Mig hafði lengi langað til Palestínu, bæði á Gaza og Vesturbakkann, þegar ég loks fékk tækifæri til að fara til Gaza núna í nóvember. Ég hef verið meðlimur í Félaginu Ísland-Palestína (FÍP) í nokkur ár, þar af þrjú ár í stjórn. Góðan tíma þarf í undirbúning ef ferðinni er heitið til Gaza því ekki er í hendi hvenær nauðsynleg leyfi eru veitt. Ég hafði sótt um leyfi hjá egypska utanríkisráðuneytinu til að fara í gegnum Rafah inn á Gaza og var búin að bíða nokkuð lengi þegar leyfið kom. Hafði ég ferðast heilmikið um Egyptaland nú í október, bíðandi eftir téðu leyfi og var stödd í Aswan í suður Egyptalandi þegar það barst og þá var bara um að gera að drífa sig norður til Kaíró. Frá Kaíró fór ég til El Arish sem er bær við Miðjarðarhafið nálægt Gazaströnd, en þaðan um klukkustundar keyrsla til landamærabæjarins Rafah. Það tók svona nokkurn veginn allan daginn að komast í gegn, fyrst um landamærahliðið Egyptalandsmegin og síðan Palestínumegin. Um 6 klst. tók það Egyptana að hleypa mér í gegn, en öryggissveitir Hamas sem stjórna landamærunum Palestínumegin voru kurteisin uppmáluð og hleyptu mér inn án vandræða.

Gaza er um 42 km. löng strandlengja sem liggur við austurströnd Miðjarðarhafsins og nær frá Rafah í suðri til Gazaborgar í norðri og liggur milli Egyptalands og Ísraels. Á miðri síðustu öld sagði í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að landsvæðið bæri varla þau 300.000 manns sem þá bjuggu þar, en nú er talið að 1.600.000 manns búi á Gaza. Atvinnuleysi telst vera um 80% og flestir íbúanna eru flóttamenn og afkomendur þeirra sem hafa flúið þangað bæði eftir stríðið 1948 og eftir Sex daga stríðið 1967 og hefur verið bannað að snúa aftur heim eða heimili þeirra tekin af þeim.
Ég bjó þessa daga á yndislegu hóteli sem heitir Marna House og er í Gazaborg. Það er í eigu Basil Shawa sem tilheyrir Shawaættinni sem er ein elsta fjölskyldan á Gaza. Þau hjónin Basil og Norma reka þar líka veitingastað sem er vel sóttur öll kvöld af Gazabúum, aðallega þó karlmönnum sem fá sér vatnspípu og te eftir vinnu. Marna House er þekkt athvarf útlendinga sem koma til Gaza, fréttamanna og annarra en hótelið er það elsta á Gaza. Flesta dagana var ég þó eini gesturinn þarna og vel með mig farið.

Gazabúar furðuðu sig dálítið á veru minni þarna, sögðu einfaldlega að útlendingar kæmu ekki til Gaza nema vegna stríða og blóðsúthellinga, en þegar ég var þarna var allt með kyrrum kjörum. Ég var spurð nokkrum sinnum meðan á dvölinni stóð, hver ástæðan væri fyrir veru minni og á hvers vegum ég væri. Mátti skynja að heimamönnum fyndist merkilegt að einsömul ferðakona á óræðum aldri væri að þvælast þarna, öðru máli gegndi þegar stríð eða ófriður geisaði, því þá fylltist allt af gestum. Ég sagði eins og satt var að ég væri á eigin vegum, hefði mikinn áhuga á að kynna mér Gaza og væri í raun að heimsækja alls kyns fólk og stofnanir sem ég hefði kynnst í gegnum starf mitt með FÍP. Þegar ég lít til baka, þá er þetta í fyrsta sinn sem ég fæ slíkar spurningar því sem venjulegur ferðamaður öðlast maður sjálfkrafa viss réttindi og skyldur sem heimamenn skilja og taka tillit til. Þegar ég hef verið að ferðast, hefur það verið í fríi eða vegna vinnu og því markmiðin með ferðinni nokkuð skýr og afmörkuð. Á Gaza er þetta, af augljósum ástæðum, allt öðruvísi og spáðu heimamenn heilmikið í hvað ég væri að vilja, eins og þeir trúðu því varla að nokkur maður kæmi bara til að heimsækja þá.

FÍP er í miklum og góðum samskiptum við alls kyns stofnanir í Palestínu og hefur í gegnum tíðina styrkt málefni á Gaza og sent fé til ýmissa stofnana sem við í stjórninni höfum talið mikilvægt að sinna. Mér var því umsvifalaust tekið með kostum og kynjum og strax fyrsta kvöldið heimsótti Ali Abu Afesh mig, en hann er nokkurs konar óformlegur heiðurskonsúll Íslands á staðnum og sjálfskipaður reddari og umboðsmaður Íslendinga. Hann er vinur Sveins Rúnars formanns félagsins og sagði mér þegar hann kvaddi mig eftir tíu daga að nú væri hann búinn að eignast nýja systur og á þó maðurinn sex systur fyrir! Ali Abu og konan hans Shireen eru dásamleg, hjálparhellur og allsherjar reddarar. Ali og hans stórfjölskylda nánast ættleiddu mig þessa daga sem ég var á Gaza. Ég kynntist allri fjölskyldunni mjög vel, foreldrum, systrum, bræðrum og frændsystkinum og voru heimboðin ótalmörg.
Ég hafði einsett mér að kynnast samstarfsaðilum FÍP og þeirri starfsemi sem þar færi fram. Marga hitti ég og skoðaði ýmsa mjög áhugaverða staði bæði í Gazaborg og í Rafah. Af mörgum merkilegum stöðum sem ég heimsótti ætla ég að nefna nokkra:
- Hjá Sameinuðu þjóðunum er verið að undirbúa maraþonhlaup barna og unglinga á Gazaströnd sem verður haldið nú í mars 2012. Það er haldið til fjáröflunar Sumarleikanna (UN Summer Games) sem eru haldnir ár hvert og taka um 250 þúsund börn þátt á Gaza. Þetta er í annað sinn sem hlaupið er haldið og ef lesendur vilja fá frekari upplýsingar um hvernig hægt er að styðja framkvæmdina – nú eða taka þátt í hlaupinu, þá bendi ég á auglýsingu frá UNRWA um hlaupið á vefsíðu okkar; www.palestina.is
- Aid and Hope Center er eftirmeðferðarmiðstöð fyrir krabbameinssjúkar konur og börn, en afar margir greinast með krabbamein á Gaza á hverju ári og hlutfallið þar mun hærra en í nágrannalöndunum og fer hækkandi með ári hverju. Krabbameinssjúkir fá fræðslu og ráðgjöf og einnig fjölskyldur þeirra. Þar tók ég þátt í fataúthlutun sem var haldin vegna þess að ein stærsta trúarhátíð múslima, Eid al-Adah eða „Fórnarhátíðin“ var á næsta leyti og börnin skyldu fá ný föt. Mikið var um dýrðir á Gaza vegna hátíðarinnar, búfénaði slátrað og Aid and Hope miðstöðin hafði safnað fatnaði á Gaza til að deila með skjólstæðingum sínum. Um átta konur vinna þarna sex daga vikunnar í sjálfboðavinnu, bæði ráðgjafar og læknar. Aid and Hope er með fésbókarsíðu.
- Ég heimsótti Rachel Corrie Center í Rafah, en miðstöðin er kennd við unga bandaríska konu, sem myrt var af Ísraelsmönnum er skurðgrafa keyrði yfir hana þar sem hún stóð ásamt fleira fólki og reyndi að varna því að hús vina hennar væri jafnað við jörðu. Þar fer fram merkilegt starf í þágu barna á svæðinu og er þetta nokkurs konar félags- og ráðgjafamiðstöð. Allt starf er unnið af sjálfboðaliðum þarna eins og flestum þeim stöðum sem ég kom á.
- Aisha miðstöðin er starfrækt fyrir konur sem hafa þurft að þola ofbeldi, andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt, nokkurs konar Stíga mót Gazakvenna. Sinnir mið stöðin miklum fjölda kvenna sex daga vikunnar. Allt starf er rekið með söfnunarfé sem berst víða að, m.a. frá Svíþjóð, Sviss, Kanada og víðar. Þarna fá konurnar ráðgjöf, annað hvort í hópi eða einstaklingsráðgjöf. Einnig geta þær komið og sinnt handverki margs konar sem síðan er selt til styrktar starfseminni. FÍP stofnaði Maríusjóðinn við Aisha miðstöðina, sem er stofnaður með gjafafé frá Maríu Magnúsdóttur. María er ný orðin 95 ára og einn ötulasti stuðningsaðili FÍP.
- Ég fór í ALPC (Artificial Limbs and Polio Center) sem hefur verið í miklu samstarfi við FÍP undanfarin ár. Össur á Íslandi hefur af miklum rausnarskap gefið efni í um 50 gervifætur sem hafa farið til ALPC á Gaza og er þetta samstarfsverkefni Össurar og FÍP, en félagið hefur einnig tekið þátt í kostnaðinum vegna gervifótanna.
Ég gæti nefnt fleiri staði sem ég heimsótti á þessum dögum eins og sjúkrahús og heilsugæslustöðvar en ætla að láta þetta nægja þar sem mér finnst þetta gefa nokkuð glögga mynd af stússi mínu þessa daga. FÍP er í sambandi við mýmargar stofnanir og einstaklinga á Gaza og er í rauninni stórmerkilegt hvað félagið kemur víða við og er virt af heimamönnum.

En ekki var ég á eintómum fundum því heilmikill tími gafst í að kynnast heimamönnum persónulega. Ali Abu heiðurskonsúll og fjölskylda hans sáu vel um mig og þar sem ég var stödd þarna á Fórnarhátíðinni, fór ég ekki varhluta af undirbúningi fyrir hana og svo herlegheitunum sjálfum sem standa í nokkra daga. Á þessum tíma kom skýrt fram samfélagsleg ábyrgð íbúanna, þeir reyna að sjá um sína, bæði fjölskyldu og nágranna og er mikil samstaða meðal Palestínumanna um að hver og einn fari ekki varhluta af hátíðinni. Í Kóraninum segir að á fórnarhátiðinni skuli slátra lambi (eða öðrum kvikfénaði) og sá sem á gripinn fær 1/3, síðan fjölskylda hans 1/3 og afgangurinn er gefinn fátækum. Palestínumenn hafa mjög ríka samkennd með meðborgurum sínum og er þá sama hvort viðkomandi býr allslaus í flóttamannabúðum eða við betri kost annars staðar.

Mér var boðið í matarveislur þar sem var dansað, etið og skemmt sér fram á nótt. Palestínumenn eru miklir gleðimenn, gestrisnir, hafa ríkan húmor og gefa gestum sínum gjafir í tíma og ótíma og fór ég ekki varhluta af því. Þeir gera líka marga hluti hratt eins og að borða hratt, hugsa og tala hratt og kannski er það hluti af þeirra persónugerð, þeir hafa lært af langri og biturri reynslu að „grípa gæsina“ þegar hún gefst.
Ég fór eftir tíu daga á Gaza en langaði að vera miklu lengur. Ég kynntist dásamlegu fólki, duglegu fólki sem var afar stolt af uppruna sínum og ákveðið í að láta ekki ótrúlegt andstreymi buga sig. Ég fór í flóttamannabúðirnar „Beach Camp“, þriðju stærstu flóttamannabúðir á Gaza þar sem búa rúmlega 87 þúsund manns á hálfum ferkílómetra og þar var boðið upp á te og ávexti þó fólk ætti varla til hnífs og skeiðar. Einn heimamann hitti ég í banka í Gazaborg sem sagði mér að það gæfi þeim von að sjá útlending á Gaza, þeir sæjust sjaldan nema geisaði stríð en hver og einn gestur skipti máli, því við gætum komið fréttum um Gaza til umheimsins og ekki bara þegar geisaði stríð.
En gleymum ekki eftirfarandi staðreyndum varðandi Gaza:
- Þarna búa 1.600.000 manns en 1967 töldu Sameinuðu þjóðirnar að landsvæðið bæri ekki fleiri en 300.000.
- Landsvæðið er einungis 360 ferkílómetrar.
- Um 1.200.000 íbúanna eru palestínskir flóttamenn, skráðir hjá Sameinuðu þjóðunum.
- Um 500.000 manns búa í 8 flóttamannabúðum.
- Atvinnuleysi er talið vera allt að 80%.
- Milli 50–70% allra barna þjást af vannæringu.
- Árásir Ísraelsmanna um áramótin 2008 eyðilögðu um 60.000 heimili og drápu rúmlega 1400 manns, þar af konur og börn.
- Mikil aukning hefur orðið síðustu árin á þeim sem greinast með krabbamein, en talið er að þetta stafi m.a. af þeim efnavopnum sem Ísraelsmenn notuðu í síðasta stríði.
- Ef ekki væri fyrir Sameinuðu þjóðirnar (UNRWA – United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees), væru ekki starfræktir skólar, heilsugæsla né önnur félagsleg aðstoð.
- Í hverjum mánuði reiða 800.000 manns sig á matargjafir UNRWA.
- Hernám Ísraels á Gaza gerir það að verkum að illmögulegt er fyrir Sameinuðu þjóðirnar að vinna að uppbyggingu á svæðinu. Öll innri samfélagsgerð er í molum.
- Ekkert kemst inn né út af svæðinu nema í gegnum göngin sem hafa verið grafin frá Gaza til Egyptalands og nú er talið að um 300 göng séu í notkun en voru áður um 1000, en Ísraelar eyðileggja þau um leið og þau finnast. Þau eru eina lífæð Gazabúa því öll landamæri eru harðlokuð.
- Íbúarnir lifa í „gettói“ í sínu eigin heimalandi, lokaðir inni eins og glæpamenn.
Hernáminu um Gaza og í Palestínu allri verður að linna og hver og einn sem lætur sig málefni Palestínu varða getur orðið að liði. Þann 29. nóvember sl. steig Alþingi Íslendinga mikilvægt skref með viðurkenningu á rétti Palestínumanna til sjálfstæðs og fullvalda ríkis, en baráttunni verður haldið áfram þangað til Palestínumenn geta raunverulega um frjálst höfuð strokið í eigin heimalandi.
Lifi frjáls Palestína!
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.