikið á ferðaþjónustu, er í rúst. Engir ferðamenn, engir pílagrímar og engir gestir!

– Hefur fólk enn trú á friðarferlinu?

Trúðu mér, fólk vildi trúa á hið svokallaða friðarferli. En nú trúir fólk aðeins á eitt: hernáminu verður að linna og flóttafólkið verður að fá rétt til að fá snúa aftur. Að öðrum kosti munum við Palestínumenn, sem og Ísraelsmenn, verða að horfast í augu við meiri átök og frekari hörmungar.

Friður mun komast á einhvern daginn, þegar grundvallarmannréttindi Palestínumanna eru tryggð og skrifað verður undir réttlátt friðarsamkomulag.

– Telurðu mögulegt að ísraelskir hermenn muni einhverntíma neita að skjóta á börn og óbreytta borgara á herteknu svæðunum?

Það mun koma að því að ísraelskir hermenn óhlýðnist leiðtogum sínum. Þú getur þegar séð fyrstu merki þess í dag, en þó veit maður ekki hve mikil óhlýðni nær að myndast meðal þeirra. Ég trúi því að ekkert sé ómögulegt og allt sé mögulegt á meðan fólk heldur áfram að veita andspyrnu og viðheldur vonarneistanum. Ætli við séum ekki þjóð með mikinn baráttuanda sem trúir á breytingar. Þess vegna lítum við á ísraelsku hermennina sem manneskjur sem ættu að finna fyrir og skilja hverskonar hrylling þeir eru að leiða yfir palestínsk börn og óvopnaða borgara. Við vonum að þessi hugsun byrji að mótast í hugum og hjörtum hermannanna og fjölskyldna þeirra, og að þeir vilji koma í veg fyrir að þeirra börn drýgi samskonar glæpi og þeir í herbúningi.

–Kristinn stuðningsmaður Ísraels hér á Íslandi skrifaði í dagblaðagrein fyrir nokkrum misserum um að eftir að heimastjórn Palestínumanna tók við völdum í Betlehem hafi

hún skipulega mismunað kristnum íbúum borgarinnar og nú væri svo komið að kristnir íbúar bæjarins væru aðeins hluti af þeim fjölda sem þeir voru fyrir Oslóar-friðarsamkomulagið. Er eitthvað til í þessu?

Hverju getum við Palestínumenn búist við af zíonistum og stuðningsmönnum þeirra í heiminum? Við getum því miður búist við fullyrðingum á borð við þessa. Ég býð þér og þeim sem skrifaði þetta rusl til að heimsækja Betlehem og „njóta“ þess að sjá PLO og heimastjórnina mismuna hluta af sinni eigin þjóð og reka hana burt. Er þetta brandari? Ef svo er þá er hann verulega slæmur! Betlehemsvæðinu er að mestu stjórnað af kristnum Palestínumönnum. Ég fer ekki meir út í bull af þessu tagi. En ég vil þó segja að PLO og allar þjóðarstofnanir Palestínumanna hafa ekkert með mismunum á sínu eigin fólki að gera, hvort sem er gagnvart samfélags- eða trúarhópum. Ef kristnum zíonistum þykir vænt um kristni og mannréttindi kristinna manna ættu þeir að berjast gegn árásum ísraelska hernámsliðsins sem er að eyðileggja Betlehem og drepa fylgjendur Jesú í Betlehem, Beit Jala og Beit Sahour. Eru þessar árásir Ísraela kannski hugsaðar til að bjarga fólkinu frá PLO og Palestínsku heimastjórninni?

– Getur almenningur á Íslandi eitthvað gert til að styðja við baráttu Palestínumanna gegn hernáminu?

Tvímælalaust! Það er ýmislegt sem hægt er að gera, þar á meðal að þrýsta á um að íslensk stjórnvöld endurmeti stuðning sinn við stjórnvöld í Ísrael. Einnig skorum við á íslenskan almenning að sniðganga ísraelskar vörur þar til Ísraelsmenn fari eftir alþjóðalögum og samþykktum SÞ, þar á meðal samþykkt nr. 194 sem segir að palestínskir flóttamenn eigi að fá að snúa aftur til heimalands síns og að Ísraelsmenn fari frá herteknum svæðum Palestínumanna og araba sem tekin voru í stríðinu 1967. Við vonum að fólk á Íslandi horfi ekki á baráttu okkar fyrir mannréttindum frá sjónarhóli Ísraela, heldur sjái það sem er að gerast út frá mannlegu sjónarhorni.

Viðtal þetta var tekið í gegnum tölvupóst þann 21. apríl 2001.

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top