
Framvindan á Gaza, gegndarlaust ofbeldið, grefur undan trú fólks á alþjóðasamfélaginu sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í viðtali í Ríkisútvarpinu í morgun, og játaði vanmátt sinn og íslenskrar ríkisstjórnar frammi fyrir þessum ósköpum. Bætti því reyndar við að áherslubreyting hefði orðið í þessum efnum frá síðustu stjórnarskiptum á Íslandi; var svo að skilja á forsætisráðherranum að gagnrýni íslenskra stjórnavalda væri nú orðin skeleggari. Sannast sagna kem ég ekki auga á neina stefnubreytingu af Íslands hálfu. ”Við verðum með ef aðrir eru með …” segir utanríkisráðherrann! Og eins og hjá fyrri ríkisstjórn “hefur Ísrael rétt á að verja sig”!
Í fyrsta lagi hefur ekkert ríki hvorki Ísrael né nokkuð annað ríki rétt á að verja sig á þann hátt sem Ísrael þykist vera að gera, “vörnin” er reyndar skálkaskjól fyrir þjóðernishreinsanir, þjóðarmorð!
Í öðru lagi má gagnrýna framsetningu forsætisráðherrans á “alþjóðasamfélaginu” sem hafi brugðist í hugum fólks. Alþjóðaglæpadómstóllinn vill lögsækja Netanyahu fyrir stríðsglæpi og er fyrir vikið ofsóttur af hálfu bandarískra stjórnvalda. Sama á við um talsmann Sameinuðu þjóðanna í málefnum Palestínu, Francescu Albanese, sem hefur staðið sig firnavel en sætir ofsóknum af hálfu helstu bandalagaríkja Íslands. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur margoft ályktað gegn landráni í Palestínu og krafist þess að samþykktir SÞ verði virtar. Ísraelsmenn hafa hins vegar komist upp með að virða alþjóðasamfélagið að vettugi í skjóli Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.
Í þriðja lagi er þetta einmitt mergurinn málsins. Sá hluti „alþjóðasamfélagsins“ sem hefur brugðist eru bandalagsríki Íslands í NATÓ. Það eru þau sem hafa brugðist og eru enn að bregðast, senda vopn til morðsveitanna, fangelsa fólk sem mótmælir ofbeldinu – á þann hátt sem ekki fellur innan þröngra skilgreininga um ríkið sem hefur „rétt til að verja sig.“
Nú þykja það miklar fréttir að einhver þessara bandalagsríkja Íslands ætla að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. En var það ekki meiningin árið 1948? Stóð ekki til þá að skipta landi Palestínumanna í tvö ríki, Ísrael og Palestínu? Var það ekki ákvörðun sem tekin var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir 77 árum? Nú bíða allir átekta og vilja vita hvar landamæri Palestínu liggi, hvort þess verði krafist að landránsbyggðum zíonista verði skilað í samræmi við ákvörðun SÞ á sínum tíma, eða hvort allt verður áfram í plati, allt til að sýnast. (sjá einnig hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-othaegilegt-ad-horfa-a-thessar-myndir )
Allt þetta ofbeldi – þjóðarmorð ofan í landrán, fangelsanir, pyntingar – viðgengst vegna þess að nýlenduríkin, gömul og ný – bandalagsríki Íslands í NATÓ – gera ofbeldi Ísraelsstjórnar gerlegt. En þetta er ekki „alþjóðasamfélagið“. Þetta eru ríkin sem eru að eyðileggja alþjóðasamfélagið.
Það eru þau sem hafa brugðist fórnarlömbunum á Gaza. Það eru þau sem hafa brugðist alþjóðasamfélaginu.
Ein leið til að styðja fórnarlömb á Gaza er að ganga í Vonarbrú, styrkja félagið með félagsgjaldi eða framlagi kt. 420625-1700, reikn. 0565-26-006379. Félagið styrkir og styður við sjötíu barnafjölskyldur á Gaza.
—————-
Myndin efst á síðunni er fengin af plakati á ráðstefnu í Oslo í febrúar á þessu ári
The picture obove is taken fron poster presented at this conference in Oslo in February: https://www.ogmundur.is/is/greinar/gegn-stridi-med-althjodalogum
Birtist fyrst á heimasíðu Ögmundar Jónassonar.