Nýlokið er ráðstefnu í Annapolis í Bandaríkjunum sem hafði þann yfirlýsta tilgang að stuðla að friði milli Ísraela og Palestínumanna. Þessi ráðstefna var tilgangslaus þar sem frumforsendur friðar eru ekki fyrir hendi. Svo lengi sem Ísraelar, með stuðningi BNA og ESB, halda áfram að hersitja Palestínu, byggja fleiri og fleiri hús á herteknu landi og neita að viðurkenna mannréttindi Palestínumanna, jafnt á herteknum svæðum sem innan Ísraelsríkis, þá verður ekki friður. Þetta er ekki flókið mál og þetta vita allir, jafnt Ísraelar, stjórnvöld í ESB og Bandaríkjunum og venjulegur fréttafíkill hér uppi á Íslandi. Það er fátt sem getur ógnað tilveru Ísraela nema þeirra eigið ofstæki. Þeir eiga einn fullkomnasta her í heimi, þeir eiga kjarnorkusprengjur og hafa ómældan stuðning Bandaríkjanna. Vilji þeir frið þá er það í þeirra hendi.
Stofnun Ísraelsríkis
Eftir ofsóknir og fjöldamorð Nasista, sem aðallega beindust gegn gyðingum, náðu forystumenn þeirra samningum við ráðandi ríki þess tíma. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu í nóvember 1947 stofnun Ísraelsríkis í Palestínu. Samþykkt var að skipta landinu jafnt milli íbúanna sem fyrir voru og þeirra sem nú mættu til leiks. Þessi skipting náði aldrei fótfestu og í dag ráða gyðingar allri Palestínu. Lögin sem Ísrael byggir á miðast við að þjóðarheimilið skuli vera virki og athvarf allra gyðinga, innan þess ræður þeirra trú og þeirra lífsgildi. Aðrir íbúar eru til vandræða að mati mjög margra gyðinga.
Íslenskir stjórnmálamenn, sem engan þátt áttu í hrakningum gyðinga í heimsstyrjöldinni, höfðu mikla samúð með málstað þeirra við lok styrjaldarinnar. Var það engin furða, því að sjaldan hafði heimurinn fengið að kynnast jafnmikilli grimmd og birtist í meðferð nasista á gyðingum. Þessi afstaða kemur glöggt fram í ræðu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar á Alþingi: „Þegar minnst er á Ísrael kemur fyrst í huga manns sá harmleikur sem er skelfilegastur í sögu mannkyns. Ofsóknir, útrýming og þjóðarmorð nasista á gyðingum rennur hverjum heilbrigðum manni til rifja.“
Böðlar Hitlers notuðu öll meðul sem þeim hugkvæmdust til þess að losa heiminn við gyðinga. Og nasistar voru mjög hugmyndaríkir á þessu sviði og höfðu þá afstöðu til gyðinga að þeir tilheyrðu ekki siðmenntuðu samfélagi, þeir væru sníkjudýr og skyldi útrýmt. En gyðingahatur var ekki bundið við Þýskaland, öldum saman var gyðingahatur landlægt í Evrópu, Frakkar og fleiri þjóðir áttu þar hlut að máli. Eftir ósigur nasismans voru margir vestrænir stjórnmálamenn sakbitnir, margt sem hefði getað orðið gyðingum til bjargar var látið ógert og jafnvel urðu ýmsar aðgerðir evrópskra stjórnmálamanna beinlínis til þess að ofurselja gyðinga grimmdaræði nasista.
Ábyrgð Íslendinga á hörmungum Palestínumanna
Samþykkt Sameinuðu þjóðanna 1947 var í rauninni ákvörðun um að velta afleiðingum evrópska gyðingahatursins yfir á Palestínumenn sem engan hlut áttu að máli.
Hlutur Íslands var sá að Thor Thors sendiherra Íslands hjá SÞ átti sæti í þriggja ríkja sáttanefnd sem átti að freista þess að ná deiluaðilum saman um eina lausn. Í framsöguræðu nefndarinnar sem Thor flutti á Allsherjarþinginu 29. nóv. 1947 segir m.a.: „Af þessu má fulltrúunum vera ljóst, að allar tilraunir til þess að koma á sáttum virtust fyrirfram dauðadæmdar. Báðir aðilar héldu fast við sitt, hvor um sig trúði því fastlega, að hans málstaður mundi sigra, annað hvort í nefndinni eða á allsherjarþinginu.“
33 ríki, þar á meðal Ísland, samþykktu síðan stofnun Ísraelsríkis á landi Palestínumanna, 13 voru á móti og 10 sátu hjá. Frá þeim degi hefur ríkt ófriður þar og á þeim tíma hafa Ísraelar lagt undir sig allt land sem um var deilt og ríkja með harðri hendi yfir þeim íbúum af arabakyni sem ekki hafa verið hraktir á brott.
Ísrael er mislukkuð tilraun
Stofnun Ísraelsríkis hefur reynst fullkomlega mislukkuð tilraun, ófriðarbálið sem hófst við stofnun ríkisins, hefur kveikt elda haturs og átaka sem loga um nær allan heim. Margir gera sér grein fyrir stöðunni en ekki liggur ljóst fyrir hvað er hægt að gera til þess að koma málum í betra horf. Ég tel ljóst að eina leiðin út úr þessum ógöngum er að snúa blaðinu við og einangra Ísrael frá öllu samstarfi á sviði menningar, hernaðar og viðskipta. Þessi aðgerð mun bitna tímabundið á Palestínumönnum. En þeirra hlutskipti getur ekki versnað úr þessu og Ísraelar verða að súpa seyðið af eigin verkum.
Með þessu móti getur hið s.k. alþjóðasamfélag reynt að bæta fyrir sín mistök og stöðvað hina mislukkuðu tilraun sem hófst árið 1947. Síðan blasir það við að þarna verður að rísa eitt ríki á lýðræðislegum grunni með fullri viðurkenningu á réttindum allra þeirra sem búa í þeirri Palestínu sem Sameinuðu þjóðirnar skiptu upp 1947. Það er engin önnur leið, gyðingaríkið Ísrael er tímaskekkja, hugsjón sem hefur kostað blóð og hörmungar. Fortíðin er slæm en framtíðin verður það einnig ef menn snúa ekki frá stefnu Síónista og BNA sem nú ræður mestu á þessum slóðum. Þetta er eina leiðin til friðar og farsældar.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu.