Eftir margra mánaða bið eftir leyfi frá Ísraelsstjórn hélt hópur Íslendinga til Gaza þann 18. maí 2009. Tilgangur fararinnar var að færa fötluðum Gaza búum gervifætur í kjölfar hinna miklu árása Ísraela yfir jól og nýár. Össur Kristinsson stoðtækjasmiður og hans fólk hafa hannað sérstaka gerð gervifóta fyrir fólk á svæðum þar sem aðstæður eru erfiðar og aðkallandi. Félagið Ísland-Palestína safnaði fé til kaupa á gervifótunum og alls voru keyptir 30 fætur. Á Gaza skrifaði ég nokkur blogg á Moggablogginu sem lýsa vel upplifun minni vikuna sem við dvöldumst á staðnum.
Bloggað á Gaza 21. maí
Ég er staddur á hóteli í Gazaborg og er að reyna að sundurgreina í huganum allt það sem ég hef upplifað hér á tveimur dögum. Í rauninni líður mér líkt og að heil vika sé liðin frá þeirri stundu þegar við gengum í gegnum fangelsismúra Ísraela inn í stærsta fangelsi heims. Hér býr 1,5 milljón manna við skort og stöðugan ótta við loftárásir. Í gær keyrðum við um hverfi þar sem fallbyssukúlur Ísraela féllu fyrir þremur dögum og í dag heyrðum við sprengingar og skothvelli og fréttum síðar að Ísraelar hefðu drepið tvo Palestínumenn.
Ég er, ásamt Ingvari Þórissyni, að kvikmynda leiðangur til Gaza sem farinn er í þeim tilgangi að færa Palestínumönnum að gjöf 30 gervifætur sem félagið Ísland-Palestína hefur safnað fyrir undir forystu formannsins Sveins Rúnars Haukssonar.
Össur Kristinsson er með okkur hér ásamt þremur starfsmönnum sem sjá um að setja gervifæturna á og kenna Palestínumönnum tæknina.
Við erum búnir að ræða við heilbrigðisstarfsmenn hér og lýsingarnar á hörmungunum eru ótrúlegar. Við höfum einnig séð ljósmyndir af fórnarlömbum Ísraelshers sem eru svo hroðalegar að það er ekki hægt að sýna þær opinberlega.
M.a. sjá afleiðingar nýrra vopna sem Ísraelar notuðu óspart. Þessi vopn eru hönnuð af slíkri grimmd að það er erfitt að trúa orðum læknanna sem tóku þessar myndir. En þær tala sínu máli. Þessi nýju vopn drepa ekki fórnarlambið í öllum tilfellum, en valda áverkum sem valda ævilöngum örkumlum. Þannig verður fórnarlambið stöðug áminning um vopnayfirburði Ísraela og verður jafnframt óvinnufær byrði á þjóðfélaginu.
Hátt í tvöhundruð manns þurfa gervifætur eftir árásirnar um jól og áramót.

Gazabúinn Hosni missti báða fætur í árásum Ísraela.
Hér gengur hann sín fyrstu skref með nýjum gervifótum frá Össur Kristinssyni og félögum.
Bloggað á Gaza 22. maí
Það getur verið erfitt að blogga á Gaza – rafmagnið fer nokkrum sinnum á dag. Það er ein birtingarmynd umsátursins því Ísraelar banna aðflutning á margvíslegum nauðsynjum. Meðal bannvöru er allt byggingarefni sem nota má til að endurreisa húsin sem þeir lögðu í rúst. Palestínumenn eru ótrúlega þrautseigt fólk og úrræðagott. Til þess að sigrast á aðstæðum þá grafa þeir göng undir landmærin til Egyptalands og flytja mikið magn af allskonar varningi. Talið er að stundum séu allt að 300 göng í notkun samtímis. Ísraelski flugherinn varpar oft sprengjum til að eyðileggja göngin en Gazabúar grafa stöðugt ný göng. Það er lífshættulegt og við heyrðum sögur af fólki sem hefði dáið í göngum sem Ísraelum tókst að sprengja. Meðal þess sem er flutt um göngin dag hvern eru mörg þúsund lítrar af bensíni. Fólkið hér er mjög vinsamlegt og forvitið um okkur, enda ekki mörgum útlendingum hleypt inn í fangelsið til þeirra. Í gærkvöldi gengum við frá ströndinni heim á hótelið og stoppuðum í bakaríi. Þegar að við ætluðum að borga fyrir vörurnar þá sagði afgreiðslumaðurinn að þetta væri ókeypis. Þá var túlkurinn okkar búinn að segja honum hver við værum og þá sagði hann að þetta væri það minnsta sem hann gæti gert fyrir fólk sem væri hingað komið til að hjálpa Gazabúum.
Bloggað á Gaza 23. maí
Í dag hittum við nokkra sjómenn sem reyna að stunda sjóinn við strendur Gaza. Samkvæmt Oslóarsamkomulaginu eiga Palestínumenn 20 km. landhelgi sem þeir geta stunda sínar veiðar. Og hafa reyndar gert frá fornu fari.
Nú er svo komið að Ísraelar banna þeim að fara lengra út en 3 km – ef þeir hætta sér lengra er skotið á þá.
Samil er einn þeirra 3500 fiskimanna sem reyna að hafa lifibrauð af fiskveiðum. Nýlega skutu ísraelskir hermenn, sem dóla hér úti fyrir á herskipum, á hann og hann missti vinstri hendina. Hann var þá ekki kominn lengra en 2,5 km. frá landi. Hann getur lítið stundað sjómennsku á næstunni. Enda er það tilgangur Ísraela með sífelldum árásum á fiskimenn sem eru ekki að gera annað en það sem fiskimenn gera um allan heim.
Ísraelar vilja svelta fólkið á Gaza. Með því að banna þeim að fara lengra en 3 km frá ströndinni þá koma þeir í veg fyrir að þeir nái til gjöfulustu fiskimiðanna.
Í höfninina í Gaza streymir skólp frá borginni. Hún er orðin þrælmenguð en Ísraelar koma í veg fyrir viðgerð á biluðu hreinsunarkerfi Gazabúa. Ísraelar eiga kannski eftir að sjá eftir þessu þar sem mengunin mun einnig berast til þeirra. Það er ekki langur vegur yfir til stranda Ísraels, maður sér yfir til þeirra með berum augum.

Sveinn Rúnar formaður félagsins Ísland Palestína, ræðir við Samil fyrrverandi sjómann.
Ísraelar ráðast sífellt á fiskimenn sem hætta sér á miðin við Gazaströnd.
Í einni slíkri árás missti Samil framan af hendi og er óvinnufær síðan.
Bloggað á Gaza 24. maí
Í dag fórum við um þau svæði á Gazaströndinni sem urðu verst úti í sprengjuárásum Ísraela. Við keyrðum lengi eftir götum þar sem ekkert var að sjá nema leyfar af húsum og verksmiðjum. Það eru stærðar svæði þar sem ekkert stendur eftir af heilu hverfunum. Sums staðar hafa íbúar eyðilagðra húsa slegið upp tjöldum.
Eldri kona gekk til okkar og sagði okkur með miklum tilþrifum frá afdrifum fjölskyldu sinnar og eigna. Hún lýsti sök á hendur Bandaríkjanna sem stæðu á bak við Síonistana í Ísrael.
Það er greinilegt að sprengjuregn Ísraela hefur beinst að því að refsa fólkinu fyrir að vera Palestínumenn. Skipulagt dráp á búfénaði, vísvituð eyðilegging heimila og ýmissa bygginga sem hafa engann hernaðarlegan tilgang sýnir þetta skýrt.
Yfirlýst markmið Ísraela var að ráðast gegn Hamas.
Niðurstaðan er hinsvegar sú að Hamas-samtökin eru enn sterkari en áður og öll eyðileggingin að því leiti til einskis. Niðurstaðan er annaðhvort sú að ísraelsk stjórnvöld eru svona heimsk eða að tilgangurinn var allann tímann sá að hindra að almenningur á Gazaströndinni geti lifað því lífi sem allir kjósa sér ef þeir eiga frjálst val.

Rústir á Gaza. Ingvar Þórisson tökumaður kvikmyndar eyðilegginguna.
Ísraelar sprengdu mikið af húsum sem höfðu ekkert hernaðarlegt gildi eins og fram kemur í Goldstone skýrslunni.
Bloggað á Gaza 25. maí
Nú er ferð okkar til Gaza á enda. Við erum komin í gegnum varðstöð Ísraela í Erez. Til þess að komast frá Gaza þarf að fara í gegnum 11 hlið. Við vorum samferða tveimur Palestínskum konum, önnur háöldruð og hin með smábarn á handlegg. Hluti af aðferðum Ísraela miða að því að niðurlægja Palestínumenn.
Eftir að við höfum farið í gegnum landamæragæslu stjórnvalda á Gaza þá tekur við kílómeters löng ganga með allan farangur í steikjandi sólarhita.
Við fengum burðarkarla til að rogast með farangurinn að fyrsta hliðinu. Þar tekur við 500 – 700 metra langt búr. Við drógum töskurnar þann spöl og þar tók við hálftíma bið í búri sem bauð ekki uppá neitt nema malbikað gólf og suð í hátölurum. Þessi bið er eingöngu gerð til þess að gera fólkinu lífið leitt. Mjög lítil umferð er um þetta fangelsishlið og fáum hleypt í gegn, það er því ekki vegna anna sem allt tekur svo langan tíma.
Skyndilega opnast stálhurðir og þar er farangurinn setur á færiband. Eftir það er farið í glerbúr og þar fá menn að híma um stund. Loks er ferðalöngunum hleypt inn í annað glerbúr og þar næst opnast klefi þar sem hver og einn er skannaður frá hvirfli til ilja – skanninn snýst í kringum mann og fyrirskipanir um að rétta upp hendur koma úr gjallarhorni. Það er engin manneskja sjáanleg en greinilegt er að einhver sér þig því þeir bregðast við hverri þinni hreyfingu.
Konan sem var með barn á handlegg þurfti að fara þrisvar inn í skannann með barnið. Röddin var ekki ánægð með eitthvað og loks kemur í ljós skraut sem tilheyrir höfuðbúnaði konunnar. Eftir að skönnun lýkur þá er gegnið í gegnum tvöfalt hlið og loks inn í herbergi þar sem taskan bíður. Svo tekur við skoðun á töskum, næst er maður kominn í stærri sal og því næst kemur dvöl í litlu búri þar sem tveir landamæraverðir spyrja mikið um ferðina og tilgang hennar. Að lokum þarf að ganga spöl að næsta hliði og þá er maður loksins kominn í gegn. Gamla konan komst í gegn en sú með barnið var send til baka.
En á Gaza eru 1,5 milljón manna enn innilokaðar við hörmulegar aðstæður.
Birtist fyrst á Frjáls Palestína.