Hvar erum við? Hvert erum við komin? Í hvaða veruleika erum við eiginlega stödd?
Ég er íslensk kona, íslensk móðir, íslensk amma. Fólkið mitt er hraust, hefur þak yfir höfuðið, mat á diskum, býr við málfrelsi, hefur aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu, afþreyingu og við bæjardyrnar opnar stórbrotin náttúran faðminn, þar sem finna má fegurð, ró og samhljóm með almættinu.
Hvers vegna í ósköpunum er mér þá svona þungt um hjartað, hvers vegna vakna ég á hverjum morgni með kvíðahnút í maganum?
Í æsku var okkur flestum innprentaðir góðir siðir, gott siðferði. Samúð, samhyggð, munin á réttu og röngu. Mannúð. Réttlæti. Þetta væru meðal okkar helstu dyggða. Og á þeim byggjum við „okkar gildi“. Mannréttindi eru byggð á þessum gildum og mannréttindasáttmálinn er hluti af alþjóðalögum. Sem okkur ber að framfylgja.
Í dag fáum við hins vegar þau skilaboð, trekk í trekk, að réttlæti skipti ekki máli. Samúð og samhyggð sé óþarfa tilfinningasemi og jafnvel skaðleg okkar andlegu heilsu, að mannréttindi séu alls ekki fyrir alla og að mannúð sé ekki til.
Á hverjum degi horfum við upp á ungabörn veslast upp, veikjast og deyja úr hungri. Við horfum á foreldra sem horfa upp á ungabörn veslast upp, veikjast og deyja úr hungri. Sem í ofboði bera sundursprengd börn sín inn á það sem eftir stendur af spítölum. Við sjáum börn emja af hungri og þorsta, í stöðugri lífshættu því sprengjunum rignir yfir og það er í ekkert skjól að venda, spítalar og skólar eru skotmörk. Flóttamannabúðir eru skotmörk. „Örugg svæði“ eru skotmörk. Blaðamenn er skotmörk.
BÖRN eru skotmörk. Og íslensk stjórnvöld aðhafast ekkert.
Hver eru „okkar gildi“?
Netsamband er rofið. Fólki er safnað saman undir yfirskyni matvælaaðstoðar. Hungurmorða fólk hópast að meintum matarafhendingarstöðvum, sem í raun og veru eru ekkert annað en dauðagildrur. Fólkið er „stúkað af“ með grindum og svo er skotið inn í hópinn. Mörg eru særð, önnur eru drepin. Lokkuð í gildru og myrt. Þetta er samskonar aðferð og gasklefar Nazistanna. Íslensk stjórnvöld aðhafast ekkert. Hver eru „okkar gildi“?
Þetta er lífið á Gaza í Palestínu. Þar eru Ísraelsmenn að fremja þjóðarmorð. Það dylst engum sem hefur augu til að sjá með og eyru til að heyra með. Grimmdin og miskunnarleysið eru allsráðandi og alltumlykjandi. Íslensk stjórnvöld aðhafast ekkert.
Hver eru „okkar gildi“?
Í meira en sjö áratugi af endalausri niðurlægingu, fangelsunum barna jafnt sem fullorðinna, án dóms og laga, pyntingum, drápum og misþyrmingum Ísraela á Palestínumönnum, landráni og brottrekstri fólks af heimilum sínum hafa ofbeldismennirnir tekið niður grímuna og opinberað þá fyrirætlan Zionista að gereyða palestínsku þjóðinni. Hjálpargögn eru eyðilögð, matvælum, lyfjum og öllum öðrum nauðþurftum er haldið frá svæðinu. Hjúkrunar- og fréttafólk er myrt í trássi við öll alþjóðalög og mannúðarsamninga. Hvar er fordæming heilbrigðisráðherra? Landlæknis? Hvar er fordæming fjölmiðla? Íslensk stjórnvöld aðhafast ekkert. Hver eru „okkar gildi“?
Zíonistarnir í Ísrael tala um fólkið í Palestínu sem rottur sem þarf að útrýma og líta á palestínsk börn sem genabera og framtíðarvon þjóðarinnar sem þeir hafa ákveðið að losa sig við – þess vegna eru börnin réttdræp! Og árásarherinn hefur svo sannarlega „staðið sig vel“ – þeir framfylgja áætlun leiðtoganna af hörku, skjóta börn á færi og þau sem lifa af eru svo skemmd og illa farin af hræðslu, missi og sorg að þau verða líklega aldrei heilar manneskjur á ný, þau titra og skjálfa, stjörf af skelfingu, rúin öllu trausti til lífsins. Á bakvið þetta allt saman standa Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar. Þjóðir sem skiptir okkur miklu máli að vera í góðum samskiptum við. Vegna þess að við deilum sömu gildum, segja íslenskir ráðamenn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: hvaða gildum? Kristrún Frostadóttir: hvaða gildum?
Þrátt fyrir að mörg, ef ekki flest, deili þessum skoðunum með okkur, ofbjóði veruleikinn, þá fáum við athugasemdir um að slaka nú á, öll okkar hróp og mótmælagöngur breyti jú engu, við séum þreytandi, áhrifalaus, íslenskir ráðamenn skelli skollaeyrum við hávaðanum í okkur og við höfum svo sannarlega engin áhrif út fyrir landsteinana! Erum við þá ekki lengur þjóð meðal þjóða?
Margir segjast ekki hafa andlega heilsu til að fylgjast með, það sé einfaldlega of sárt og erfitt. Ég skil vel að fólk finni sig knúið til að hvíla sig frá hryllingnum öðru hvoru. En þögn er sama og samþykki og dropinn holar steininn. Við getum ekki setið hjá og beðið eftir því að íslensk stjórnvöld skammist sín og viðurkenni opinberlega að það er verið að ganga milli bols og höfuðs á Palestínumönnum, þjóðinni sem Íslendingar stærðu sig af að hafa viðurkennt sem sjálfstæða þjóð árið 2011, – fyrst ríkja Vestur-Evrópu!
Við sitjum ekki þegjandi hjá. Það er ekki í boði. Við höldum áfram að deila efni, að styrkja safnanir fólksins á Gaza, að sniðganga vörur frá Ísrael, að mótmæla og hrópa okkur hás. Við finnum styrkinn í samstöðunni.
Við gefumst ekki upp fyrr en Palestína er frjáls!
Birtist fyrst á Facebook.