Samkvæmt fréttum fjölmiðla þá er sendiherra Ísrael kominn hingað til lands til þess að útskýra fyrir Valgerði utanríkisráðherra hversvegna Ísraelsher myrti 18 Palestínumenn í þorpinu Beit Hanun 8. nóv. s.l. Valgerður segist ekki vilja afboða fundinn með sendiherranum né slíta stjórnmálasambandi við Ísrael – hún vill heyra útskýringarnar áður en hún aðhefst nokkuð. En er það nægjanlegt fyrir Valgerði að hlusta á útskýringar á því að bilun í ratsjárkerfi sé skýringin og að ríkisstjórn Ísrael sé mjög leið yfir þessum mistökum?
Lítum á aðdraganda “mistakanna”:
- Her Ísraels stillir upp stórskotaliði og lætur sprengjunum rigna yfir Gaza, eitt þéttbýlasta svæði heims. Frá því í september 2005 hefur stórskotaliðið skotið rúmlega 15,000 sprengjum inn á svæðið. Á sama tímabili hafa Palestínumenn skotið 1,700 heimagerðum eldflaugum yfir til Ísrael. Það er viðurkennt af talsmönnum Ísraelshers að stórskotaliðsárásir séu vita gagnslausar til þess að stöðva hinar heimagerðu eldflaugar. Þetta sprengjuregn Ísraelshers hefur því greinilega annan tilgang en að stöðva eldflaugasendingar Palestínumanna. 752 Palestínumenn á öllum aldri liggja í valnum og 4060 særðir – sumir með ævilöng örkuml. Eru þetta mistök hjá Ísraelsher eða ásetningur?
- 8. nóvember var skotið 12 sprengikúlum (e: high explosive shells) á híbýli Athamna fjölskyldunnar í Beit Hanun og 18 íbúar drepnir. Ísraelska stórskotaliðið skaut að næturlagi (kl. 05:35) þegar gera má ráð fyrir að menn séu heimavið í fasta svefni. Eru hér enn ein mistökin eða ásetningur?
- Það er staðreynd að stórskotaliði sem hleypir úr byssum sínum á skotmark í margra kílómetra fjarlægð getur skeikað allt að 400 metrum. Í apríl s.l. ákvað Ísraelsher að minnka “öryggissvæði” stórskotaliðsins frá 300 metrum niður í 100 metra, þ.e. að nú má miða 200 metrum nær byggð en áður – eða bara 100 metrum frá næsta húsvegg. Mannréttindasamtök í Ísrael (B´Tselem) kærðu þessa ákvörðun hersins í apríl en hæstiréttur Ísraels er enn (í byrjun nóvember) að skoða málið. Eru það mistök eða ásetningur að auka líkurnar á að sprengjur falli á híbýli manna?
- Og við erum að fjalla um eitt þéttbýlasta svæði heims sem er auk þess er algjörlega lokað, enginn getur yfirgefið svæðið nema með leyfi Ísraelshers. Gaza er nú stærsta fangelsi heims, þar eru innilokaðir 1,4 milljón Palestínumenn á 360 ferkílómetra svæði; jafn stórt og Kolbeinstaðahreppur á Vesturlandi, en þar búa nú 102 íbúar. Enginn íbúi Gaza getur flutt annað þar til mesta morðæðið rennur af Ísraelsher. Er hægt að tala áfram um mistök?
Yfirlýsing Ísraelsstjórnar um mistök er ekki trúleg út frá þeirri atburðarás sem hér hefur verið rakin.
Og ef við lítum á lista yfir nokkur fjöldamorð sem Ísraelsher ber ábyrgð á þá fer allt tal um mistök að hljóma innantómt: Deir Yassin 1948, Salha 1948, Kfar Qassem 1956, Sabra & Shatila 1982, Quana 1996, Jenin 2002, Nablus 2002, Jabalya 2005, Chiyah 2006, Quana 2006, Al Shawka 2006 og Beit Hanun 2006.
Venjulegt fólk dregur skynsamlegar ályktanir af staðreyndum. Er til of mikils mælst að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands geri hið sama? Á að hanga aftan í ríkisstjórn Bandaríkjanna í þessu máli og “harma mistökin” og tala um “rétt Ísraelsríkis til sjálfsvarnar” eina ferðina enn? Ef fulltrúi kynþáttaaðskilnaðarstjórnar S-Afríku hefði á sínum tíma komið á fund íslensku ríkisstjórnarinnar og harmað fjöldamorðin í Sharpville – hefði það verið rétt af íslensku stjórninni að taka á móti honum með pomp og prakt?
Er ekki nær að framkvæma tillögu Steingríms J. um að slíta stjórnmálasambandi við þetta ríki sem ástundar slík voðaverk dag eftir dag, árið um kring – í bráðum 60 ár? Slit, eða hótun um slit á stjórnmálasambandi er mörgum sinnum áhrifaríkari en enn eitt mótmælabréfið.
Í leiðara Morgunblaðsins 11. nóvember segir að “Ísraelar verða að fara hugsa sinn gang í málefnum Palestínu. Þær aðferðir, sem þeir beita núna skila greinilega ekki árangri”. Mælistika Ísraelshers á árangur er fjöldi araba sem tekst að hrekja burt af landi sínu, jafnvel með því að drepa þá. Þeir nota jarðýtur, skriðdreka, árásaþyrlur, flugskeyti, fullkomnustu orrustuþotur, stórskotalið og fótgöngulið gegn léttvopnuðum Palestínumönnum. Þetta er allt úthugsað og skipulagt, engin mistök hér. Í Ísraelsríki eru í gildi 22 lagabálkar sem mismuna fólki eftir trú og uppruna. Engin mistök þar. Í Ísrael er engin stjórnarskrá sem ver grundvallarréttindi þeirra 1,200,000 araba sem eru löglegir íbúar í Ísraelsríki. Engin mistök hér.
2,4 milljónir Palestínumanna búa við grimma herstjórn á Vesturbakkanum, 1,4 milljónir búa í sprengjuregninu á Gaza og 1,2 milljónir búa við skert mannréttindi í sjálfu Ísrael. Ég held að það séu engin mistök að segja að Ísraelsríki sé ríki kynþáttamismunar og kúgunar. Íslendingar eiga ekki samleið með slíku ríki.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu.